Categories
Uncategorized

Myndasería frá 1930

Á Snjáldru (facebook) birtist á dögunum myndasería frá Steindóri Val Reykdal sem sýnir þrjá menn á jafnmörgum bifhjólum. Myndirnar komu úr myndaalbúmi afa hans, Þórðar Aðalsteinssonar sem átti eitt hjólið. Þótt myndirnar væru litlar og óskýrar í fyrstu var strax hægt að sjá að hér var um merkilega heimild að ræða. Eftir að hafa skannað myndirnar inn í alvöru skanna komu gæði þeirra betur í ljós og því ekki annað hægt en að deila þessum myndum hér á fornhjol.is.

Tvær myndanna eru teknar á sama stað á vegslóða sem liggur í gegnum hraun. Greinilegt er að einhverjir hafa skipst á að taka myndirnar.

Tvær myndanna eru af hjólunum saman í hrauni einhversstaðar og dettur manni helst í hug að það sé annað hvort við Mývatn eða í Aðaldalshrauni þar sem öll hjólin eru með A-númerum. A-69 lengst til vinstri er Ariel hjól sem var í eigu Þórðar Þorbjarnarsonar, en A-71 og A-68 eru Triumph CN Model sem Kjartan Ólafsson og Þórður Aðalsteinsson áttu. Öll hjólin eru af 1929 árgerð. Mennirnir hafa stillt sér upp við hjólin og eru þeir klæddir við hæfi, í þykkum vaxjökkum og með flugmannsgleraugu. Hjólin virðast ný eða mjög nýleg á myndunum og þess vegna eru myndirnar líklega teknar árið 1930, en Þórður Aðalsteinsson átti sitt hjól frá 1929-1933. A-71 var hinsvegar selt suður í ágúst 1930, Gauta nokkrum Hannessyni, svo að myndirnar hafa verið teknar fyrir þann tíma.

Þessi mynd úr albúmi Þórðar Aðalsteinssonar er tekin á Akureyri og er það hann sjálfur sem situr hjólið.

A-68 er Triumph hjól með vélarnúmerið 701775. Árið 1929 er það skráð á Þórð Aðalsteinsson, alveg til 1933 þegar það er selt Tryggva Jónatanssyni. Það er síðan selt Einari Halldórssyni í mars 1934, og svo selt Aðalsteini Einarssyni 17. júlí sama ár. Það er selt Gunnari Sigþórssyni í apríl 1939 og þá veðsett fyrir 350 kr. Sama ár er það fært undir númerið A-235 og svo selt Þóri Sigþórssyni í janúar 1940. Um sumarið 1940 er það selt Eyvindi Jónssyni.

Í október 1928 kynnti Triumph til sögunnar C-módel sín sem voru CO með toppventlavél, CN eins og þetta með 500 rsm síðuventlavél og CSD með 550 rsm síðuventlavél sem hentaði vel til notkunar með hliðarvagni. Þessi hjól voru talsverð bylting á Triumph hjólunum enda fyrstu hjólin með körfugrind og olíuhringrásarkerfi. CN módelið var framleið 1929-1931 og voru þrjár gerðir þess, CN1 án ljósabúnaðar, CN2 með Acetylene gasljósi og svo CN3 með Lucas rafljósi. A-68 hefur því verið CN3 og A-71 CN1.

A-71 fær númerið RE-479 þegar það kemur suður og er það í eigu Benedikts Ingvarssonar, Grettisgötu 72 árið 1935. Árni Jóhannsson, Grundarstíg 19 eignast það 1936 og Jóhann Pétursson, Laugavegi 159a er eigandi þess ári síðar. Ingimundur Valtýr Nikulásson, Vesturgötu 48 eignast það 1938 og það fær númerið R-479 árið 1939. Ári síðar er það komið í eigu Jóns Ólafssonar á Álafossi. Þann 16. júlí 1940 er hjólið komið í eigu Sveins Ólafssonar með númerið R-1110 og það númer er einnig á Triumph hjólið árið 1945 á nafni Ragnars Benjamínnssonar.

Þarna er A-71 komið á númerið R-479 og er þetta því annað hvort Ingimundur Valtýr eða Jón Ólafsson á myndinni.

Um A-69 eru til heimildir allt til 1940 en það var fyrst í eigu Þórðar Þorbjarnarsonar með vélarnúmerið 10470. Það er selt Jónasi Kristjánssyni um mitt sumar 1930, og ekki selt Inga Hansen fyrr en 1. maí 1933. Í maí 1935 er það selt Þorsteini Davíðssyni, og svo selt Hafliða Guðmundssyni í júlí 1937. Þá er það fært undir A-222 og árið 1939 er það selt Andrési Vilhelm Kristjánssyni á Dagverðareyri og er það á skrá til 1940.

Þessi mynd er til af A-69 og tekin á Árbakka, Skagaströnd. Er það Erla Gunnarsdóttir sem situr aftan á hjólinu en ekki er vitað nákvæmlega hvenær myndin er tekin.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *