Black Bomber mótorhjólin

Þessi mynd myndi sóma sér vel á póstkorti en þarna hallar Ásbjörn Eydal sér að Black Bomber mótorhjóli sínu við höfnina í Vestmannaeyjum.

Fyrstu japönsku hjólin til að setja mark sitt á mótorhjólasöguna eru án efa Honda CB450 sem oft voru nefnd Black Bomber í byrjun, en fyrstu árgerðirnar voru með einkennandi svörtum bensíntönkum. Þau komu fyrst á markað árið 1965 en fyrstu hjólin komu hingað til lands ári seinna. Black Bomber hjólin voru með rafstarti og fjögurra gíra kassa. Þau voru öflug enda með tveimur yfirliggjandi knastásum og skiluðu 43 hestöflum en komu svo með fimm gíra kassa árið 1968. Mike Hailwood átti að keppa á Black Bomber hjóli á Brands Hatch árið 1966 en var bannað að taka þátt þar sem keppnisstjórn trúði því ekki að um framleiðsluhjól væri að ræða vegna þess að það var með tveimur knastásum.

Annað af uppgerðum Black Bomber 1966 er hjól Lofts Ágústssonar sem upphaflega var hjól Halldórs Pálssonar.

Fyrstu Honda CB450 hjólin komu hingað til lands árið 1966 og voru þau sex talsins. Eigendur þeirra voru samkvæmt Tryggva Sigurðssyni í Vestmannaeyjum þeir Halldór Pálsson í Lönguhlíð 19, Tómas Ingólfsson í Njörvasundi 9, Kristján Víkingsson í Stigahlíð 4, Bjarni Thors Lágafelli í Mosfellssveit, Ásbjörn Eydal, Brekastíg 14 í Vestmannaeyjum og Guðjón Jónsson, Vestmannabraut 44 í Vestmannaeyjum. Við ætlum að byrja á að skoða hjól Kristjáns sem bar verksmiðjunúmerið 1017348 og var sett á númerið R-11937 þegar það kom til landsins.

Eiríkur Carlsen á R-11937 sem hann fór á í Evróputúr sumarið 1967 en myndin er tekin í Danmörku.

Hjólið kom til landsins 4. júlí 1966 og fékk númerið R-11937. Kristján átti það bara fyrsta sumarið en hann selur það Eiríki Carlsen þann 4. október sama ár. Eiríkur Carlsen fer á hjólinu í Evróputúr sumarið 1967. Það er svo selt Sigurði H. Hlöðverssyni, Hólmgarði 41 þann 27. september 1967.

Ásbjörn Eydal á mótorhjóli sínu sem Tryggvi Sigurðsson gerði síðar upp.

Til er skemmtileg saga af Sigurði og Viggó Guðmundssyni, en hann átti svona hjól af 1967 árgerð. Þeir voru saman á sitt hvorri svörtu bombunni og voru að leika sér í sandgryfjum að spóla í hringi og stökkva á hjólunum. Kom þar að lögreglumaður á Harley-Davidson lögregluhjóli, sem horfði á þá um stund en fór svo af stað og ók nokkra hringi. Hraðinn jóks og áræðnin með, en á endanum fór svo að við eina lendinguna á þungu lögregluhjólinu, sleit mótorinn sig lausann og breyttist í jarðýtu. Sigurður og Viggó horfðu uppá þetta og ákváðu að lauma sér strax í burtu, því þeim þótti líklegt að einhvernveginn yrði þeim kennt um þetta óhapp.

Eiríkur Carlsen á sínu Black Bomber við flugskýli 1 við Reykjavíkurflugvöll en fremra hjólið er hjól Halldórs Pálssonar.

Sigurður selur svo hjólið 14. apríl 1968 Bæjarsjóði Keflavíkur og fer það á númerið Ö-1001 og er gert að lögregluhjóli. Sá sem notaði hjólið mest hjá lögreglunni hét Viðar Pétursson og er líklega á hjólinu á myndbandi sem til er af því. Þegar lögreglan hættir að nota það fer það í geymslu en er svo selt hjá Innkaupastofnun Ríkisins, en það var Bjarni Matthíasson ökukennari og lögreglumaður kaupir það. Óskar Hallgrímsson kaupir það svo af honum 1971 og notar næstu tvö árin á númerinu G-7477. Hann lendir meðal annars í því að detta á hjólinu og skemmdust þá töskurnar og rúðan svo að því dóti var seinna hent. Hann á hjólið ennþá ásamt bróðir sínum, Hallmundi Helgasyni enn þann dag í dag og er það í hægri uppgerð.

Klippa úr myndbandi frá æfingu slökkviliðsins í Keflavík seint á sjöunda áratugnum en þar sést glitta í Honda Black Bomber lögregluhjólið.

Annað af 1966 hjólunum var hjól Tómasar G Ingólfssonar í Njörvasundi 9 en það fékk númerið R-11985. Hann selur það Ágústi Guðmundssyni Laufásvegi 40 í maí 1967 en hann selur það svo í janúar 1968 Gunnari Árnasyni í Stóragerði 26. Hann selur það svo um sumarið norður í land en það er Daggeir H Pálsson, Bjarmastíg 3 Akureyri sem kaupir og fær hjólið þá númerið A-1124.

Black Bomber hjól Ágústs Guðmundssonar R-11985.

Sá sem kaupir hjólið 1969 af Daggeir er enginn annar en Óskar Þór Kristinsson, og var þetta fyrsta stóra mótorhjólið hans. Hefur því þetta hjól verið kallað jakkahjólið af innvígðum og festist það nafn við hjólið. Óskar átti hjólið í tvö ár á númerinu H-418 og seldi það 1971 Hermanni Benediktssyni á Akureyri. Óskar flutti hjólið til Akureyrar sjóleiðina þegar hann seldi það og skemmdist aðeins tankurinn í flutningunum. Árið 1972 er það selt Árna Árnasyni að Suðurbyggð 4 og sama sumar er það selt Eðvald Geirssyni, Þórunnarstræti 133. Halldór Jóhannesson frá Lundeyri kaupir það svo um haustið og er það þá með númerið A-1134. Steindór Steindórsson, Strandgötu 51 á Akureyri kaupir það í Október 1973 og hann selur það í sama mánuði Jóhannesi Sigtryggssyni frá Sandhólum í Saurbæjarhrepp. Þorsteinn Gunnarsson, Eyrarlandsvegi 33 kaupir það ári seinna en hjólið er afskráð úr Eyjafjarðarsýslu 10. nóvember 1977 og fær þá númerið U-200. Þetta hjól var með verksmiðjunúmerið 1017575, og fasta númerið BP076 en grindin af þessu hjóli er til ennþá. Upphaflegt mótornúmer var 1015160.

Ágúst Guðmundsson í torfærum á R-11985 í sandgryfjunum á Sævarhöfða.

Þriðja hjólið er í eigu Lofts Ágústssonar og er uppgert hjól í dag. Dóri Sigtryggson bifhjólavirki átti hjólið en seldi Lofti það um miðjan níunda áratuginn. Loftur keypti ýmislegt í hjólið, bæði nýtt og notað og gerði upp ásamt Dóra. Ekki er vitað mikið um sögu þess en er verksmiðjunúmer þess 1017556. Halldór Pálsson átti það fyrst og er hjólið til á myndum síðan að hann átti það.

Halldór Pálsson á mótorhjóli sínu fyrir utan heimili hans í Lönguhlíðinni.

Minna er vitað um sögu hinna þriggja en hjólið með verksmiðjunúmerið 1017536 er það sem Guðjón átti, en það má sjá í sölureikningum frá Honda umboðinu, sem varðveittir eru hjá Tryggva og Darra í Eyjum. Á þeim reikningum má einnig sjá að mótorinn úr því hjóli bar númerið 1015357 og er hann til í dag.

Viggó Guðmundsson við Black Bomber hjólið R-11993.

Hjólið með verksmiðjunúmerið 1017486 er hjól Ásbjörns Eydal. Þetta hjól er ennþá til en Tryggvi Sigurðsson gerði það upp, og er eigandi þess Viggó Guðmundsson. Það bar númerið R-11993. Mótorhjólið með verksmiðjunúmerið 1017579 er hjólið sem Bjarni Thors keypti nýtt á 63.650 kr árið 1966. Þetta hjól er nú í eigu Halldórs Sigtryggsonar og er óuppgert en það fannst í hitaveitukompu. Síðasta númer sem það bar er G-7474.

Brynjólfur Sigurðsson situr Honda CB450 vinstra megin á myndinni. Árni Þorsteinsson situr R-11916, sem er Honda 305 Dream. Árni fékk Black Bomber hjól Brynjólfs lánað og lenti í árekstri á því í Nóatúni. Daníel Guðmundsson var aftan á og þeir köstuðust yfir bílinn sem kom upp Nóatúnið og lentu þeir fyrir framan lögreglubíl sem var hinu megin á gatnamótunum. Þeir sluppu ágætlega frá þessu báðir og hjólið líka, en kaupa þurfti nýja framgaffla, ljós og tank. Hjólið var með nr-ið R-11950. Myndin er tekin 1968 á Óðinsgötu 18 og er líklega upphaflega hjól Guðjóns Jónssonar þó ekki sé hægt að slá því föstu.

Fyrsta myndin af Indian Chief!

Það hefur alltaf truflað mig að eiga enga mynd af seinni tíma Indian mótorhjólunum sem hingað komu. Á Íslandi voru kringum seinni heimsstyrjöldina til þrjú Chief mótorhjól og eitt Scout en einhverra hluta vegna hafði ég ekki haft spurnir af nema einni mynd, sem því miður týndist þegar myndasafni viðkomandi fjölskyldu var hent. Svo gerist það um síðustu helgi að hinn norski Halvor Midtvik var í heimsókn hjá mér, en hann er Norðmaður sem á nokkur Indian mótorhjól og hefur heimsótt Ísland á einu þeirra. Ég sagði honum einmitt frá þessum hjólum og að ég ætti því miður enga mynd af þeim. Þá greip forsjónin inní eins og svo oft áður, því þegar ég kom heim beið mín tölvupóstur með 15 gömlum mótorhjólamyndum. Ég fletti gegnum myndasafnið og síðasta myndin setti mig í rogastans, því þar blasti einmitt við mér tilkomumikið Indian Chief á X-númeri!

Sagt er að hjólið hafi verið fallega blátt að lit með gylltum merkingum sem passar við litasamsetningu Indian Chief á þessum tíma.

X-96 var skráð á Erlend Þórðarson árið 1945 í Bílabókinni.
Hjólið var fyrst skráð á Smörlíkisgerðina Smára 22. maí 1942 og fékk þá númerið R-1140. Því næst ferð það á nafn Gunnars Guðjónssonar, Sogamýrarbletti 36 þann 6. mars 1943. Erlendur Þórðarson, Mjólkurbúi Flóamanna kaupir það svo þann 14. júlí 1944. Hugsanlega er þetta sama hjól og Lögreglan í Reykjavík fékk að láni á Lýðveldishátíðinni 18. júní 1944, en í kvikmynd frá atburðinum sést glitta í hjólið fremst í skrúðgöngu.

Hér má sjá samskonar Indian Chief mótorhjól en með annarri litasamsetningu.

Árið 1940 komu síðu brettin og gormadempari að aftan í Chief og Four hjólin. Þetta bætti þó 40 kílóum við þyngdina og þótti sumum það misráðið en á móti kom að mótorinn fékk álhedd með hærri þjöppu. Rauði liturinn var langt frá því að vera eini liturinn á Indian hjólum á þessum tíma. Indian Chief hjól Halvor Midtvik er mjög svipað X-96 nema að það er ekki komið með síðu brettin. Eins og áður sagði heimsótti hann Ísland árið 2007 og ásamt því að fara hringveginn fór hann meðal annars uppí Landmannalaugar á hjólinu.

Indian hjól Halvor Midtvik komið langleiðina uppí Landmannalaugar.
Ekið yfir polla á Kjalvegi.

Biggi breti gerir upp glæsilegt Panther 1938

Birgir Jónsson er oftast kallaður Biggi breti og hann ber svo sannarlega nafn með rentu. Hann er með sex glæsileg bresk mótorhjól í safni sínu og eru þau öll af sitt hvorri gerðinni. Það „nýjasta“ í flotanum er jafnframt það elsta en í vetur lauk hann við uppgerð á Panther M100 frá 1938.

Biggi í skúrnum með Panther mótorhjólið. Mynd: Tryggvi Sigurðsson.

Biggi átti hjólið upp úr 1970 og hafði breytt því í hippa þegar það gaus í Eyjum. Þá var hjólinu stolið og endaði það í Reykjavík. Þar fann hann Símon Waagfjörð hjólið á bak við hús á Þórsgötunni og sagði Bigga frá því. Biggi ákvað að gefa Símoni hjólið sem sótti það og hafði það hjá sér í Garðabænum. Hann flytur svo seinna með það með sér til Víkur í Mýrdal. Þar skoðaði greinarhöfundur meðal annars hjólið sumarið 1992 og var það þá enn með langa gafflinum.

Svona leit Panther hjólið út í skúrnum hjá Símoni í Vík árið 1992.

Símon flutti svo aftur til Eyja og tók hjólið með sér í bútum, enda stóð þá til að fara að gera það upp. Það komst þó ekki lengra en það og gaf Símon því Bigga hjólið aftur. Biggi einhenti sér í verkið að gera hjólið upp og kláraði það á hálfu ári, eftir að hjólið hafði ekki verið brúkað í hálfa öld.

Það er einstaklega glæsilegt Panther mótorhjólið hjá Bigga enda mikil natni lögð við að gera það sem upprunalegast.

Hjólið bar fyrst númerið R-2815 og var í Bílabókinni 1945 skráð á Hjört Jónsson. Í Bílabókinni 1956 er það skráð á Skúla Jónsson, Laugavegi 70. Það er enn í eigu hans þegar það er skoðað síðast þann 23. júlí 1958 og fer þá líklega á númerið R-3922. Númerið er svo niðurlagt þann 10. nóvember 1959, líklega þegar það fer í annað umdæmi.

Líklega er hér verið að auglýsa Panther mótorhjólið þar sem aðeins er vitað um tvö slík frá því fyrir stríð.

Gott Panther mótorhjól er auglýst til sölu 1. Nóvember 1945 í Morgunblaðinu. Einnig er um sumarið auglýst Panther mótorhjól, gott og sterkt í Vísi 7. Júní. Annað Panther mótorhjól sem var til hér á skrá var skráð 2,5 hestöfl og með númerið X-173 svo leiða má líkum að því að hér sé verið að auglýsa R-2815. Sá sem er skrifaður fyrir auglýsingunni er Lauritz Jörgensen hjá Skiltastofunni Hótel Heklu. Loks er Panther mótorhjól auglýst selt með tækifærisverði, ennfremur varahlutir seldir sér, í Vísi 27. Maí 1946 en ekkert kemur fram hver er að selja hjólið nema símanúmerið 2050. Það símanúmer er skráð á Þorstein Bergmann sem seldi Mimeograph fjölritunartæki.

Panther Model 100 frá 1936 er nánast eins og hjólið frá 1938.

Panther Model 100 var með 598 rsm toppventlavél sem hallaði fram (sloper) og var fremri hluti vélarinnar hluti af grindinni. Þjappan var 6,5:1 og voru hjólin oft notuð fyrir hliðarvagna. Model 100 kom fyrst á markað árið 1932 og var framleitt nánast óbreytt til 1963. Hjólið gat ná 80 mílna hraða og þótti traust og gott. Hjólið var framleitt í þrjá áratugi sem er sérstakt meðal mótorhjóla. Árið 1939 var M100 Panther hjóli ekið stöðugt 10.000 mílur í níu daga samfleytt á milli Leeds og London um miðjan vetur. Aðeins þurfti að sinna minni háttar viðgerð á bensínleiðslu og slitinni keðju en að öðru leyti stóðst hjólið þessa raun.

Panther sloper mótorinn var 600 rsm og með lága þjöppu svo að hann þótti sterkur.

Elsta mótorhjól heims selt á uppboði hjá Bonhams

Elsta mótorhjól sem til er í heiminum í dag er 1894 árgerð af vel varðveittu Hildebrand & Wolfmuller mótorhjóli. Það var á dögunum selt á uppboði hjá Bonhams í Bretlandi og fór þar fyrir 30 milljónir króna.

Hildebrand & Wolfmuller mótorhjólið er fyrsta farartækið sem kallað var mótorhjól og er athyglisvert að mörgu leyti. Það er með 1.488 rsm V2-vél sem er vatnskæld og er afturbrettið í raun og veru tankur fyrir vatnið.

Þessar teygjur sjá um að hjálpa stimplum vélarinnar að koma til baka.

Stimplar vélarinnar voru beintengdir við afturhjólið, sem er með heilli felgu sem virkaði eins og svinghjól. Gúmmíteygjur sáu um að hjálpa stimplunum að koma til baka. Hjólið kemur á loftfylltum dekkjum, þeim fyrstu frá Dunlop sem voru fyrir mótorhjól.

Hér má sjá einfaldan bremsubúnaðinn sem átti þó að stoppa stórt og þungt hjólið.

Hjólið gat náð um 50 km hraða og til að stöðva það voru nokkrar skeiðar sem lögðust upp að dekkinu þegar tekið er í bremsuhandfangið.

Það hefur líklega ekki verið mjög þægilegt að sitja á þessum þunna hnakki.

Hjólið hefur verið í eigu sama aðila frá 1990 en það var spænskur safnari að nafni Carlos Garriga. Ekki fylgir fréttinni hver það var sem keypti hjólið.

Mecum mótorhjólauppboðið

Í lok janúar fer fram eitt stærsta mótorhjólauppboð ár hvert, sem er Mecum uppboðið í Las Vegas. Fjöldi fágætra mótorhjóla var þar á uppboði og má þar nefna hjól eins og 1908 árgerð Harley-Davidson, BMW R32 1925, Henderson C-módel 1914, Henderson 1916, 1938 árgerð Vincent HRD og margt fleira. Einnig var talsvert af nýrri mótorhjólum til sölu og mörg ansi sérstök, eins og við komum að síðar í greininni.

Hér má sjá Z1 900 1973 mótorhjól Mike Konopacki um það bil að fara undir hamarinn. Mynd: Youtube

Meðal hjóla sem fóru fyrir metfé á uppboðinu var Kawasaki Z1 900 frá 1973, sem var fyrsta árgerð þessa mótorhjóls. Sá sem átti hjólið og hafði gert það upp héitir Mike Konopacki og þekktur kvartmílukeppandi í Bandaríkjunum. Hann var með sex mótorhjól á uppboðinu og hafði gert sér vonir um að fá 3,5 milljónir fyrir Z1 hjólið. Hann var líka með óaðfinnanleg KZ900 1976 og Z1R 1978 sem fóru fyrst undir hamarinn, en honum til nokkurra vonbrigða fóru þau bara á 1,7 og 2 milljónir. Eftir hádegi var komið að Z1 hjólinu og Mike hafði áhyggjur að það myndi ekki ná því marki sem hann vildi ná. Annað átti þó eftir að koma í ljós því að boðin streymdu inn og fljótlega var það komið upp í 3,5 milljónir. Þá var eins og skipt hafi verið um gír og áfram héldu boðin að koma í hjólið, þar til það var slegið fyrir hæstu upphæð sem fengist hefur fyrir hjól af þessari gerð, eða litlar 7,1 milljón króna! Mike fór strax á barinn og pantaði sér einn Crown Royal til að halda uppá söluna. Hann hafði líka frekari ástæðu til að fagna síðar, því að tvö önnur Z1 hjól frá honum voru boðin upp seinna um daginn, og fóru á 3,5 milljónir hvort, en þá voru 1974 og 5 árgerð.

Þetta óaðfinnanlega Harley-Davidson eins strokks frá 1908 var á uppboðinu en ári seinna komu fyrstu V2 hjólin frá þeim á markað. Mynd: Mecum

Á uppboðinu fóru mörg hjól yfir 15 milljónir króna og sum nálægt 20 milljónum. Það sem vakti þó kannski ekki síður athygli var þegar Aaron Loveless frá Kaliforníu kom með ansi skrýtið mótorhjól á uppboðið. Greinarhöfundur þekkir hann ágætlega og fylgdist með honum í nóvember þegar hann fann gripinn í gömlu flugskýli. Hjólið er í grunninn reiðhjól frá 1915 og kallast Areothrust, en það er lítill flugvélamótor sem er festur á bögglaberann sem knýr hjólið áfram. Aaron er með ástríðu fyrir öllu gömlu þótt hann sé ungur að árum og keppir meðal annars árlega í Cannonball rallinu á 100 ára gömlum mótorhjólum. Þegar kom að því að bjóða upp flugreiðhjólið hans fóru skrýtnir hlutir að gerast. Greinilegt var að margir vildu eignast gripinn og verðið klifraði hratt upp. Þegar hjólið var slegið hafði það farið fyrir 82.000 dollara, eða 11,7 milljónir króna og geri aðrir betur.

Areothrust hjól Aaron Loveless fór á 82.000 dollara og brutust þá út mikil fagnaðarlæti.
Alls þurfti fjóra daga til að bjóða öll mótorhjólin upp en hér má sjá hluta þeirra í einni sýningarhöllinni. Mynd: Harald Zechner

Bætt við Harley-Davidson söguna

Það að safna heimildum og skrifa bækur um gömul mótorhjól er verkefni sem stoppar ekki, og sífellt eru að koma viðbætur við söguna. Aðeins hefur bæst í söguna síðan að bókin „Goðsögnin frá Ameríku“ kom út um jólin og því er það góður vettvangur að nota fornhjol.is til að segja frá því sem bæst hefur við heimildir. Til dæmis áskotnaðist ritstjóra fornhjol.is mynd af Sigga Palestínu á WL mótorhjólinu sem tekin er að vetri til. Einnig hafði maður samband sem að gat sagt frá því að Harley-Davidson U-módelið frá 1942 sem talið var að brunnið hafði í skemmuni við Hálogaland, var ekki ónýtt eftir brunann heldur var það gert upp. Loks komu myndir frá Hilmari Lútherssyni sem sýna bæði frá uppboði Harley-Davidson lögregluhjóla árið 1989 og myndir af hjóli Hlyns Tómassonar, flugvirkja þegar Stjáni Meik sótti það úr geymslu, og var með á vörubílspallinum í nokkra daga. Óhætt er að segja að það vakti nokkra athygli á sínum tíma.

Myndin af Sigurði Emil Ágústssyni kom í hendur höfundar eftir útkomu bókarinnar en hún sýnir hann stoppa skellinöðrugutta fyrir akstur með farþega. Eins og sjá má er hávetur og Harley-Davidson WL hjólið frá 1945 á snjókeðjum. Sá sem situr glaðbeittur á NSU skellinöðrunni er Símon Wium, en myndin er tekin veturinn 1960-61.

Það var Jón Már Richardsson rafeindavirki sem að keypti hjólið vorið 1960 og seldi aftur árið 1966. Sá sem gerði það upp að mestu var Jóhann Erlendsson flugvirki, en hann kemur heim frá námi í Bandaríkjunum árið 1957. Ekki fylgir sögunni hvernig hann eignaðist það en þegar hann kemur heim eru sex ár liðin frá brunanum svo líklegt er að einhver hafi átt það á undan honum. Jón Már var að vinna með bróðir Jóhanni flugvirkja sem hét Höskuldur og hafði aðstoðað við uppgerðina á hjólinu. Jón Már lýsir því þegar hann fór að skoða hjólið með þessum orðum. „Árið 1959 fæ ég bílpróf, og fer að velta fyrir mér kaupum á mótorhjóli. Áður var ég búin að vera með skellinöðru, en Höskuldur bróðir Jóhanns, segir að Jói bróðir sinn sé með stórt mótorhjól til sölu. Förum við nú suður á Reykjavíkurflugvöll til að skoða hjólið. Ég man að mér varð hálfpartinn um er ég sá gripinn, risahjól með hliðarkerru. Harley-Davidson týpa-U. Ég fór í smá prufutúr á gripnum, en hjólið var þungt og réð ég ílla við það með hliðarkerruna.  Ekki varð af kaupum þá, en ég hugsaði málið í dálítinn tíma og gerði honum svo tilboð í hjólið, án hliðar kerrunar. Hann tók tilboðinu, en ekki veit ég hvað hann gerði við kerruna.“

Annað þeirra Harley-Davidson mótorhjóla sem fóru til Akureyrar var af 1982 árgerð en þar var því ekið yfir 50 þúsund kílómetra áður en það var sent til Reykjavíkur skömmu fyrir aldamót. Sá sem keypti hjólið ásamt öðru hjóli úr Rekjavíkurflotanum hét Morten Corneliusson og var frá Noregi, en hann hafði aðstoðað lögregluna hér við kaup á búnaði við stofnun sérsveitarinnar. Morten á hjólin enn þann dag í dag og eru þau enn hjá honum í góðu yfirlæti að því best er vitað.
Hér er Harley-Davidson RL módel Hlyns flugvirkja á pallinum á Mack vörubílnum hans Stjána Meik, fyrir utan verkstæði hans í Súðavoginum.
Frá uppboð lögreglunnar í portinu bak við Borgartún 7. Mynd: Hilmar Lúthersson.