Fleiri gömul BSA

Við myndaleit vegna bókarskrifa hjá Þjóðminjasafni Íslands rakst ég á tvær mjög gamlar myndir af BSA mótorhjólum. Erfitt er að segja hvar þessar myndir eru teknar eða hvaða fólk er á hjólunum en sjá má númer á öðru þeirra. Myndirnar eru líklega teknar snemma á þriðja áratug síðustu aldar og því að verða hundrað ára gamlar.

RE-161 er BSA Model 2 frá 1918 eða þar um bil. Vélarnúmer þess 30676 og hestöfl 4,5.

RE-161 var í eigu Þórðar L Jónssonar, Þingholtsstræti 1 til 8. júní 1920, en þá tilkynnir Þórður að hann hafi selt Lofti Guðmundssyni, verksmiðjueiganda hjólið en hann bjó þá á Miðstræti 4. Tilkynnt er 5. september 1922 að hjólið ahfi verið selt í ágúst Magnúsi Oddssyni frá Eyrarbakka. Hann selur að Gunnar Gunnarssyni bifreiðastjóra, Hafnarstræti 8. Hann selur Hinriki Jónssyni Álftanesi en tilkynnt 20. september 1923 að það sé selt Ásgeiri Stefánssyni í Hafnarfirði.
1926 er það komið í eigu Guðmundar Egilssonar í Hafnarfirði og þá með númerið HF-48. Guðmundur er einnig skráður fyrir því 1929 og er það það síðasta sem viðtað er um hjólið.

Hér má sjá RE-161 skráð í gamla skoðunarbók sem oft eru einu heimildir um þessi hjól.

Þessi útgáfa BSA Model 2 kom á markað árið 1915 og þótti sérlega hentugt til að bera hliðarvagn. Tvær útgáfur voru af því, Model K sem var með reim sem lokadrifi og Model H sem var með keðju í lokaðri hlíf. Á síðu Yesterdays.nl í Hollandi var til sölu slíkt hjól fyrir nokkru með Canoelet hliðarvagni, svipuðum og á íslenska hjólinu.

Hjólið í Hollandi var í grunninn alveg eins hjól og RE-161 en með aðeins fínni hliðarvagni.

BSA hjólið sem birtist aftur og aftur

BSA Model E var með 50° V2 vél sem var 770 rúmsentimetrar og reyndar aðeins 6 hestöfl. Það var 153 kíló án hliðarvagns og gat þannig náð 88 kílómetra hraða í gegnum þriggja gíra kassa. Drif- og keðjuhlíf var úr áli og það hafði Girder framgaffall. Bensíntankurinn var með flötum hliðum inni í röragrind með demantslagi.

Um daginn barst mér í hendur mynd af BSA mótorhjóli á Eyrarbakka, en á hjólinu sátu kunnugleg hjón úr bók minni “Þá riðu hetjur um héröð” en það voru þau Bjargmundur Guðmundsson úr Hafnarfirði og frú. Er myndin tekin fyrir framan verslun Guðlaugs Pálssonar á Eyrarbakka en hann var vinur þeirra hjóna. Um sama leyti komst ég í gamlar skráningarupplýsingar sem sýndu að þetta hjól hafði einmitt verið í eigu Guðlaugs, sem kaupir það 1. maí 1926 af Þorleifi Andréssyni í Borg, og mun víst hafa verið eina ökutækið sem Guðlaugur átti. Myndin er því líklega tekin við það tækifæri þegar Bjargmundur kemur að kaupa hjólið árið seinna. Hjólið er með vélarnúmerið K32 og þekkist af því en bar skráningarnúmerið ÁR-37, en það skrýtna er að númerið á myndinni er RE-158. Það númer mun hins vegar hafa verið á Harley-Davidson hjóli, en Guðlaugur taldi sig einmitt hafa átt slíkt hjól í viðtali löngu síðar.

Í Vísi þann 12. september 1927 kemur fram að Bjarmundur hafi lent í óhappi á hjólinu ásamt konu sinni. “Bjargmundur Guðmundsson, umsjónarmaður ljósastöðvarinnar í Hafnarfirði, meiddist allmikið i gær, er bifhjól valt um koll undir bonum, skamt frá Hafnarsmiðjúnni, þar sem járnbrautarteinarnir liggja yfir vegjnn. Karfa var fest við hjólið og sat kona í henni, en hún meiddist litið eða ekkert.”

Bjargmundur og frú við verslun Guðlaugs Pálssonar á Eyrarbakka sem átti hjólið 1926.

Við skulum aðeins drepa niður í frásögn um HF-10 hjólið í bókinni: “Hjól þetta er líklega um það bil 1920 árgerð, en Bjargmundur mun allavega hafa átt það frá 1927-29. Árið 1933 er það komið í eigu Guðleifs Bjarnasonar sem selur það Gísla Guðmundssyni árið 1935, sem er einnig skráður fyrir því ári seinna. Árið 1936 er það komið til Reykjavíkur með númerið RE-459, þá í eigu Hjálmars Jóhannssonar. Bjarni Helgason, Laugavegi 20b kaupir það árið 1938 og til marks um endingu hjólsins er það selt Jóni Sigurgeirssyni, Helluvaði, Mývatnssveit árið 1939, þá orðið hjartnær 20 ára öldungur.”

Á myndinni eru þau hjónin Bjargmundur og Kristensa Kristófersdóttir ásamt dætrum þeirra tveimur, Önnu á tíunda ári og Guðbjörgu yngri dóttur þeirra. Myndin er tekin 1929.

Það er eins og sum mótorhjól leiti á mann og er svo um þetta hjól því að Jón Sigurgeirrsson er einmitt maðurinn sem ritaði Mótorhjóladagbækurnar sem dóttir hans kom í mínar hendur á dögunum. Þar segir Jón frá BSA hjólinu sem hann kaupir fyrir sunnan árið 1939 og keyrir norður, en sendi hliðarvagninn með skipi til Húsavíkur. Þegar vagninn var kominn undir hafi hann í fyrstu verið svo óklár á þetta farartæki að við slysum lá í prufuferð um götur bæjarins. Jón átti hjólið einn vetur og notaði til vinnu í Bjarnarflagi en hann var líka oft kallaður til símaviðgerða um sveitirnar og til er góð saga af einu slíku ferðalagi á hjólinu. “Þegar Mývatn lagði stytti ég mér leið milli bæja, en kalt var oft að aka móto froststormi á ísnum. Þess minnist ég að eitt sinn er ég fór úr Ytri-Neslöndum undir nótt í skammdegismyrkri á glærum ís, suður í Álftabáru. Það var nístingsfrost og stormur í fangið. Þá voru ekki til gæruskinnúlpur. Ég tók sætið úr körfunni og tróð mér svo langt niður í hana að ég sá ekki út og lagði þannig af stað. Ég varð að teygja mig öðru hverju upp til að átta mig á gíghólunum við vatnið sem glórði í af bjarma frá norðurljósum og stjörnum himinsins, en hjólið rann beint áfram þótt ekki væri haldið um stýrið. Þá kom sér vel að geta sett hraðan með bensínsnerlinum, og skýlt svo höndunum. Hefði einhver mætt mér, þá hefði skapast sönn þjóðsaga um gandreið. Sá hefði í myrkrinu séð grilla í svartan óskapnað, þjóta á ofsahraða með hávaða og skellum, spúandi eldi og reyk, en hvergi nokkurn mann að sjá.” Þegar Jón flytur til Akureyrar til að fara í lögregluna selur hann hjólið til Siglufjarðar og síðasti skráði eigandi þess er Haraldur Kr. Guðmundsson, Þrastargötu 7 árið 1940 en þá er það komið með númerið R-1145.

Motor Cycling fjallar um Ísland árið 1914

Í gömlu hefti Motor Cycling frá 1914 segir frá komu Miss Nan Henry til Ástralíu að kynna Precision mótorhjólin. Henry var eina konan í Bretlandi sem vann við að kynna mótorhjól. Í blaðagreininni segir hún meðal annars frá því að hún hafi verið ráðin af Íslenska mótorþróunarfélaginu (Iceland Motor Developing Company) til að kynna Precision Junior hjólin á Íslandi. Þar lýsir hún landi án lesta eða annara stórra farartækja og lélegum vegum sem þar voru. Vegna þess hefðu íbúar landsins þurft að snúa sér að léttum mótorhjólum til að komast á milli staða.

Greinin um Miss Nan Henry í Motor Cycling tímaritinu ári 1914.

Litla Junior hjólið hentaði landslaginu einstaklega vel þar sem það er svo létt og meðfærilegt. Hún klykkir út með að segja að það séu hundruð Precision Junior hjóla þar núna sem séu eigendum sínum til ómældrar ánægju. Eflaust er síðasta setningin ekkert annað en ýkjur til að auðvelda sölu hjólanna en til eru nokkur dæmi um hjól með Precision mótorum, aðallega af nokkrum myndum en einnig úr skráningum frá 1920 svo eitthvað er til í þessari sögu. Munu það vera nöfn eins og Mead Flyer og Radco svo eitthvað sé nefnt.

Mótorhjól með Precicion mótor einhverstaðar á Íslandi.

Annað sem styður þennan orðróm er stutt grein úr októberhefti The Motorcycle frá 1914. Þar segir frá láti mótorhjólamannsins L. W. Spencer í stríðsátökum í Frakklandi. Þar er hans meðal annars minnst sem eins breska mótorhjólamanninum sem ferðast hafi um Ísland á mótorhjóli. Spencer rak um tíma litla mótorhjólaverksmiðju sem framleiddi Little Giant hjólin, sem voru með Precision mótorum.

Stína á hjólinu

Kristín Kristjánsdóttir frá Húsavík var ein fyrsta konan á Íslandi til að eiga og nota mótorhjól, en það átti hún um miðja tuttugustu öldina. Hún átti Royal Enfield hjól frá hernum í nokkur á og notaði hún hjólið talsvert í veiði og til að heimsækja fjölskyldu sína í Bárðardal. Einnig notaði hún það til ferðalaga og ferðaðist mikið með Ríkharði Pálssyni sem einnig átti mótorhjól. Fóru þau meðal annars saman í Ásbyrgi á hjólunum.

Myndin af Stínu sýnir hana laga sprungið afturdekk á hjóli sínu einhversstaðar í Aðaldalshrauni. Mynd © Minjasafnið á Akureyri.

Hún var mjög smávaxin og grönn og ef hjólið fór á hliðina reisti hún það ekki við hjálparlaust. Hún kom nokkrar ferðir á því í Lundarbrekku til systur sinnar. Hún hafði þann hátt á þegar hún var að fara fram í sveitir, að fara seinnipart nætur á stað til að losna við umferð. Einu sinni var hún á leið í Lundarbrekku og áði við BP bensíntank sem Lúter Vigfússon á Fosshóli var með. Hún mældi bensínið á hjólinu til að sjá hvort það dygði suður í Lundarbrekku. Hún vildi helst ekki vekja Lúter ef hún kæmist hjá því. Hún ákvað að bensínið væri nóg, en þegar hún var að setja hjólið í gang datt það á hliðina. Varð hún því að vekja Lúter og fá hann til að hjálpa sér að reisa það við. Lúter tók ekki annað í mál en hún drykki með sér kaffi, einmitt það sem hún ætlaði að sleppa við.


Royal Enfield Flying Flea var einfalt 125 rsm mótorhjól með handskiptingu á bensíntanki.

Einu sinni festi hún hjólið í djúpum hjólförum uppi á Mývatnsheiði. Hún var á leiðinni upp í Hofsstaði að veiða í Laxá. Það varð henni til bjargar að Siggi í Haganesi, frændi hennar kom á bíl og hjálpaði henni að losa hjólið, en hann var að fara í flug snemma til Akureyrar.

Talsverðu var eytt í þróun þess að geta kastað Flying Flea út úr flugvélum þótt það hafi sjaldan verið raunin þegar til kom. Mynd © Top Gear

Hjólið hennar Stínu bar númerið Þ-110 og var Royal Enfield Flying Flea hermótorhjól sem hannað var sérstaklega til að það væri hægt að kasta því út í fallhlíf. Hjólin voru létt enda bara með 125 rúmsentimetra vél en beðið var sérstaklega um þau af breska hernum þegar ekki var lengur hægt að fá DKW RT100 hjólin árið 1938 vegna yfirvofandi átaka. Hægt var að fella upp fótstig og startsveif ásamt stýrinu til að hjólið tæki sem minnst pláss. Gengið var frá bensíni þannig að það læki ekki þrátt fyrir að hjólið væri á hvolfi. Hjólin urðu vinsæl eftir stríð sem ódýr leið til að útvega sér ökutæki og voru í framleiðslu nánast óbreytt til 1950. Hjólið hennar Stínu er með handskiptingu hægra megin og handkúplingu vinstra megin á stýri, svo það hefur hugsanlega þjónað í stríðinu. Ekki er vitað um afdrif hjólsins eftir að Stína átti það.

Ásinn frá 1959

Elsta lögregluhjólið á Íslandi er þetta Harley-Davidson FL frá 1959.

Árið 1958 urðu þáttaskil hjá Harley-Davidson með tilkomu afturfjöðrunar í stóru hjólunum. Vökvafyllt framfjöðrun hafði komið á markað 1949 og fékk fljótlega nafnið Hydra-Glide og því lá beint við að nýju hjólin fengu nafnviðbótina Duo-Glide. Elsta íslenska lögregluhjólið er einmitt slíkt hjól af 1959 árgerðinni. Í hjólinu er 50 hestafla Panhead mótor sem tók við af Knucklehead mótornum árið 1948. Hjólið er með svokölluðu „kickstarti“ en rafstart kom ekki í Harley-Davidson hjólum fyrr en 1965 og fengu þau heitið Electra-Glide.

Frá heimsókn Ólafs Noregskonungs árið 1961 en þar stýrði Sigurður Emil Ágústsson viðhafnarkeyrslu.

Þetta eintak er geymt á mótorhjólasafninu á Akureyri og er upprunalegt með öllu sem er frekar fágætt. Það er meira að segja með upprunalega gráa litnum sem aðeins var notaður á lögregluhjól Harley-Davidson á þessum tíma. Hjólið er búið sírenu á frambrettinu, slökkvitæki undir sætinu ásamt upprunalegri talstöð og lögregluljósum. Það eina sem vantar á hjólið er startsveifin sem tekin var af þegar hjólið var sett í geymslu á lögreglustöðinni á Hverfisgötu. Áður hafði það verið í geymslu á Korpúlfsstöðum við slæman aðbúnað en nokkrir framsýnir lögreglumenn björguðu því þaðan ásamt öðrum gripum. Reyndar er einnig til leyfar af eldra lögregluhjóli frá 1955 sem er óuppgert og í kössum, en vonandi fáum við tækifæri til að fjalla um það síðar.

Cleveland mótorhjólið

Cleveland mótorhjól mun hafa verið til á Íslandi snemma á þriðja áratugnum en 18. ágúst 1921 var slíkt hjól skráð hér á númerið RE-23. Cleveland mótorhjólin þóttu nokkuð sérstök fyrir það að vera lítil og létt með tvígengisvél. Byggðu þau í raun og veru á frumgerð frá Triumph en vél Cleveland hjólanna var flóknari með snúðlaga tannhjóli sem snéri átaki vélarinnar um 90 gráður. Gírkassinn var tveggja gíra og búinn tannhjóli og keðju sem dirfbúnaði, en vélin dreif einnig stóra magnetukveikju sem komið var fyrir rétt fyrir framan afturhjólið. Fyrstu Cleveland hjólin voru með 221 rúmsentimetra vél og voru talsvert notuð í fyrri heimsstyrjöldinni sem sendlahjól.

Vélarnúmer Cleveland hjólsins var 17071 og hestaflatala skráð 1,9 hestöfl en í raun og veru þóttu þau nokkuð aflmikil miðað við stærð og náðu allt að 100 km hraða.

Einu upplýsingar um Cleveland umboð hérlendis eru þær að Espholin Co á Akureyri auglýstu mótorplóga frá Cleveland en Espholin flutti einnig inn fyrsta og eina Henderson mótorhjólið, svo vel má vera að Cleveland mótorhjól hafi fengið að fljóta með. Engar myndir voru til af Cleveland mótorhjólinu þar til fyrir nokkrum misserum að það birtist mynd af gömlu, óþekktu mótorhjóli á netinu. Þar sem hjólið var sérstakt í útliti var greinarhöfundi fljótt ljóst að um Cleveland mótorhjólið var að ræða. Umhverfið var auðþekkjanlegt en myndir er tekin á Þingvöllum með Almannagjá í baksýn.

Myndin af Cleveland hjólinu við Þingvöll er óskýr en samt fer ekki á milli mála að um Cleveland hjól sé að ræða.

Það næsta sem segir af Cleveland mótorhjólinu er að Hjálmar Árnason á Mýrargötu 1 hafi tilkynnt að hann hafi selt Kristjóni Jónssyni frá Frakkastíg 9 hjólið. Þann 5. Ágúst 1926 tilkynnir Sveinbjörn Sveinbjörnsson að hann hafi keypt hjólið og svo selt Sæmundi Þórðarsyni frá Hótel Íslandi það. Það síðasta sem segir af því er að bifhjólið finnst ekki við aðalskoðun bifreiða 1927, og er upplýst við lögtaksgjörð vegna bifreiðaskatts sama ár að bifhjól þetta sé algjörlega ónýtt.