Categories
Uncategorized

Myndir af Gillet Herstal hjólinu fundnar

Þeir sem hafa fylgst með greinum sem ég hef verið að birta á þessari síðu muna kannski eftir ryðgaðri grind sem ég fjallaði um fyrir nokkru og hékk uppá húsvegg á gömlu húsi á Ísafirði. Hjólið sem grindin tilheyrði hét Gillet Herstal og bar númerið Í-59, en það var í eigu Kjartans Stefánssonar á Flateyri. Svo skemmtilega vill til að grindin fannst einmitt í ruslahaug á Flateyri.

Björgmundur Örn Guðmundsson birti fyrir nokkrum dögum á Facebook mynd af afa sínum á gömlu mótorhjóli, og eftir samtal við hann og bróðir hans Bernharð kom í ljós önnur og skýrari mynd af hjólinu. Þar sést vel að númerið er Í-59 og er þar Gillet Herstal hjólið lifandi komið, enda passaði vel að Kjartan var vinur afa þeirra. Við birtum hér þessar myndir til að setja punktinn yfir i-ið ef svo má segja.

Magnús Kristján Guðmundsson mátar hér Gillet Herstal hjólið en hann átti einnig sjálfur Francis Barnett mótorhjól á þessum tíma.
Kjartan Stefánsson á Gillet Herstal hjóli sínu en myndin er líklega tekin 1945.
Gillet Herstal Sport frá 1929 en grindin er líklega frá 1931 og er alveg eins.

Gillet Herstal hjólin voru talin mjög góð eins og önnur belgísk hjól eins og FN og Sarolea. Framleiðsla þeirra hófst 1919 og náði til 1959 og voru á þriðja áratug tuttugustu aldar vinsæl keppnishjól. Setti René Milhoux meðal annars nokkur hraðamet á slíklu hjóli. Óbreytt Sport hjól var með 500 rsm toppventla mótor sem skilaði 20 hestöflum sem þótti gott. Við vitum að árið 1928 breytti Gillet Herstal grindinni fyrir söðultank svo að hjólið var allavega yngra en það. Hjólið er líklega flutt inn til Reykjavíkur sumarið 1939 og var með vélarnúmerið 35206 og fékk fyrst skráningarnúmerið R-1118 og er sagt 1931 árgerð. Þarna höfum við það, staðfestingu á að allavega eitt Gillet Herstal Sport hafi komið hingað til lands og leyfar af því séu ennþá til.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *