Categories
Uncategorized

Fór á mótorhjóli um Ísland árið 1913

Árið er 1913 og ungur bókari frá Uxbridge í London er um það bil að fara um borð í skip á leiðinni til Íslands. Það sem er sérstakt við þetta ferðalag hans er að með í för er Rover mótorhjólið hans sem hann hyggst nota til ferðalags um eyjuna. Stefnan var sett á að sjá hvort hægt væri að þvera hana og kanna vegi fyrir aðra sem gætu haft áhuga á að gera slíkt hið sama, enda skrifaði L. W. Spencer fyrir tímarit sem kallaðist Motorcycling. Hann hafði unnið sér til nokkurrar frægðar í Englandi að verða fyrstur á mótorhjóli uppá nokkra fjallstoppa eins og Snowden, ásamt því að keppa á Morgan þríhjóla kappakstursbílum.

L. W. Spencer á fyrsta legg ferðarinnar á leiðinni á Þingvöll. Eins og sjá má voru vegirnir þá ekki uppá marga fiska.

Það var fyrir tilviljun að undirritaður frétti af greininni um þessa för við lestur gamalla dagblaða á timarit.is. Í Vísi þann 2. September 1955 er fjallað um að 1913 hafi Englendingur ætlað yfir Ísland á bifhjóli og er sagt frá því með skemmtilegum hætti hvernig eintak af blaðinu komst hingað til lands. Sem betur fer fyrir undirritaðan var tilgreint í hvaða tölublaði greinin birtist og hófst því leitin um víðfeðmar lendur veraldarvefsins. Leitin tók tvö ár og hafðist að lokum að hafa uppi á henni, og birtist ferðasagan í fjórum tölublöðum alls rúmar 20 síður með fjölda mynda. Spencer lýsir þar för sinni á Þingvelli, ferð austur fyrir fjall yfir Hellisheiði og upp að rótum Heklu, ásamt fleiri ferðum að Reykjafossi og Keflavík, alls um 500 enskar mílur. Við drepum hér niður í frásögn hans að því þegar hann kemur til Þingvalla í fyrsta skiptið.

Þótt myndin sé óskýr sést vel að hér er á ferðinni Rover mótorhjól frá 1913. Kunnugir þekkja eflaust Ingólfsfjall og áin er því líklegast Ölfusá.

„Þegar ég kom aftur að Geithálsi, beygði ég skarpt til hægri á veginn til Þingvalla, sem lá yfir breiða hásléttu sem náði á tímabili 1.110 feta hæð. Bráðum fór vegurinn að lækka aftur þar til að Þingvallvatn, drottning íslenskra vatna, kom í ljós. Það var mjög fallegt í sólskini síðdegisins og blár himininn endurspeglaðist í glitrandi yfirborðinu. Langt fyrir aftan mátti sjá snævi þakta fjallstoppa og fjarlæga jökla og meðal þeirra hið fræga fjall Heklu.Undur landslagsins létu mig gleyma mér um stund en skyndilega leit út fyrir að vegurinn lægi fram af djúpri gjá en sem betur fer beygði hann til vinstri niður skarð sem kallast Almannagjá. Þetta var inngangurinn til Þingvalla. Við enda skarðsins gat ég séð láglendið breiða úr sér.“

Forsíðu greinarinnar prýðir þessi mynd af hjóli L. W. Spencer í miðri Almannagjá eða Allmen´s Chasm. Bókin um land miðnætursólarinnar er um ferð hans til Noregs árið áður.

Spencer lýsir á skemmtilegan hátt hvernig barningur það var að ferðast um landið á misgóðum reiðvegum þess tíma, en það er í of löngu máli til að gera því skil hér. Þess í stað verður ferðasagan birt í nokkrum köflum á heimasíðu sem undirritaður heldur úti um gömul mótorhjól á Íslandi á slóðinni fornhjol.is. Spencer mun hafa heimsótt fleiri lönd á mótorhjóli eins og Noreg og mun hann hafa skrifað bók um þá ferðasögu, en leit að henni hefur ekki borði árangur ennþá. Spencer bauð sig fram til þjónustu í mótordeild breska hersins í fyrri heimstyrjöldinni. Þar lét hann lífið í sendiferð, líklega á mótorhjóli sínu, þegar leyniskytta hæfði hann í höfuðið í október 1914.

Þessi mynd er líklega tekin á leið til Heklu, en L. W. Spencer segir frá því að þegar hann ók yfir Hellisheiði hafi hann séð þar sem rauk úr fjallinu og er því myndin líkast til tekin í Hveradölum.

Hjólið þótti vel heppnað enda var það með 3,5 hestafla mótor í miðri, demantslaga grind og að framan var tvískiptur gaffall með gormum að framan. Fyrsta Rover hjólið var með úðablöndungi og vélknúnum ventlum og góð smíði hjólisins tryggði góðar móttökur enda seldust yfir 1.000 Rover mótorhjól árið 1904. Ári seinna hætti þó Rover framleiðslu mótorhjóla í nokkur ár til að einbeita sér að framleiðslu reiðhjóla, enda varð sölufall á mótorhjólum um þetta leyti vegna tilrauna annarra framleiðenda sem þóttu ekkert sérlega vel heppnaðar. Árið 1910 var svo mótorhjólaframleiðslan sett aftur í gang og John Greenwood sem seinna hannaði fyrir Sunbeam, fenginn til að koma með endurbætta útgáfu 3,5 hestafla hjólsins með Bosch kveikju og Brown & Barlow blöndungi. Hjólið kom með Druid framgaffli og var kynnt á Olympia sýningunni árið 1910 og seldust 500 eintök af því hjóli 1910-11. Það var á slíku hjóli sem L. W. Spencer kom á til Íslands árið 1913.

Kveikjan á hjólinu var höfð fyrir aftan mótorinn þar sem bleytan komst ekki að og hún var keðjudrifin. Árið 1913 kom hjólið með endurhannaðri grind og þekkist hjól L.W. Spencer sem 1913 árgerð þar sem að þá kom hjólið með olíutanki sem var innfelldur í bensíntankinn hægra megin.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *