Categories
Uncategorized

Mótorhjólainnflutningur fyrir 1920

Þessi mynd mun vera tekin um 1920 við Geitháls og sýnir meðal annars eitt af þeim Indian mótorhjólum sem komu hingað 1918. Mannlausa mótorhjólið er af gerðinni Mead Flyer og er vitað um eitt slíkt sem kom 1919.

Finna má upplýsingar í verslunarskýrslum um mótorhjólainnflutning allt frá árinu 1917 á Íslandi. Samkvæmt þeim er ekki að sjá að mótorhjól hafi verið flutt til landsins árið 1917 en einhver munu hafa komið fyrir það. Vitað er að hingað kom Wanderer mótorhjól árið 1913 og líklega tvö fleiri um miðjan annan áratuginn. Einnig var hér til einhjólungur sem festur var við reiðhjól til að drífa það áfram, en það kallast Öwa og var selt í Svíþjóð undir því merki þótt það hafi upphaflega komið frá Austurríki. Sá gripur er enn til hér í einkaeigu. Auk þess var hér til Indian mótorhjól frá því um 1914 en það var skráð í Reykjavík haustið 1921. Við það má bæta að nokkur af elstu mótorhjólunum sem hér voru, komu hingað notuð. Gott dæmi er Bradbury mótorhjólið sem að var 1913 árgerð en kemur í apríl árið 1920. Sama má segja um Cleveland mótorhjólið sem kemur síðsumars 1921.

Fyrsta Henderson auglýsingin kom í Íslending í september árið 1919.

Það hefur verið um 1918 sem að flest mótorhjólin byrja að koma af alvöru til landsins. Í Morgunblaðinu 9. Ágúst 1918 birtist grein á forsíðu blaðsins með yfirskriftinni Bifhjólin. Greinin hefst með þessum orðum: „Þeim fjölgar óðum í bænum og guð má vita hversu mörg þau verða orðin að ári liðnu, ef innflutningur heldur áfram.“ Við vitum að í lok ársins 1919 eru 35 mótorhjól skráð í Reykjavík og auk þeirra munu nokkur hafa verið skráð í Hafnarfirði og fyrir austan fjall. Árið 1918 eru samkvæmt verslunarskýrslum 21 mótorhjól flutt til landsins, og komu 20 frá Bandaríkjunum en aðeins eitt frá Danmörku. Einnig kom hingað sending með Gullfossi af hliðarvögnum eins og lesa má um í Morgunblaðinu 10. Júlí 1918.

Eina myndin sem til er af elsta mótorhjóli landsins er þessi mynd sem tekin er af Vesturgötunni og sýnir Indian Powerplus 1918.

Til eru eitt mótorhjól sem kom hingað árið 1918, en það er Indian Powerplus sem er í eigu greinarhöfundar og er elsta íslenska mótorhjólið. Þótt fyrst hafi verið talið að Henderson mótorhjólið sé elsta mótorhjólið á landinu er það ekki rétt þar sem að það er að öllum líkindum 1919 árgerð, en það hefur verið sagt bæði 1918 og 1919 árgerð í blaðagreinum. Hið sanna er að það er með Z í vélarnúmeri sem þýðir að það er 1919 árgerð. Það má sjá í því hluti sem að koma seint á árinu 1918, eins og plötuna í hjólmiðju afturhjólsins, stærri stimplar í mótor og fleira. Auk þess er enga Henderson auglýsingu er að finna í blöðum eða tímaritum árið 1918 og er það ekki auglýst fyrr en 26. September árið 1919 sem að fyrsta auglýsingin um Henderson mótorhjól birtist frá Espholin Co, í 41. tbl Íslendings.

Afgerandi þáttur í aldursgreiningu á Henderson mótorhjólinu er Z-merkingin í vélarnúmerinu sem er fyrir 1919 árgerðir. Þó má taka fram að vélarblokkin hefur verið steypt vorið 1918 en þær voru oft steyptar saman margar í einu.

Árið 1919 eru 20 mótorhjól flutt til landsins en nú bregður svo við að 14 þeirra eru bresk og aðeins sex frá Bandaríkjunum. Þau sex sem komu frá Bandaríkjunum voru Thor mótorhjól í eigu Kristins Einarssonar, Grettisgötu 1, eitt Harley-Davidson mótorhjól í eigu Geirs H Zoega kaupmanns og fjögur Indian mótorhjól. Þau voru í eigu Carls Ólafssonar ljósmyndara, Halldórs Eiríkssonar kaupmanns, Gústafs Carlson, Grettisgötu 53 og Haralds Rasmussen, Laugavegi 38. Hjólin frá Bretlandi hafa eflaust langflest verið af BSA gerð en eitt þeirra var þó svokallað Mead Flyer sem skráð er hér sumarið 1919.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *