Categories
Uncategorized

Ásinn frá 1959

Elsta lögregluhjólið á Íslandi er þetta Harley-Davidson FL frá 1959.

Árið 1958 urðu þáttaskil hjá Harley-Davidson með tilkomu afturfjöðrunar í stóru hjólunum. Vökvafyllt framfjöðrun hafði komið á markað 1949 og fékk fljótlega nafnið Hydra-Glide og því lá beint við að nýju hjólin fengu nafnviðbótina Duo-Glide. Elsta íslenska lögregluhjólið er einmitt slíkt hjól af 1959 árgerðinni. Í hjólinu er 50 hestafla Panhead mótor sem tók við af Knucklehead mótornum árið 1948. Hjólið er með svokölluðu „kickstarti“ en rafstart kom ekki í Harley-Davidson hjólum fyrr en 1965 og fengu þau heitið Electra-Glide.

Frá heimsókn Ólafs Noregskonungs árið 1961 en þar stýrði Sigurður Emil Ágústsson viðhafnarkeyrslu.

Þetta eintak er geymt á mótorhjólasafninu á Akureyri og er upprunalegt með öllu sem er frekar fágætt. Það er meira að segja með upprunalega gráa litnum sem aðeins var notaður á lögregluhjól Harley-Davidson á þessum tíma. Hjólið er búið sírenu á frambrettinu, slökkvitæki undir sætinu ásamt upprunalegri talstöð og lögregluljósum. Það eina sem vantar á hjólið er startsveifin sem tekin var af þegar hjólið var sett í geymslu á lögreglustöðinni á Hverfisgötu. Áður hafði það verið í geymslu á Korpúlfsstöðum við slæman aðbúnað en nokkrir framsýnir lögreglumenn björguðu því þaðan ásamt öðrum gripum. Reyndar er einnig til leyfar af eldra lögregluhjóli frá 1955 sem er óuppgert og í kössum, en vonandi fáum við tækifæri til að fjalla um það síðar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *