Categories
Uncategorized

Verð fornhjóla heldur áfram að hækka

Það er ekki fyrir hvern sem er að gera upp fornhjól, hvað þá að kaupa eitt slíkt. Verð á fornhjólum hefur farið ört hækkandi undanfarin ár og einnig hefur verð varahluta hækkað samkvæmt því. Nú er svo komið að tengdir hlutir eins og gömul verkfæri, bensíndælur eða jafnvel olíubrúsar fara á óheyrilegar upphæðir og sýnist sitt hverjum. Um ástæður þess eru margar kenningar en líkleg ástæða er sú að sumir eiga meira af peningum en aðrir og eru tilbúnir að borga yfirverð fyrir eitthvað á uppboði sem fara myndi vel í sýningarskúr (Mancave) viðkomandi. Gott dæmi um slíkt er beyglaður olíbrúsi frá miðjum öðrum áratug síðustu aldar sem fór á rúma 18 þúsund dollara fyrir skömmu. Á brúsanum var mynd af 1915 árgerð Henderson sem eflaust hafði sitt að segja um verðið.

Hér má sjá olíubrúsann með Henderson mótorhjólinu sem fór á 2,5 milljónir króna fyrir skömmu.

Það er kannski ekki úr vegi að skoða verðmæti mótorhjóla sem hafa verið til hérlendis og jafnvel eru til ennþá. Byrjum á nokkrum mótorhjólum frá upphafi mótorhjólaaldar á Íslandi. Greinarhöfundur á Indian Powerplus verkefni sem verið er að safna íhlutum í smán saman. Síðast þegar slíkt hjól var selt á Mecum uppboði fór það á 38.750 dollara eða 5,3 milljónir króna. The Motorcycle and Railroad Museum of Wisconsins gefur út biblíu á hvert sem inniheldur áætlað verðmæti mótorhjóla, en það er eitt virtasta ritið á þeim vettvangi. Þar er gott upprunalegt eintak af Indian Powerplus 1918 metið á 60 þúsund dollara eða 8,2 milljónir króna. Á Mótorhjólasafninu er varðveitt Henderson mótorhjól sem að Grímur Jónsson járnsmiður gerði upp frá grunni. Algengt er að slík hjól fari á 80-90 þúsund dollara eða 11-12 milljónir króna.

This image has an empty alt attribute; its file name is Screenshot-2022-08-07-at-17.16.40.png
Þetta Harley-Davidson Model BA frá 1929 var selt árið 2006 úr safni Steve McQueen fyrir 32.000 dollara.

Greinarhöfundur á sjaldgæft Harley-Davidson Model BA frá 1929 sem verið er að gera upp, en slík hjól voru nokkuð sjaldgæf og fyrstu hjól Harley-Davidson til að vera seld með toppventlamótor. Aðeins 199 voru framleidd það árið og geta þau farið á 35 þúsund dollara ef þau kæmu á sölu samkvæmt biblíunni. Í íslenskum krónum gerir það tæpar fimm milljónir króna.

Góð eintök af Kawasaki Z1 900 með upprunalegu pústkerfi fara á himinháar upphæðir eða á fimmtu milljón króna.

Vinsæl fornhjól hérlendis eru hjól eins og Honda CB 750 og CBX 1047. Svokölluð „Sandcast“ útgáfa 1969 árgerðar sem er fyrsta árgerð CB 750 kostar þar 40 þúsund dollara eða 5,5 milljónir króna. Honda CBX 1000 1979 er metið á 23 þúsund dollara en það er 3,2 milljónir króna en nokkuð er til af slíkum hjólum hérlendis. Dæmi um hjól sem hafa hækkað mikið í verði að undaförnu eru elstu gerðir Kawasaki ofurhjólanna. Tvígengishjólið H2 750 kom á markað árið 1972 og voru 23.570 eintök framleidd það árið. Slíkt hjól er metið á 18 þúsund dollara í dag eða 2,5 milljónir króna. Kawasaki Z1 900 kom ári einna og þau fara á 30 þúsund dollara sem gerir 4,1 milljón króna. Það er sama verð og BSA Gold Star 500 geta farið á svo óhætt er að segja að þau séu nokkuð eftirsótt. Meira að segja fyrstu árgerðir Suzuki GSX-R 1100 frá 1986 fara á 10.000 dollara eða 1.370.000 kr. og sama má segja um fyrstu árgerð vatnskælda 750 hjólsins frá 1993.

Dýrstu mótorhjólin eru venjulega þau sem eru ennþá með öllu upprunalegu og þá líka litnum eins og þetta Indian Powerplus frá 1918.

Miðað við hvað fornhjól og hlutir þeim tengdir fara fyrir háar upphæðir má segja að peningunum er vel varið í slíka hluti og þeir ávaxti sig vel. Það er þó ekki einfalt mál að selja hérlendis þar sem markaðurinn er smár og hætt við að einhverjir freistist til að selja úr landi, sem er synd fyrir okkar litla land.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *