Categories
Greinar

Cleveland mótorhjólið

Cleveland mótorhjól mun hafa verið til á Íslandi snemma á þriðja áratugnum en 18. ágúst 1921 var slíkt hjól skráð hér á númerið RE-23. Cleveland mótorhjólin þóttu nokkuð sérstök fyrir það að vera lítil og létt með tvígengisvél. Byggðu þau í raun og veru á frumgerð frá Triumph en vél Cleveland hjólanna var flóknari með snúðlaga tannhjóli sem snéri átaki vélarinnar um 90 gráður. Gírkassinn var tveggja gíra og búinn tannhjóli og keðju sem dirfbúnaði, en vélin dreif einnig stóra magnetukveikju sem komið var fyrir rétt fyrir framan afturhjólið. Fyrstu Cleveland hjólin voru með 221 rúmsentimetra vél og voru talsvert notuð í fyrri heimsstyrjöldinni sem sendlahjól.

Vélarnúmer Cleveland hjólsins var 17071 og hestaflatala skráð 1,9 hestöfl en í raun og veru þóttu þau nokkuð aflmikil miðað við stærð og náðu allt að 100 km hraða.

Einu upplýsingar um Cleveland umboð hérlendis eru þær að Espholin Co á Akureyri auglýstu mótorplóga frá Cleveland en Espholin flutti einnig inn fyrsta og eina Henderson mótorhjólið, svo vel má vera að Cleveland mótorhjól hafi fengið að fljóta með. Engar myndir voru til af Cleveland mótorhjólinu þar til fyrir nokkrum misserum að það birtist mynd af gömlu, óþekktu mótorhjóli á netinu. Þar sem hjólið var sérstakt í útliti var greinarhöfundi fljótt ljóst að um Cleveland mótorhjólið var að ræða. Umhverfið var auðþekkjanlegt en myndir er tekin á Þingvöllum með Almannagjá í baksýn.

Myndin af Cleveland hjólinu við Þingvöll er óskýr en samt fer ekki á milli mála að um Cleveland hjól sé að ræða.

Það næsta sem segir af Cleveland mótorhjólinu er að Hjálmar Árnason á Mýrargötu 1 hafi tilkynnt að hann hafi selt Kristjóni Jónssyni frá Frakkastíg 9 hjólið. Þann 5. Ágúst 1926 tilkynnir Sveinbjörn Sveinbjörnsson að hann hafi keypt hjólið og svo selt Sæmundi Þórðarsyni frá Hótel Íslandi það. Það síðasta sem segir af því er að bifhjólið finnst ekki við aðalskoðun bifreiða 1927, og er upplýst við lögtaksgjörð vegna bifreiðaskatts sama ár að bifhjól þetta sé algjörlega ónýtt.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *