Í borginni Prag í Tékklandi er stafræktur elsti Harley-Davidson klúbbur jarðkringlunnar. Hann var stofnsettur árið 1928 og er því stutt í 100 ára afmælið. Til var eldri klúbbur í San Fransisco en hann hætti starfsemi árið 1978. Það sem gerir söguna enn merkilegri er að mótorhjólaklúbbur utan um amerísk mótorhjól hafi lifað það af að vera bak við járntjaldið í áratugi. Það tókst meðlimum með því að fela mótorhjólin sín til sveita og aðeins að taka þau út einstaka sinnum og hjóla þá í litlum hópum.

Við fréttum af þessum klúbbi í fyrrasumar þegar við hjónin vorum stödd á Mótorhjólasafni Íslands á Akureyri, en þar fór fram ráðstefna fólks sem valið hafði að gera lokaverkefni sín í háskóla um mótorhjól og menninguna kringum þau. Hún Barbara Hamoudova frá Tékklandi hafði valið að gera klúbbinn í Prag að doktorsverkefni í sögulegri mannfræði og þótti okkur saga hans mjög áhugaverð, og ekki skemmdi fyrir að það hafði alltaf verið á óskalistanum að fara saman til Prag á annað borð. Úr varð að heimsækja klúbbinn á þeim degi sem hann fer í hópkeyrslu til að loka sumrinu, en það er um leið þjóðhátíðardagur í Tékklandi, þann 28. október er þeir fagna sjálfstæði sínu.

Klúbburinn í Prag var stofnaður þegar B. Turek gifti sig, en hann var frægur mótorhjólakeppandi og eigandi Harley-Davidson umboðsins í Prag á millistríðsárunum. Um sextíu mótorhjól fylgdu hjónunum á þessum degi og úr varð að stofnaður var klúbbur í framhaldinu ári síðar. Svo skemmtilega vildi til að staðurinn sem fyrsta myndin af þessum hóp var tekin, var nánast á sama stað og hótelið okkar, Hotel Grandior.

Óhætt er að segja að klúbburinn sé mjög virkur en meðal þess sem hann skipuleggur eru ferðir, keppnir, mótorhjólaþjálfun, kennsla í viðgerðum, útgáfa fréttabréfs ásam samvinnu við innlenda og erlenda klúbba. Ein mikilvægasta keyrslan er vorkeyrsla klúbbsins sem markar upphaf hjólatímabilsins ár hvert. Sú hefð lagðist af á sjötta áratugnum þegar járntjaldið lokaðist en var endurvakin árið 1998. Athyglisvert er líka að strax árið 1929 reyndi klúbburinn að stofnsetja Evrópusamband Harley-Davidson klúbba, en þá hafði það ekki erindi sem erfiði og tók það um sextíu ár að verða að raunveruleika. Í upphafi voru um 150 meðlimir í klúbbnum og í dag eru þeir um helmingi fleiri.

Klúbburinn var mjög áberandi í landinu fyrir seinni heimsstyrjöldina, enda voru hjólin notuð víða, meðal annars af lögreglu, hernum og jafnvel sem Taxi hjól. Eins og gefur að skilja setti styrjöldin strik í reikninginn með takmörkunum á eldsneyti og aðgengi að varahlutum. Einnig reyndu yfirvöld að taka farartæki traustataki og földu því margir hjól sín á landsbyggðinni, og í sumum tilfellum voru þau jafnvel tekin í sundur og falin meðal varahluta í landbúnaðartæki.

Eftir stríðið var klúbburinn aðeins með um 10% upphaflegu meðlima sinna, enda höfðu margir fallið í stríðinu. Klúbburinn fékk þá óvænta innsprautun nýrra meðlima þegar stofnun Bandamanna UNRRA sá um að selja notuð hergögn á lágu verði til almennings sem nokkurs konar Marshall aðstoð. Seld voru um 600 WLA og WLC mótorhjól á þessum tíma og eru sum þeirra enn í eigu meðlima í dag. En gamanið eftir stríð stóð ekki lengi eða aðeins í þrjú ár þar til kommúnistar tóku völdin árið 1948.

Til að forðast afskipti stjórnvalda var klúbburinn lítið áberandi næstu áratugina þótt að starfsemi héldi áfram. Færðist hún út á landsbyggðina og voru hópkeyrslur í lágmarki og fámennar. Til að geta talist klúbbur áfram gekk klúbburinn undir hatt SVAZARM sem var nokkurs konar hernaðartenging þar sem meðlimir þurftu að mæta á heræfingar sem nokkurs konar varalið. Eftir fall kommúnistastjórnarinnar árið 1989 sagði klúbburinn sig samstundis úr SVAZARM. Klúbburinn hefur verið meðlimur í Evrópusamtökum Harley-Davidson klúbba síðan 1993. Árið 2003 var svokallað Super rallí haldið í Tékklandi, nánar tiltekið í České Budējovice, en þangað komu um 9000 gestir á 7000 mótorhjólum. Árið 2028 verður Super rallí aftur haldið í Tékklandi á hundrað ára afmæli klúbbsins, og er stefnan sett á næstu heimsókn þangað.

