Categories
Uncategorized

Sunbeam hjólin á Íslandi

Sunbeam hjól voru ekki algeng hérlendis þótt þau hafi notið nokkurra vinsælda í Bretlandi sérstaklega. Að minnsta kosti fjögur slík voru þau hér samkvæmt mismunandi heimildum. Eitt þeirra var elst, líklega 1922-3 árgerð, eitt 1929 og það þriðja frá miðjum fjórða áratugnum. Það fyrsta sem við höfum um fyrsta Sunbeam hjólið er auglýsing sem birtist í Morgunblaðinu 11. Ágúst 1923. Þar segir að til sölu sé Sunbeam-mótorhjól næstum nýtt og upplýsingar hjá K. Stefánssyni, Vesturgötu 3. Einnig er auglýst í Vísi í júlí 1926 „The Sunbeam“ mótorhjól, ódýrt vegna burtferðar, til sýnis að Skólavörðustíg 15.

Auglýsingin sem birtist í Morgunblaðinu í ágúst 1923.

Í gömlum skráningarbókum má finna Sunbeam hjól sem að öllum líkindum er sama hjólið. Það bar númerið RE-265 og var skráð sem tveggja strokka, en aðeins ein gerð tveggja strokka Sunbeam mótorhjóla var til á þessum tíma. Það var 8 hestöfl og kom 1922 með JAP vél. Í sömu skráningarupplýsingum kemur fram að hjólið hafi verið í eigu Axel Lange, Stýrimannastíg 9. Þar kemur einnig fram að hjólið hafi verið flutt utan til Danmerkur með skipinu Botníu 4. ágúst 1926.

Hér má sjá tveggja strokka Sunbeam mótorhjólið með JAP vélinni en þau báru lág vélarnúmer. Þetta eintak sem selt var af Bonhams uppboðsfyrirtækinu árið 2010 fyrir 1,8 milljónir króna, bar vélarnúmerið 1714 og var árgerð 1924 en íslenska hjólið var með númerið 721 svo að ekki er ólíklegt að það hafi verið 1-2 árum eldra.

Næsta Sunbeam hjól var 1929 árgerð og þótt engin mynd sé til af því er því vel gert skil í skráningarupplýsingum. Það er á skrá frá 1939-43, fyrst á R-númerinu 1117 en Baldur Kristinsson þjónn, Skeggjagötu 9 átti það fyrst. Er það sagt innflutt notað frá Englandi en Baldur selur það Sveini Ásmundssyni, Ásvallagötu 49, sem selur aftur Stefáni Karlssyni, Mánagötu 3 í ágúst 1940. Haustið 1940 er það komið í eigu Einars Jónssonar, Laugavegi 13 en þann 1. Júlí 1941 er það komið í eigu Sigurbjörns Magnússonar í Hafnarfirði og fær þá númerið G-211. Kristinn Þorbergsson í Garði er svo skráður fyrir því árið 1942 og aftur ári seinna en ekkert er vitað um hjólið eftir það. Það bar vélarnúmerið 22435 svo líklega hefur það verið Model 7 og 350 rsm síðuventla, en einmitt sú gerð breyttist árið 1929 og fékk nýtt útlit. Fékk það nýja grind og skiptu þeir út flata bensíntankinum fyrir söðultank, og þar sem vélarnúmerið var í hærri kantinum er ekki ólíklegt að um þannig hjól hafi verið að ræða.

Þriðja Sunbeam mótorhjólið sem við höfum vitneskju um bar númerið R-1158 sem finnst ekki á skrá með því númeri, en til er góð mynd af þessu hjóli. Hjólið er mjög auðþekkjanlegt og sést vel að um Model 14 hjólið er að ræða. Það var framleitt frá 1933-38 en R-1158 er númer sem kemur ekki á mótorhjól fyrr en 1940 í fyrsta lagi svo ómögulegt er að geta sér til um árgerðina.

Sunbeam mótorhjólið ber númerið R-1158 sem bendir til þess að myndin sé tekin á fimmta áratugnum.
Model 14 hjólið var 250 rsm og búið fjögurra gíra Burmann gírkassa. Hjólinu var aðeins breytt árið 1935 með nýrri ventlum, lengri slaglengd og minna bori en sú breyting þótti ekki heppnast vel og kom hjólið aftur í fyrri gerð árið 1936.
Loks er svo 6 hestafla Sunbeam mótorhjól, vandað og nýlegt auglýst til sölu í Fálkanum sumarið 1945.
AMC keypti Sunbeam merkið árið 1937 og vegna stríðsins þurfti að hagræða innan samsteypunnar og áherslan var sett á Matchless G3 herhjólin. Þess vegna voru sí‘ustu fyrirstríðshjólin þessi B25 módel sem voru á sölulista Sunbeam alveg fram til 1940. Líklegt má teljast það hjólið sem auglýst var 1945 hafi einmitt verið svona hjól.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *