Categories
Uncategorized

Amerísk herhjól af ýmsum uppruna

Á dögunum rakst ég á mynd á facebooksíðunni Hafnarfjörður og Hafnfirðingar. Á myndinni sem tekin er árið 1943 sést í framendann á Harley-Davidson mótorhjóli sem er af svokallaðri WLC gerð. Það sem er sérstakt við myndina er að hjólið er af gerð sem smíðuð var sérstaklega fyrir kanadíska herinn og kallast WLC. Slík hjól voru aðeins framleidd frá því síðla árs 1941 og fram til 1944 og voru aðallega af 1942 og 1943 árgerð. Aðalmyndefni myndarinnar er Sæmundur Gunnarsson á reiðhjóli sem hann fékk í fermingjargjöf árið 1943 svo að hjólið hefur komið hingað til lands 1942 að öllum líkindum.

Sæmundur hjólar framhjá Harley-Davidson WLC herhjólinu, en myndin er líkast til tekin í Hafnarfirði.

Ekki eru til margar myndir af Harley-Davidson herhjólum hér á landi en sjá má allavega tvö saman á nokkrum myndum, auk þess sem að til er mynd með sjö Harley-Davidson hjólum fyrir framan hús Sanitas í Vesturbænum og gæti eitt þeirra verið af Kanadagerð. Vitað er að fyrstu lögregluhjólin sem hingað komu í stríðinu voru U-Módel og komu beint frá New York, en einnig notaði lögreglan tvö til þrjú WL hjól og hefur eitt þeirra varðveist fram á þennan dag.

Tveir vígalegir Vestmannaeyingar að prófa WL hjólið á síðustu öld, sem enn er til hérlendis. Mynd: Tryggvi Sigurðsson.

WLC hjólið er sömu gerðar og WLA í grunnatriðum en er samt öðruvísi að mörgu leyti. Fram-og afturdekk eru eins og má skipta þeim fram og til baka. Frambremsan er sömu gerðar og á „Big Twin“ og ljósabúnaður er talsvert öðruvísi. Bensíngjöfin er vinstra megin og kveikjuflýtirinn hægra megin og bensín- og olíuleiðslur eru úr gúmmí. Auka kúplingshandfang er í stýri til viðbótar við fótkúplinguna.

Kanadísku herhjólin eru auðþekkt af hástandandi framljósi en WLA hjólin höfðu það mun neðar á framgafflinum, svo hægt væri að munda byssuna yfir stýrið. Mynd. Yesterdays.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *