Categories
Uncategorized

Einstakt Zenith með JAP mótor

Magnús Sverrisson á X-99 en myndin er líklega tekin á stríðsárunum.

Fyrstu skrif mín um fornhjól á Íslandi voru í félagsritinu Sniglafréttir í kringum 1993. Þar sendi fólk inn myndir mánaðarlega og ein af myndum mánaðarins var af þessu Zenith. Þau voru bresk, framleidd á árunum 1904-1950, en hjólið á myndinni er u.þ.b. 1930-32 árgerð. Maðurinn sem situr það og jafnframt þáverandi eigandi þess er Magnús Sverrisson, fæddur 1918 og átti hann hjólið í eitt ár. Myndin er tekin fyrir austan fjall.

Íslenska hjólið var að öllum líkindum svona B2 módel “Twin port.”

Þetta Zenith var með vélarnúmerið 48.518 og er hestaflatalan 4 skráð í skoðunarbók. Fyrsta skráningin á þessu hjóli er frá 1933 og er hjólið sagt komið notað frá Hamborg. Er það skráð á Ágúst Jónsson, Njálsgötu 35 með númerið RE-426 alveg til 1937.

Frá 1. Júlí 1938 en þá er Jón Ólafsson frá Álafossi skráður fyrir því en þá er það fært á R-426. Það er selt Gunnar Sveinssyni, einnig frá Álafossi 30. Maí 1939. Gunnar er einnig skráður fyrir því 1940 en það sé komið með númerið G-212. Óskar Guðlaugsson í Hafnarfirði er svo skráður fyrir því 1941 en 1. Júlí sama ár er það selt Þórði Jónssyni frá Forsæti í Árnessýslu. Ári seinna er það komið á númerið X-99 svo myndin af Magnúsi er tekin eftir það.

Það er sagt að það sé ennþá til í júlí 1943, en í skráningabók frá 1943 og í Bílabókinni frá 1945 er hjólið skráð á Pétur Sumarliðason frá Eyrarbakka. Eftir það finn ég ekkert um það. Líklega er þetta eina Zenith hjólið sem nokkru sinni kom til landsins.

Zenith notaði alltaf JAP vélar með fáeinum undantekningum enda er JAP 348 rsm toppventlamótor í þessu. Á þessum tíma var hægt að fá allt að 1100 cc. Zenith V2. Árið 1931 voru öll Zenith model sem í boði voru með JAP mótorum. Árið 1930 setti Joe Wright heimshraðamet á Zenith hjóli með JAP mótor þegar hann náði 240 km hraða á slíku hjóli. Það hjól var var með 998 rsm motor með keflablásara. Þrátt fyrir gott gengi á millistríðsárunum fékk Zenith engan hernaðarsamning þegar kom að heimsstyrjöldinni og reyndist það banabiti merkisins, því engine hjól voru smíðuð á þeim árum. Reynt var að taka upp þráðinn eftir stríð með síðuventla V2 hjólum, en vegan þess hve erfitt var að fá mótora hætti framleiðsla hjólanna 1950.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *