Categories
Uncategorized

Fótalaus fór hann meira en milljón kílómetra á mótorhjóli

Í fimmta hefti Heimilispóstsins frá 1950 er sögð saga Alfred Leroy sem 15 ára gamall missti báða fætur og helming af vinstri handlegg í sporvagnaslysi árið 1910. Hann náði sér af slysinu og gerðist lásasmiður og varð vinsæll sem slíkur svo að hann gat leyft sér þann munað að fá sér mótorhjól. Við grípum hér niður í frásögn Leroy í tímaritinu en saga hans var skráð af J. E. Hogg. “Árið 1913 keypti ég mér bifhjól með hliðarvagni og útbjó það stjórnartækjum við mitt hæfi, þannig að ég gat stjórnað bifhjólinu þótt ég sæti í hliðarvagninum. Bifhjólið veitti mér tækifæri til að fara allra minna ferða, eftir lögðum vegum og skapaði mér nýjan mælikvarða á fjarlægðir. Síðan ég eignaðist þetta fyrsta bifhjóls-úthald mitt, hefi ég eignazt og ekið hálfa tylft slíkra
ökutækja samtals hátt á aðra milljón kílómetra, í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó.”

Leroy átti nokkur mótorhjól á öðrum áratug tuttugustu aldarinnar, eins og til dæmis Minneapolis og Thor, en Harley-Davidson J-módel hjólið frá 1916 er líklega þekktasta hjólið hans. Meðan hann var enn unglingur fór hann í rúmlega 50.000 mílna ferð um Bandaríkin á þessu hjóli.

Hjólið var breytt til að hann gæti notað það á langferðum og svaf hann til dæmis í hliðarvagninum ásamt hundi sínum sem var alltaf með honum á ferðalögum hans. “Vöntun fótanna gerir manni mögulega ýmsa hluti, sem vanalegum manni með heila limi er ómögulegt að vinna. Af því að ég er ekki nema 99 sentimetra hár, get ég t. d. eins auðveldlega sofið í hliðarvagninum mínum og aðrir menn sofa í bezta
rúmi. Meðan ég ferðaðist mest á bifhjóli, var ég vanur að búa um mig í hliðarvagninum. Ég flutti með mér litla undirdýnu og svæfil, sem ég geymdi á daginn í ,,nefinu“ á vagninum. Á náttstað hagræddi ég beðnum, hneppti vatnsheldri þekju yfir allan hliðarvagninn og lagðist til svefns.”

Hundur Leroy var ávallt með honum í för og svaf hann og sat í lítlum “hliðarvagni” á hliðarvagninum, en Leroy kom sér vel fyrir undir segli sem einnig var notað til að safna vatni yfir nóttina.

Leroy lenti í ýmsum ævintýrum á ferðum sínum eins og í Kansas. “Fótaleysi mitt hefur stundum orðið orsök í ýmsum hlægilegum atvikum. 1916, til dæmis, þegar ég var í einni ferð minni þvert yfir Bandaríkin, fór ég ein nótt að sofa í hliðarvagninum við þjóðveginn á gresjum Vestur-Kansas. Eins og margir vita, er þessi hluti Bandaríkjanna sléttur eins og gólf og trjálaus. Ég var nýsofnaður, þegar ég hrökk upp við annarleg hljóð, sem bentu til þess að einhverir væru þama á ferð. Þegar ég gægðist undan brúninni á þekjunni, sá ég tvö bifhjól, er stóðu skammt frá mér, í tunglsljósinu. Ökumennirnir töluðu saman í hálfum hljóðum og ég heyrði annan segja: ,,Gott, enginn virðist nálægur. Þú mátt taka slithringinn, ef þú óskar; ég ætla að taka framljósið af stýrinu!”

Svo að Leroy gæti ekið Harley hjóli sínu þurfti að gera á því nokkrar breytingar. Valinn var hliðarvagn vinstra megin við hjólið svo að hann gæti haft góða handlegginn nær hjólinu. Stöng var fest við vinstri hluta stýrisins sem að hann stýrði með handarstúfnum. Með hægri hendinni stjórnaði hann kveikjuflýtinum, inngjöfinni, gírum og bremsum.  Hann notðai hægri höndina líka til að snúa hjólinu í gang.

“Þegar ég heyrði tal dónanna, tók ég skammbyssuna mína undan koddanum, til vonar og vara. Mennimir nálguðust nú bifhjólið mitt með ýmis verkfæri, en ég hélt niðri i mér andanum og varaðist að hreyfa mig, þar til annar beygði sig til þess að leggja skrúflykil á framhjólið mitt og hinn kraup niður til að fjarlægja framljósið. Þá settist ég upp, notaði skammbyssuna sem barefli og sló með handfanginu aftan á hálsinn á þeim við hjólið, sneri henni svo við og skaut upp í loftið. Við skotið og höggið stökk sá er fyrir varð, upp með öskri miklu og þaut á harðahlaupum að hjóli sínu og hinn var ekki seinn að fylgja hinum viðbrigðna vini sínum. Og til þess að skynda för þeirra reif ég upp svörðinn við fætur þeirra með nokkrum skotum! Á styttri tíma en frásögn mín tekur, voru þjófarnir komnir á bifhjól sín og þotnir með miklum hreyflagný út í buskann. Svo mikill var asinn á þeim félögum, að þeir skildu eftir öll verkfærin, sem þeir höfðu ætlað að nota við að „tileinka” sér áðurtalda hluti af bifhjólinu mínu. Ef þessir
dygðardindlar skyldu enn vera lifandi og lesa þetta, mun frásögn mín leysa gátu, sem áreiðanlega hefir valdið þeim miklum heilabrotum.”

Eitt sinn lenti hann í slysi á hjólinu þegar hann ók yfir trjábol með þeim afleiðingum að hann kastaðist úr hliðarvagninum. Hann slapp vel frá þeirri byltu og náði aftur mótorhjólinu sem hafði stöðvast að lokum. Seinna fékk hann sér bíla sem hann breytti til að nota sjálfur en hann öðlaðist nokkra frægð fyrir árin sín á mótorhjóli og kom nokkrum sinnum fram í auglýsingum fyrir mótorhjól og hluti þeim tengdum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *