Categories
Uncategorized

Japönsku Harley hjólin

Það eru ekki allir sem vita af því að í Japan voru framleidd Harley-Davidson mótorhjól á millistríðsárunum. Saga merkisins byrjar árið 1912 þegar japanski herinn keypti nokkur mótorhjól til prófunar. Sú prófun virðist hafa dottið uppfyrir því að engir varahlutir voru pantaðir í kjölfarið. Næsta sending af Harley-Davidson mótorhjólum kom árið 1922 og var það Nippon Jidoshe KK innflutningsfyrirtækið sem stóð fyrir því. Forstjóri þess var Baron Kishichiro Okura sem var meðal þeirra fyrstu til að flytja inn bíla til Japan, en hann hafði einnig getið sér gott orð fyrir kappakstur. Hann tók á námsárum sínum þátt í fyrsta Brooklands kappakstrinum í Englandi árið 1907 og náði þar öðru sæti.

Alfred Rich Child ásamt fjölskyldu stuttu fyrir förina til Japan árið 1924.

Fyrsta pöntunin innihélt nokkur Model J hjól og nokkrir tugir slíkra hjóla voru pöntuð á næstu tveimur árum. Líkt og áður voru engir varahlutir pantaðir sem Harley-Davidson í Bandaríkjunum þótti skrýtið. Merkið hafði ávallt lagt mikið uppúr þjónustu varahluta og engin pöntum á þeim passaði ekki við reglur merkisins. Sama átti sér stað með sendingu til Mongólíu á sama tíma og því sendi Harley-Davidson í Bandaríkjunum Alfred nokkur Rich Child til Japan að sjá hvað væri á seyði. Samningaviðræður við Baron Okura gengu illa og ekki náðist að koma á alvöru innflutningi gegnum hann. Þá gerðist það að Alfred kynntist Genjiro Fukui, sem hafði verið að selja Harley-Davidson mótorhjól úr sendingunni til Mongólíu, fyrir framan nefið á Baron Okura. Náðu þeir svo vel saman að Alfred samdi við Fukui og stofnað var innflutningsfyrirtæki fyrir Harley-Davidson mótorhjól árið 1924. Fukui sá um fjármögnun en Alfred var framkvæmdarstjóri og fékk hann í sinn hlut 5% af allri sölu í Japan fyrir samninginn.

Eftir jarðskjálftann árið 1923 þóttu þríhjóla mótorhjól sérlega hentug til að komast um hróstug héröð Japan og því voru framleiddar sérstakar útgáfur með sterkari grindum.

Fyrsta sendingin innihélt 350 mótorhjól, öll með hliðarvagni, enda höfðu þannig farartæki reynst vel eftir Kanto jarðskjálftann í Japan árið 1923. Ásamt þessum fyrstu hjólum komu varahlutir fyrir 20.000 dollara og sérverkfæri fyrir 3.000 dollara með fyrstu sendingunni. Þar sem að Fukui var forstjóri Sankyo lyfjafyrirtækisins í Japan var hann með samninga við japanska herinn, og áður en langt um leið voru Harley-Davidson mótorhjól notuð í alls konar viðvik hjá lögreglu, her og lífvarðasveitum keisarans. Gekk influtningurinn svo vel að flutt voru inn 2.000 hjól á hverju ári til að byrja með.

Alfred Rich Child við fyrsta EL Knuclehead hjólið sem flutt var inn til Japan árið 1936.

Þegar heimskreppan reið yfir árið 1929 var japanska jenið gengisfellt um helming. Einnig voru settar innflutningshömlur sem gerði innflutning farartækja illmögulegan. Þar sem að Harley-Davidson mótorhjól höfðu allt í einu hækkað í verði um helming ákvað Alfred að það eina skynsamlega í stöðunni væri að fá að smíða Harley-Davidson mótorhjól með leyfi framleiðandans í Japan. Hann fór því til Milwaukee haustið 1929 ásamt fulltrúa Sankyo til samningaviðræðna við Harley-Davidson í Bandaríkjunum. Hafði hann með sér 75.000 dollara til að tryggja samninginn sem að kom sér vel, því að merkið var þegar í fjárhagskröggum vegna hrunsins. Fékk hann því samning í gegn sem leyfði framleiðslu á Harley-Davidson í Japan og líklega bjargaði þessi samningur merkinu frá gjaldþroti í kreppunni miklu, en það leyndarmál var varðveitt lengi eins og gefur að skilja. Það var ekki fyrr en á níunda áratugnum sem að þessi samningur kom fram í dagsljósið á vesturlöndunum.

Þetta fágæta Rikou Type 97 herhjól má finna á mótorhjólasafni V. Sheyanov.

Fyrstu japönsku Harley-Davidson mótorhjólin voru smíðuð árið 1935 og voru það 1.200 rsm Model VL sem kölluð voru Rikuo sem þýddi einfaldlega Road King. Þeirri helsti viðskiptavinur var líkt og áður japanski herinn sem fór ört stækkandi á þessum tímum. Árið 1936 var hið nýja Knucklehead módel sent til prófunar í Japan en sá sem sá um prófunina var Richard Rich Child, sonur Alfreds. Hann ákvað á Knucklehead hjólið hentaði ekki vel fyrir japanska markaðinn enda fylgdi því óhagstæðari samningur um framleiðslu. Vegna óánægju með nýja hjólið og samningana fór fulltrúi Sankyo fyrirtækisins, Mr. Kusanobu, til fundar við stjórn Harley-Davidson í Bandaríkjunum. Þar kvartaði hann yfir samningnum og þeirri staðreynd að Alfred fengi 5% í sinn hlut sem hafði gert hann auðugan á japanskan mælikvarða. Hótaði hann að hætta stuðningi við merkið í Japan ef að Alfred yrði ekki rekinn. Einnig hótaði hann því að halda áfram að selja Harley-Davidson mótorhjól í Japan undir Rikuo merkinu. Eins og gefur að skilja lagðist það ekki vel í stjórnina sem að henti honum nánast öfugum út. Mr. Kusanobu stóð þó við stóru orðin og hóf að framleiða og selja Rikou mótorhjólin sem japanskt merki. Alfred Rich Child fékk í staðinn einkaleyfi á sölu Harley-Davidson mótorhjóla í Asíu en það voru einnig lönd eins og Kína, Manchuria og Kórea.

Rikou mótorhjól japanska Kyrrahafsflotans sem að réðst inní Kína ári 1937 og hertók Shanghai.

Árið 1937 réðst japanski herinn inní Kína og Alfred þurfti að flýja land. Vegna þess að góðvinur hans Fukui hafði keypt hans hlut í fyrirtækinu fór hann ekki þaðan slyppur og snauður en það gerðu eigendur Ford, Chrysler og GM verksmiðja í Japan hins vegar ekki, sem allar voru settar í þjónustu japanska hersins. Rikou framleiddi um 18.000 VL módel fram til árins 1942 sem er svipuð tala og Harley-Davidson í Bandaríkjunum framleiddi til hernaðarnota á sama tíma! Árið 1942 fór Rikou verksmiðjan tímabundið að framleiða tundurskeyti en framleiðsla hófst aftur árið 1947 á WL síðuventla módelinu. Árið 1950 kom svo 1.200 rsm útgáfa á markað en Rikou hélt áfram framleiðslu til árisns 1962, þegar Harley-Davidson hóf aftur innflutning til landsins.

Rikou Model R frá 1955 með tveggja strokka 750 rsm síðuventla vél.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *