Einstakt Zenith með JAP mótor

Magnús Sverrisson á X-99 en myndin er líklega tekin á stríðsárunum.

Fyrstu skrif mín um fornhjól á Íslandi voru í félagsritinu Sniglafréttir í kringum 1993. Þar sendi fólk inn myndir mánaðarlega og ein af myndum mánaðarins var af þessu Zenith. Þau voru bresk, framleidd á árunum 1904-1950, en hjólið á myndinni er u.þ.b. 1930-32 árgerð. Maðurinn sem situr það og jafnframt þáverandi eigandi þess er Magnús Sverrisson, fæddur 1918 og átti hann hjólið í eitt ár. Myndin er tekin fyrir austan fjall.

Íslenska hjólið var að öllum líkindum svona B2 módel “Twin port.”

Þetta Zenith var með vélarnúmerið 48.518 og er hestaflatalan 4 skráð í skoðunarbók. Fyrsta skráningin á þessu hjóli er frá 1933 og er hjólið sagt komið notað frá Hamborg. Er það skráð á Ágúst Jónsson, Njálsgötu 35 með númerið RE-426 alveg til 1937.

Frá 1. Júlí 1938 en þá er Jón Ólafsson frá Álafossi skráður fyrir því en þá er það fært á R-426. Það er selt Gunnar Sveinssyni, einnig frá Álafossi 30. Maí 1939. Gunnar er einnig skráður fyrir því 1940 en það sé komið með númerið G-212. Óskar Guðlaugsson í Hafnarfirði er svo skráður fyrir því 1941 en 1. Júlí sama ár er það selt Þórði Jónssyni frá Forsæti í Árnessýslu. Ári seinna er það komið á númerið X-99 svo myndin af Magnúsi er tekin eftir það.

Það er sagt að það sé ennþá til í júlí 1943, en í skráningabók frá 1943 og í Bílabókinni frá 1945 er hjólið skráð á Pétur Sumarliðason frá Eyrarbakka. Eftir það finn ég ekkert um það. Líklega er þetta eina Zenith hjólið sem nokkru sinni kom til landsins.

Zenith notaði alltaf JAP vélar með fáeinum undantekningum enda er JAP 348 rsm toppventlamótor í þessu. Á þessum tíma var hægt að fá allt að 1100 cc. Zenith V2. Árið 1931 voru öll Zenith model sem í boði voru með JAP mótorum. Árið 1930 setti Joe Wright heimshraðamet á Zenith hjóli með JAP mótor þegar hann náði 240 km hraða á slíku hjóli. Það hjól var var með 998 rsm motor með keflablásara. Þrátt fyrir gott gengi á millistríðsárunum fékk Zenith engan hernaðarsamning þegar kom að heimsstyrjöldinni og reyndist það banabiti merkisins, því engine hjól voru smíðuð á þeim árum. Reynt var að taka upp þráðinn eftir stríð með síðuventla V2 hjólum, en vegan þess hve erfitt var að fá mótora hætti framleiðsla hjólanna 1950.

Eina íslenska Thor mótorhjólið

Thor 61 kúbiktommu mótorhjól í sama lit og Thor hjól Kristins, en því miður hafa engar myndir varðveist af því og er hér með auglýst eftir slíku.

Til eru heimildir um að eitt stykki Thor mótorhjól hafi verið til á Íslandi kringum 1920. Samkvæmt elstu skráningarupplýsingum frá Reykjavík er Thor mótorhjól skrásett 15. maí 1919 á nafn Kristins Einarssonar, og fær það númerið RE-110. Varðveist hefur reikningur frá 24. maí 1919 sem sýnir að Jóhann Ólafsson & Co selur fyrirtækinu K. Einarsson & Björnsson hjólið. Samkvæmt Rudolf Kr. Kristinssyni, syni Kristins Einarssonar á faðir hans hjólið til 1923 þegar hann kaupir sér nýjan Buick, einnig af Jóhann Ólafsson & Co. Hugsanlega hefur hann sett hjólið uppí kaupin á bílnum þótt engar heimildir séu til um það. Allavega eru engar frekari heimildir um hjólið svo líklega hefur það farið aftur erlendis eins og algengt var á þessum tíma. Að sögn Rudolfs var hliðarvagn á hjólinu og notaði Hjalti Björnsson, viðskiptafélagi Kristins hjólið mikið, en hann var seinna þekktur fyrir innflutning á Willys bifreiðum.

Reikningurinn sýnir aðeins að um eitt stykki 18 U mótorhjól er að ræða en samkvæmt elstu skráningarupplýsingum er Kristinn EInarsson skráður fyrir Thor mótorhjóli.

Á reikningnum kemur fram að um 18 hestafla hjól er að ræða í litnum Olive drab. Það passar við 1.250 rsm (76,25 kúbiktommu) U-hjólið sem kom 1918-19. Thor merkið kemur uppúr Aurora sem framleiddi meðal annars vélar í fyrstu Indian Camelback mótorhjólin. Thor U módeiið kom á markað 1912 en árið 1914 var það komið í 1.250 kúbik og var útbúið þriggja gíra kassa. Hjólið var talið öflugt með sín 16 hestöfl og gat náð 90 km hraða. Thor Model U varð til dæmis í öðru sæti í Dodge City 300 árið 1914 sem var helsta mótorhjólakeppnin vestanhafs á þessum tíma. Thor Model U mótorhjól átti bestan tíma á 5 og 50 mílna moldarbrautum árið 1913 og var því markaðssett sem kraftmesta mótorhjól síns tíma. Thor merkið er með eldingu efst sem á að vera elding þrumuguðsins Þórs. Thor hætti framleiðslu mótorhjóla árið 1919 svo að íslenska Thor mótorhjólið hefur verið eitt af þeim síðustu sem framleidd voru.

Mynd af fágætu Raleigh

Á dögunum var birt mynd á facebook síðunni Gamlar ljósmyndir af tveimur herramönnum á faratækjum sínum. Annar þeirra situr í bíl en sá fremri situr uppábúinn með hanska og hatt og sígarettu í munninum, á greinilega talsvert gömlu mótorhjóli. Alltaf þegar ég fæ svona myndir í hendurnar get ég ekki á mér setið að finna betur út úr því hver sé á hjólinu og hverrar gerðar það er.

Viggó Bjerg situr hér Raleigh Model 17 frá 1926-7 en ekki er vitað hver situr í bílnum.
© Guðrún Einarsdóttir.

Fyrsta verkið var að sjálfsögðu að fletta upp í skráningarupplýsingum, en þar kom fram að hjólið var af Raleigh gerð, og var það í eigu Óskars Guðnasonar 1928-29 og Viggó Bjerg árið 1930. Ég sendi nöfnin á konuna sem birti myndina og kannaðist hún strax við Viggó sem tengdist afa hennar. Myndin er því líklega tekin 1930 eða fljótlega eftir það. Einu upplýsingarnar um gerð Raleigh hjólsins var svokallað vélarnúmer hjólsins, en það var 2651 sem sagði ekki mikið. Þrátt fyrir að leggjast yfir myndir af Raleigh hjólum frá þessum tíma var eingin greinileg samlíking. Það hitti reyndar svo vel á að ég hafði nýlega sent skráningarupplýsingar um vélarnúmer Raleigh hjóla á Íslandi, á aðila hjá eigendaklúbbi í Bretlandi sem var að safna vélarnúmerum af slíku hjólum, en talsvert var um Raleigh hjól á Íslandi á millistríðsárunum. Ég sendi myndina á viðkomandi sem svaraði mér um hæl að hér vaæri um sjaldgæfa gerð að ræða frá þessum framleiðanda.

Úr bæklingi um Raleigh Model 17 mótorhjól sem Greg Wood frá Kentucky hefur skannað og sett inná veraldarvefinn.

Mótorhjólið á myndinni er Raleigh Model 17 sem aðeins var framleitt 1926-27. Það var með 174 rúmsentimetra síðuventla mótor en það sem var óvenjulegt við hjólið var að það var með sambyggðan gírkassa. Flest hjól á þessum tíma voru með gírkassann sér og tengdist hann vélinni með reim eða keðjudrifi, en hér var allt í sömu blokkinni. Einnig var svinghjólið innbyggt en ekki utanáliggjandi eins og algengt var á þessum tíma.

Fyrsta Ducati hjólið hér

Þetta Ducati 48 hjól lagði grunninn að 98 og 125 rsm hjólum Ducati sem aftur lögðu grunninn að því sem Ducati er í dag.

Við skoðun á gömlum skráningarupplýsingum fyrir skellinöðrur rakst ég á þá skemmtilegu staðreynd að fyrsta Ducati hjólið kom hingað árið 1958 og var af sjaldgæfri tegund frá 1953, en fyrsta slíka hjólið var framleitt árið 1952. Hjólið kom frá Sölunefnd varnarliðseigna og hefur því líkast til komið upphaflega frá Bandaríkjunum. Hjólið er fyrst í eigu Sigurðar Helgasonar, Miklubraut 3 en Ásgeir Eiríksson, meðlimur í Eldingu nr. 87 átti hjólið 1959-61. Það fer svo í eigu Guðbjarts Bjarnasonar, Þjórsárgötu 11 sumarið 1961 en ekki er vitað um það síðan.

Skráningarblaðið fyrir fyrsta Ducati hjólið á Íslandi sýnir að það bar númerið R-791 en það númer er nú á Volkswagen Bora.

Hjólið hefur þótt fullkomið á sinni tíð með fjórgengismótor, blautkúplingu og þriggja gíra kassa. Grindin var úr pressuðum stálplötum og hjólið því létt eða aðeins 41 kíló. Að sjálfsögðu voru Pirelli dekk undir hjólinu og hestöflin 1,5 komu hjólinu í 50 km hraða. Ducati var fyrst stofnað 1926 og framleiddi fyrst íhluti í útvörp. Ducati keypti lítinn mótorframleiðanda eftir stríð sem kallaðist Siata sem framleiddi vélar sem kölluðust Cucciolo, en það þýðir hvolpur á ítölsku. Fyrsta hjólið kom 1947 og árið 1950 var búið að selja 200.000 eintök og kom það fótunum undir Ducati merkið.

Moto Guzzi lögregluhjólið

Mynd tekin í miðbæ Akureyrar sumarið 1973. Eigandi myndar er Vigfús Sigurðsson.

Á fésbókinni birstist nýlega flott litmynd af Moto Guzzi lögregluhjólinu þegar það var nýtt á Akureyri. Myndin er tekin af Vigfúsi Sigurðssyni og er hjólið í forgrunni en eitthvað umferðaróhapp fyrir aftan. varð myndin til þess að ég heyrði í fyrrum eiganda þess, Ólafi Unnari Jóhannssyni til að forvitnast um sögu hjólsins.

Mynd af hjólinu fyrir utan lögreglustöðina á Akureyri. Mynd: Minjasafnið á Akureyri.

Að sögn Ólafs kemur hjólið nýtt til landsins og er sýnt á sýningu 1973, en lögreglan á Akureyri fékk það svo til prófunar. Á fyrstu dögunum varð óhapp á hjólinu, en það var þannig að löggan var að elta Trabant sem átti að beygja til vinstri, en beygði svo til hægri, og hjólið fór því beint og fór út af. Lögreglan þurftu því að gera við það um veturinn og eiga það áfram. Dóri Sigtryggs eignast það svo sumarið 1982 þegar lögreglan auglýsti hjólið á uppboði hjá Innkaupastofnun Ríkisins.

Svona var hjólið þegar það var komið í eigu Ólafs árið 1984. Mynd: Ólafur Unnar.

Árið 1983 var Ólafur Unnar Jóhannsson búinn að ákveða að hann langaði í mótorhjól og auglýsti eftir slíku. Hann langaði í BMW en Dóru bauð honum Moto Guzzi hjólið til kaups, enda um svipuð hjól að ræða. Dóri hafði breytt hjólinu og sett minna stýri, tvegga manna sæti og auka töskur. Dóri sendi það með skipi til Talknafjarðar en hjólið var rafmagnslaust þegar þangað var komið. Það var því dregið gegnum skaflana af bíl heim til Ólafs. Ólafur sótti svo um við stofnun Sniglanna en flytur svo í bæinn haustið 1984. Hann notaði það þar mikið sumarið 1985, og fór víða um land á hjólinu, fór hringinn, vestfirði, til Vestmannaeyja og fleira. Þá hafði Óli gert það upp að hluta og krómað hluti eins og tank, hlífar, verkfæratösku og fleira. “Einu sinni fórum við meira að segja fjögur á því í sund fyrir vestan, en maður segir náttúrulega ekki frá slíku” sagði Ólafur í samtali við undirritaðann. Svo “fór loks tímagírinn í hjólinu og þá keypti Dóri aftur hjólið 1987” sagði Ólafur ennfremur. Núverandi eigandi er Ólafur Sveinnson á Akureyri.

Moto Guzzi 850 California af 1972 árgerð sem er alveg eins hjól.

Vélin í Commando hjólinu á sér nokkuð sérstaka sögu. Árið 1959 óskaði ítalski herinn eftir þríhjóli frá Moto Guzzi og þá varð til 754 rsm V2 mótor sem skilaði aðeins 20 hestöflum en fullt af togi. Síðar vildi ítalska ríkisstjórnin fá hentug lögreglumótorhjól og þá var þessi viðhaldsfríi mótor dreginn aftur fram og minnkaður aðeins, en skilaði nú 50 hestöflum. Þannig var hjólið kynnt á mótorhjólasýningunni í Mílanó árið 1965 og var líklega fyrsta hjólið með rafstarti án þess að hafa startsveif til vara. Árið 1969 var vélin stækkuð í 757 rsm og með nýjum heddum fór aflið í 60 hestöfl og þá fór hjólið á ameríkumarkað. Tveimur árum seinna var vélin stækkuð í 844 rsm og hjólið fékk nafnið Eldorado, en ferðaútgáfan útbúin töskum og framrúðu fékk nafnið California. Hjólið varð líka vinsælt sem lögregluhjól í samkeppni við Harley-Davidson Electra Glide þar sem það var 100 kílóum léttara en skilaði sama afli. Einnig var styttra á milli hjóla svo það átti auðveldrara með krappar beygjur en Harley hjólin.

4ra ventla Rudge 1926 á Akureyri

Myndin er tekin fyrir utan ljósmyndastofu Vigfúsar Sigurgeirssonar á Akuryeri, líklega af honum sjálfum. Myndin er í eigu Minjasafns Akureyrar og er klippt til að sýna hjólið betur.

Í nýlegri heimsókn á Minjasafn Akureyrar rakst ég á merkilega mynd sem sýnir frekar fágætt mótorhjól af Rudge Whitworth gerð. Það er á RE-númeri en myndin er tekin á Akureyri svo líklega hefur það farið í ferðalag norður, en myndin er tekin upp úr 1930. RE-321 er árið 1928 skráð á Ottó Baldvinsson, Bergstaðarstræti 10b. Um Rudge mótorhjól er að ræða með vélarnúmerið 42016. Það þýðir að um merkilegt Rudge Whitworth 500 hjól er hér á ferðinni, 1926 árgerð með fjögurra ventla mótor.

Hér má sjá samskonar hjól af 1927 árgerð en þá var kominn stýrisdempari í hjólið.

Rudge mótorhjólamerkið var stofnað 1910 og var helst þekkt fyrir að þróa 4ra ventla eins strokks mótorhjól. Fyrsta fjögurra ventla hjólið frá þeim kom árið 1924 og var með fjögurra gíra kassa, eins og RE-321. Árið 1928 vann slíkt hjól Ulster Grand Prix og þess vegna komu á markað hin frægu Ulster hjól frá Rudge. Merkið lifði ekki seinni heimsstyrjöldina af og ekki er vitað hvað varð af þessu merkilega hjóli heldur.