Categories
Uncategorized

Leitin að fyrsta mótorhjóli Timersins

Það er kannski ekki úr vegi við áramót að líta aðeins yfir síðastliðið ár í fornminjafræðum íslenskra mótorhjóla. Á árinu 2023 gerði ég ansi gott átak í að finna skráningar víða um land og bætti helling við, eða um það bil 4.000 skráningum. Það kemur ýmislegt í ljós þegar farið er að slá þetta allt saman inn í tölvu, en síst átti ég þó von á því að rekast á gamlan vin í ennþá eldri skráningargögnum, en sú var raunin á dögunum. Þar hnaut ég um fyrsta stóra mótorhjólið sem Hilmar Lúthersson keypti, þá aðeins 18 ára gamall. Það var af gerðinni Ariel og var 1946 árgerð.

Othar Smith flugvirki á Ariel hjólinu um 1957 stuttu eftir að Hilmar Lúthersson átti það. Mynd: Paul R Smith.

Hjólið bar upphaflega númerið A-665 og var fyrst í eigu Ólafs Hallsonar. Síðan fékk það númerið K-157 en þá átti Runólfur Jónsson frá Brúarlandi í Skagafirði hjólið, en er sett á R-númer í júní 1955 og fékk þá númerið R-3918. Guðmundur Jóhannesson til heimilis að Bergstaðarstræti 64 átti hjólið þegar Hilmar kaupir það, en það er 30. Apríl árið 1956 eða fyrir 67 árum síðan. Hilmar er þá skráður til heimilis að Hlíðarvegi 5 í Kópavogi og fær þá hjólið númerið Y-302. Hilmar man að hann selur það manni sem hét Garðar en taldi að hann hafi átt það stutt. Allavega er hjólið skráð á Othar Smith flugvirkja í ágúst 1957 eftir að hann selur hið fræga Ariel Square Four hjól sem hann átti, og er til mynd af hjólinu frá bróðir hans, Páli R. Smith sem enn er á lífi. Þá er hjólið komið með númerið R-3920. Grétar Haraldsson, Rauðalæk 40 kaupir hjólið í maí 1958 og selur Johann Wolfram það í ágúst árið 1960. Karl Davíðsson, Hjarðarhaga 38 kaupir það í lok september 1966 en síðasti skráði eigandi er Garðar Garðarsson, frá Stóra-Fjalli á Mýrum sem eignast það í maí 1967, en þá er hjólið fært á númerið M-502.

Hér má sjá skráningarblaðið sem er með nafni Hilmars, en um er að ræða afskráningu frá 1956 af númerinu R-3918.

Þegar sögu hjólsins í skráningarupplýsingum þrýtur, er næst að finna út hvort síðustu eigendur séu enn á lífi og sjá hvort að þeir geti gefið frekari upplýsingar. Með aðstoð frá Unnari Þ Bjartmarssyni í Borgarnesi náðist samband við Garðar og því var hringt í hann. Að sögn Garðars notar hann það til vinnu í nokkur ár en selur það svo Einar Karelssyni hjá Vegagerðinni í Borgarnesi árið 1970. Einnig náðist að hringja í Einar og fá frekari upplýinmgar um gamla hjólið hans Hilmars. Einar notaði hjólið aðallega eitt sumar víða um Borgarfjörð og lenti meðal annars í því ævintýri að það kviknaði í hjólinu í einni ferðinni. Var Einar á ferð er það gerðist og náði að stoppa strax og slökkva eldinn. Kviknað hafði í út frá lekri bensínslöngu sem lak ofan á kertið. Einar átti hjólið í nokkur ár en svo hafði Kristján Bjarnason, bifvélavirkji hjá BTB mikinn áhuga á hjólinu þegar það var orðið bilað og fékk að hirða gripinn. Kristján er látinn en að sögn sonar hans mun hjólið hafa verið sótt upp í Dalsmynni. Kristján mun hafa gert það upp og selt manni að nafni Hörður Þórðarson í Vestmannaeyjum tveimur árum seinna.

Þessi mynd er örlítið nýrri enda hjólið þarna komið með R-3920 númerið. Hún er tekin í vesturbænum og er hjólið þarna líklega enn í eigu bræðranna Othars og Paul.

Þarna virðist slóðin dofna og ekki hefur mér tekist að hafa uppá þessum Herði og staðfesta hvort þessar upplýsingar séu réttar. Enn eru til nokkur Ariel mótorhjól frá þessum tíma og á ég eftir að athuga allavega eitt þeirra hvort það geti verið gamla hjólið hans Hilmars. Ef einhver hefur við þetta að bæta væri gaman að fá aðstoð við leitina og koma þessu hjóli aftur í hendurnar á Hilmari Old Timer sem myndi taka því verkefni fegins hendi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *