Segja má að áhugi minn á gömlum mótorhjólum og söfnun heimilda um þau hafi kviknað þegar ég skoðaði nokkrar myndir sem að Hilmar Lúthersson Snigill #1 hafði komið með til varðveislu í Sniglaheimilinu 1993. Myndirnar voru af tveimur mótorhjólum, Ariel 1930 og Harley-Davidson 1929 sem bar númerið R-1130. Myndirnar sýndu hjólin á slæmum malarvegi og lýstu vel þeim barningi sem að hjólafólk þess tíma lifði við. Var mér sagt að vegurinn væri gamall þjóðvegur á Höfðabrekkuheiði, ekki langt frá Vík í Mýrdal. Myndirnar heilluðu mig upp úr skónum og ég komst að því að á Harley-Davidson hjólinu sæti Loftur Ámundason járnsmiður.
Árið 1992 fór ég í Vík ásamt tveimur félögum mínum að skoða gömul Harley mótorhjól sem að eldri maður átti þar inní skúr. Annars vegar var þar V2 hjól sem líklegast var af WL gerð frá 1945 og svo eldra 1929 hjól með öðrum en upphaflegum mótor. Maðurinn sem átti hjólin hét Guðmundur Guðlaugsson og segir sagan að hjólið hafði gengið manna í millum þarna í sveitinni í nokkurn tíma. Guðmundur hafi fengið að hirða hjólið þegar stóð til að henda því og í stað þess að laga mótorinn hafi hann sett í það eins strokks mótor úr 1927 árgerð af Harley-Davidson hjóli. Vitað er hvaðan það hjól kemur og munum við fjalla betur um sögu þess á næstunni.
Ekki segir svo sem meira af þessari ferð annað en að ég tók nokkrar myndir af hjólunum ásamt Panther mótorhjóli í öðrum skúr, en það hjól er nú í uppgerð. Vitneskjan af þessum Harley hjólum var þó alltaf til staðar og ég frétti seinna að ættingjar Guðmundar hefðu eignast hjólin eftir fráfall hans. Í sambandi við bókaskrif mín um sögu Harley-Davidson mótorhjóla á Íslandi setti ég mig í samband við núverandi eigendur og komst ég þá að því að eldra hjólið gæti verið til sölu. Góðir hlutir gerast hægt og eftir að hafa verið í sambandi við eigandann í næstum tvö ár var komið að því að kaupa gripinn.
Ákveðið var að drífa sig í Vík eftir hádegi á þriðjudegi þar sem að ég þurfti að fara erlendis morguninn eftir. Farið var á sendibílnum sem er sérútbúinn fyrir mótorhjólaflutninga og eftir á að hyggja var það góð ákvörðun. Mér hafi verið sagt að það væri dót sem fylgdi hjólinu á bretti og þegar til kom reyndist það rétt og gott betur. Hjólið lá uppvið vegg undir segli í gömlum olíuskúr sem var sem betur fer þurr og góður. Dótið sem fylgdi með var hins vegar á víð og dreif ofan í olíugryfju sem þarna var og því ekkert annað í stöðunni en að fara þangað niður, opna kassa og færa til bílvélar og varadekk til að komast að því hvað væri þarna. Ef þið hafið séð þátt af Pickers að þá vitið þið hvað ég er að tala um.
Þolinmæðin reyndist þess virði og það sem kom uppúr gryfjunni var merkilegt og sýndi hjólið í alveg nýju ljósi. Þarna var nánast heill mótor af D-módeli frá 1929. Auk þess var líka þarna auka gírkassi og kúpling ásamt fleiri hlutum. Það voru líka nýir stiplar ennþá í kassanum ásamt nýjum ventlum og flautu svo að greinilega hefur staðið til að gera upp hjólið í upprunalegt horf. Á einum vélarhlutanum var sem betur fer vélarnúmer svo að ég hugsaði að ég myndi fletta gripnum upp í skrám mínum um leið og ég kæmi heim. Þið getið ímyndað ykkur furðu mína þegar ég sá að upprunalega vélin tilheyrði hjólinu hans Lofts sem ég hafði heillast af 30 árum áður!
En víkjum aðeins að sögu hjólsins hans Lofts. Aage Lorange, Freyjugötu 10 kaupir hjólið nýtt 11. Febrúar 1930 og á það í tvö sumur. Emil Jónsson verslunarmaður, Baldursgötu 10 kaupir það 12. Október 1931 og er skráður fyrir því 1932 en 3. júní 1933 er það komið á nafn Lofts Helgasonar sem er skráður fyrir RE-519 frá 1933-1936. Eggert Jóhannesson, Hringbraut 132 er skráður fyrir hjólinu 2. Maí 1936 ásamt Eyjólfi K. Steinssyni, Frakkastíg 12. Árið 1939 fær það númerið R-519 og er þá enn í eigu Eggerts og Eyjólfs. Loftur Ámundason, Grettisgötu 73 kaupir það 26. Febrúar 1939 og þann 1. Júlí er það sett á númerið R-1130. Hjólið fær seinna númerið G-672 en 20. Október 1958 er það komið á númerið R-3918 og á nafn Preben Skovsted, Laufásvegi 41.
Þann 24. Nóvember 1958 er það skráð á Konráð Bergþórsson til heimilis að Nökkvavogi 1. Hann auglýsir það til sölu í Morgunblaðinu 29. Maí 1959 og er það selt ódýrt. Baldvin Einarsson, Hverfisgötu 90 er skráður fyrir því 12. Júní 1959 en hann auglýsir það til sölu í Vísi 11. Ágúst og svo aftur 19. Nóvember sama ár, sem ódýrt Harley-Davidson, 10 hestöfl og eru upplýsingar gefnar á Hverfisgötu 90. Þann 17. Febrúar 1967 er númerið sagt niðurlagt og ónýtt.
Í hjólinu frá Vík er í raun og veru um leyfar þriggja hjóla að ræða, því að grunnurinn eins og grind, gaffall, afturfelga og fleira er úr C-módeli frá því árið 1930, en það eina ár var grindin með ákveðnu formi á bita undir sæti sem ekki er á öðrum árgerðum. Ég á eftir að greina það betur hvaða hjól það var nákæmlega sem um ræðir þar, en við skráningar á árum áður var venjulega notast við vélarnúmer sem ekki er til í þessu tilfelli. Hugsanlega geta einstakir aukahlutir og fleira í þeim dúr svarað þeirri gátu en fjögur hjól koma til greina af þeirri árgerð. Allar líkur eru á því að hjólið í Vík verði þannig grunnur að uppgerð á þremur Harley-Davidson mótorhjólum þegar fram í sækir, og er ég þegar byrjaður að fá hluti fyrir elsta mótorinn, en sögu þess segjum við betur frá í næsta kafla um Harleyinn í Vík.