Categories
Uncategorized

Fyrsta Ducati hjólið hér

Þetta Ducati 48 hjól lagði grunninn að 98 og 125 rsm hjólum Ducati sem aftur lögðu grunninn að því sem Ducati er í dag.

Við skoðun á gömlum skráningarupplýsingum fyrir skellinöðrur rakst ég á þá skemmtilegu staðreynd að fyrsta Ducati hjólið kom hingað árið 1958 og var af sjaldgæfri tegund frá 1953, en fyrsta slíka hjólið var framleitt árið 1952. Hjólið kom frá Sölunefnd varnarliðseigna og hefur því líkast til komið upphaflega frá Bandaríkjunum. Hjólið er fyrst í eigu Sigurðar Helgasonar, Miklubraut 3 en Ásgeir Eiríksson, meðlimur í Eldingu nr. 87 átti hjólið 1959-61. Það fer svo í eigu Guðbjarts Bjarnasonar, Þjórsárgötu 11 sumarið 1961 en ekki er vitað um það síðan.

Skráningarblaðið fyrir fyrsta Ducati hjólið á Íslandi sýnir að það bar númerið R-791 en það númer er nú á Volkswagen Bora.

Hjólið hefur þótt fullkomið á sinni tíð með fjórgengismótor, blautkúplingu og þriggja gíra kassa. Grindin var úr pressuðum stálplötum og hjólið því létt eða aðeins 41 kíló. Að sjálfsögðu voru Pirelli dekk undir hjólinu og hestöflin 1,5 komu hjólinu í 50 km hraða. Ducati var fyrst stofnað 1926 og framleiddi fyrst íhluti í útvörp. Ducati keypti lítinn mótorframleiðanda eftir stríð sem kallaðist Siata sem framleiddi vélar sem kölluðust Cucciolo, en það þýðir hvolpur á ítölsku. Fyrsta hjólið kom 1947 og árið 1950 var búið að selja 200.000 eintök og kom það fótunum undir Ducati merkið.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *