Categories
Uncategorized

Mynd af fágætu Raleigh

Á dögunum var birt mynd á facebook síðunni Gamlar ljósmyndir af tveimur herramönnum á faratækjum sínum. Annar þeirra situr í bíl en sá fremri situr uppábúinn með hanska og hatt og sígarettu í munninum, á greinilega talsvert gömlu mótorhjóli. Alltaf þegar ég fæ svona myndir í hendurnar get ég ekki á mér setið að finna betur út úr því hver sé á hjólinu og hverrar gerðar það er.

Viggó Bjerg situr hér Raleigh Model 17 frá 1926-7 en ekki er vitað hver situr í bílnum.
© Guðrún Einarsdóttir.

Fyrsta verkið var að sjálfsögðu að fletta upp í skráningarupplýsingum, en þar kom fram að hjólið var af Raleigh gerð, og var það í eigu Óskars Guðnasonar 1928-29 og Viggó Bjerg árið 1930. Ég sendi nöfnin á konuna sem birti myndina og kannaðist hún strax við Viggó sem tengdist afa hennar. Myndin er því líklega tekin 1930 eða fljótlega eftir það. Einu upplýsingarnar um gerð Raleigh hjólsins var svokallað vélarnúmer hjólsins, en það var 2651 sem sagði ekki mikið. Þrátt fyrir að leggjast yfir myndir af Raleigh hjólum frá þessum tíma var eingin greinileg samlíking. Það hitti reyndar svo vel á að ég hafði nýlega sent skráningarupplýsingar um vélarnúmer Raleigh hjóla á Íslandi, á aðila hjá eigendaklúbbi í Bretlandi sem var að safna vélarnúmerum af slíku hjólum, en talsvert var um Raleigh hjól á Íslandi á millistríðsárunum. Ég sendi myndina á viðkomandi sem svaraði mér um hæl að hér vaæri um sjaldgæfa gerð að ræða frá þessum framleiðanda.

Úr bæklingi um Raleigh Model 17 mótorhjól sem Greg Wood frá Kentucky hefur skannað og sett inná veraldarvefinn.

Mótorhjólið á myndinni er Raleigh Model 17 sem aðeins var framleitt 1926-27. Það var með 174 rúmsentimetra síðuventla mótor en það sem var óvenjulegt við hjólið var að það var með sambyggðan gírkassa. Flest hjól á þessum tíma voru með gírkassann sér og tengdist hann vélinni með reim eða keðjudrifi, en hér var allt í sömu blokkinni. Einnig var svinghjólið innbyggt en ekki utanáliggjandi eins og algengt var á þessum tíma.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *