Categories
Uncategorized

Mótorhjól fyrir norðan á millistríðsárunum

Fyrsta skráða heimild um mótorhjól á norðurlandi er grein í Verkamanninum 10. júlí 1919 en þar segir svo: “Fyrst minnst er á bifreiðarnar. er ekki hægt að sleppa nýtískuleikfangi, sem nýkomið er til bæjarins. “Mótorhjól” er það kallað í daglegu tali. Ekki ber svo mikið á þessum ferðarokk á daginn, en með kvöldinu fer hann á kreik, og stundum hraðara en skyldi. Standa þessar skemmtiferðir stundum langt fram á nótt og fylgir þeim töluverður hávaði. Fólk kvartar sáran undan þessu óþarfa næturgöltri, en ekki ber á öðru en næturvörðurinn láti það afskiftalaust.” Um haustið sama ár fer líka að bera á auglýsingum um Henderson mótorhjólið sem Esphólín Co. á Akureyri hafði umboð fyrir, en hingað til lands kom eitt slíkt hjól sem var fyrir norðan fyrstu árin og er nú varðveitt á Mótorhjólasafninu á Akureyri.

Harley-Davidson 1920 við Pollinn á Akureyri en slíkt hjól var í eigu Gríms Valdimarssonar á þriðja áratugnum. Ef einhver getur nafngreint mennina á myndinni væri það vel þegið. Mynd © Minjasafn Akureyrar.

Talsvert var um mótorhjól á Akureyri og nágrenni strax á millistríðsárunum enda hafa þau verið hentug til ferðalaga á þeim vegum sem þar voru á þessum tíma. Meðal fyrstu mótorhjóla norðan heiða hafa verið Henderson mótorhjól Esphólín frá 1918 og Harley-Davidson hjól Gríms Valdimarssonar sem var 1920 árgerð. Ekki er vitað hvaða A-númer var á Henderson mótorhjólinu en hjól Gríms var fyrst með númerið A-16 en síðar A-41. Önnur mótorhjól með lág A-númer voru AJS hjól Stefáns K. Snæbjörnssonar sem bar A-17 og A-21 sem var í eigu Eggerts Stefánssonar. A-17 var með vélarnúmerið 48475 og hefur samkvæmt því verið Model E6 af 1925 árgerð, en A-21 líklega 1928 módel. Næsta hjól með lágt númer var BSA hjól Gests Pálssonar með A-31 en á eftir því sjaldgæft Rudge Whitworth hjól Kristjáns Rögnvaldssonar frá Fífugerði. Einnig voru notuð E-númer á fyrstu árunum og meðal mótorhjóla sem báru E-númer var Opel hjól Tryggva Gunnarssonar sem fyrst bar númerið E-15 en síðar A-120.

Opel 500 Motoclub 1928 síðuventla, en slíkt mótorhjól var aðeins framleitt í 3 ár, frá 1928-30. Vélarnúmer A3259. Jón Norðfjörð á hjólið frá 1930-32. Mynd © Minjasafn Akureyrar.

A-52 var NSU mótorhjól í eigu Þórs Jóhanssonar og hefur verið fyrsta NSU mótorhjól landsins. Hann hefur átt hjólið 1934-35 en árið 1936 er það selt Gunnari Sigþórssyni. A-53 var svo Norton 18H mótorhjól frá 1934 í eigu Kristjáns P. Guðmundssonar. Næsta hjól í röðinni er svo A-59 sem var Triumph hjól í eigu Lárus J. Rist. Næst koma A-61 Ariel bifhjól í eigu Ólafs Jónssonar, Gróðrastöðinni og þvínæst A-62 sem var AJS í eigu Þorvalds J. Vestmann. A-63 var þýskt DKW sem Marinó Stefánsson átti.

NSU mótorhjólið var með vélarnúmerið 106868 svo það hefur verið Model 501 eins og þetta og þá líklega af 1927 árgerð. Það var reyndar ekki búið hliðarvagni eins og þetta hjól en 501 hjólið þótti fullkomið að mörgu leyti, eins og að mótor og þriggja gíra kassi voru sambyggðir. Kveikja og rafkerfi komu frá Bosch en hjólið skilaði 11 hestöflum og gat náð 100 km hraða.

A-68 var Triumph hjól sem að Aðalsteinn Einarsson átti frá 1934-37 en þá keypti Ölver Karlsson hjólið. A-69 var Ariel 1929 sem að var meðal annars í eigu Inga Hanssonar, Þorsteins Davíðssonar og Hafliða Guðmundssonar. Triumph hjólið A-71 var í eigu Jóns Kristinssonar frá 1934-36 en svo í eigu Ágústs Ásgrímssonar. A-77 var Ariel hjól sem var í eigu Þorsteins Benediktssonar lengi vel. RMW var sérstakt hjól frá Þýskalandi sem bar númerið A-89 og er í eigu Páls Tómassonar frá 1934. Það er svo komið í eigu Bifreiðastöð Akureyrar árið 1937.

RMW mótorhjólin voru framleidd í Sauerland í Þýskalandi með vélum sem kallaðr voru Phönix og festist það nafn oft við hjólin. Hér má sjá 250 Super Sport hjól frá 1938.

Næstu A-númer eru svo A-103 og A-104, en það voru Triumph hjól í eigu Þorvalds Hallgrímssonar og Francis Barnett hjól í eigu Páls Sigurðssonar frá Bakka. A-107 var New Imperial mótorhjól sem fyrst var í eigu Karls Magnússonar en síðar Antons Kurtgannon frá Englandi. Sama var með OCD hjólið A-108 sem var í eigu Richard Ryel til 1936 en svo í eigu Friðjóns Axfjörð og Þóris Björnssonar. A-114 var Triumph mótorhjól sem var í eigu Jóns Helgasonar til 1936 en svo í eigu Björns Guðnasonar og svo Ingólfs Kristinssonar. A-128 var DKW hjól með vélarnúmerið 266913 í eigu Vigfúss Sigurgeirssonar. A-136 er svo áðurnefnt Harley-Davidson hjól frá 1920, þá komið í eigu Björns Guðnasonar og svo Jóns Sigurgeirssonar frá Helluvaði. OEC hjólið A-108 hefur svo í stuttan tíma farið á A-142 undir nafni Gook 1935 áður en það er selt til Reykjavíkur. A-157 er svo Triumph sem var í eigu Kristins Sigmundssonar frá Hóli.

Norðlingur, 30. ágúst 1928.

A-128 var DKW hjól með vélarnúmerið 266913 í eigu Axels Kristjánssonar og Vigfúss Sigurgeirssonar um miðjan fjórða áratuginn.

Á mótorhjóli fóru þeir austur í Mývatnssveit fyrir stuttu Ottó Baldvins símritari og Vigfús Sigurgeirsson Ijósmyndari. Fóru þeir alla leið að Skútustöðum, og komu einnig að Grenjaðarstað. 3 og 1/2 kl. st. voru þeir þaðan og hingað tii Akureyrar. Þessi leið hefir aldrei verið farin áður á mótorhjóli.

Dagur, 19. ágúst 1937.

Önnur grein um slysið í Morgunblaðinu, 14. ágúst 1937.

Maður slasast á Akureyrargötum.

Um miðja síðustu viku var Herluf Ryel skipasmiður hér í bæ á leið heim til sín síðla kvölds og fór á bifhjóli. Maður í innbænum, Gunnar Thorarensen, heyrði að ekið var bifhjóli eftir götunni, en skyndilega heyrði hann þungt högg og í sama bili að tók fyrir gang bifhjólsins. Fór hann þá á fætur og fann Herluf liggjandi á götunni meðvitundarlausan í nánd við húsið nr. 19 við Aðalstræti. Hjá því húsi var gryfja í austurhluta götunnar, en allstór sleði hafði verið lagður yfir gryfjuna, og á hann er álitið að Herluf hafi ekið. Læknir kom brátt á vettvang, og var Herluf flutitur á sjúkrahús. Hafði hann hlotið meiðsl á höfuð og hefir legið meðvitundarlítill síðan.

Verkamaðurinn, 20. júlí 1929.

Jón Guðmann ásamt konu sinni og Þórður Þorbjarnarson á Ariel hjólum sínum.

Nýlega fóru þeir Jón O. Guðmann kaupm. og Þórður Jóhannesson smiður til Sauðárkróks á sínu ARIEL-bifhjólinu hverHafði Ouðmann frúna með í körfu. Á vesturleið hrefti ferðafólkið rigningu og norðanstorm. Voru vegir því slæmir á fjöllum uppi. En hjólin reyndust veltiþing og gekk ferðin ágætlega

Guðmundur Jónasson auglýsir hér 5 hestafla Triumph mótorhjól til sölu í Íslending árið 1931.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *