Bremen Borgward & Co var vatnskassaverksmiðja til að byrja með og var staðsett í Bremen í Þýskalandi. Líklega var það þess vegna sem þríhjólið kom hingað til lands gegnum þessa þekktu hafnarborg. Fyrsta Goliath þríhjólið kallaðist Blitz-Karren og kom á markað árið 1925 með 120 rsm DKW tvígengisvél sem skilaði 2,2 hestöflum. Það var með beint beltadrif á annað afturhjólið og burðargetan var 250 kíló. Næst kom á markað Goliath Standard árið 1926 sem var í nokkrum útgáfum eins og tækið sem kom hingað til lands. Vélin var 350 rsm 1 strokka Ilo tvígengisvél sem skilaði 7,5 hestöflum og burðargetan var hálft tonn. Lokaða útgáfan kallaðist Rapid og kom á markað árið 1928 og var með keðjudrifi, en það er útgáfan sem kom hingað til lands.
RE-849 var skráð á O. Johnson & Kaaber árið 1930-31, en þessi mynd af gripnum er tekin úr kvikmynd frá þriðja áratugnum um kaffibrennsluna. Þríhjólið var þar notað til sendiferða með framleiðsluna. Það var skráð 500 kíló og 7,5 hestöfl og var með vélarnúmerið 767175. Þessi tæki voru talsvert notuð í Norður-Evrópu fyrir seinna stríð en týndu nánast alveg tölunni og eru talin mjög sjaldgæf í dag. Þannig hefur líklega farið fyrir þessu hjóli sem var selt til Danmerkur 12. desember 1931.