Categories
Greinar

Mótorhjólamyndin í kýrauganu

Í grúski um gömul mótorhjól, kemur stundum eitthvað skemmtilegt upp úr dýpi liðinna daga. Ég hafði rekist á frásögn um Ossian Westlund og “tvíhjólabifreið” hans frá því um 1920 á yfirferð um netið og ákvað að setja mig í samband.


Ossian Westlund veifar kumpánlega til ljósmyndarans gegnum kýraugað.

Afabarn hans Súsanna Rós Westlund, varð fyrir svörum og fljótlega kom í ljós að mynd væri til af karlinum. “Sú mynd er í kýrauga úr messing, ótrúlega flott mynd” sagði hún. Fékk ég ljósmynd af myndinni senda og sá þá að um mjög gamalt hjól var að ræða. Hjólið á myndinni er Excelsior Model 7-C, skráð 8 hestöfl eins og slegið var upp í auglýsingum um hjólið. Í gömlum skráningarpappírum frá 1922 kemur fram að til hafi verið átta hestfla Excelsior hjól fram til ársins 1921, með grindarnúmerið 96061. Það þýðir að það var framleitt 1914-15 sem passar við hjólið á myndinni og er því um elsta mótorhjól sem til er á mynd hérlendis að ræða.

Bestu mótorhjól síns tíma

Excelsior mótorhjólin voru hraðskreiðustu og áreiðanlegustu hjólin í Bandaríkjunum á sínum tíma og unnu meðal annars tvær fyrstu Cannonball þolaksturkeppnirnar. Excelsior V2 með 61 kúbiktommu vél eins og þetta var fyrsta framleiðslumótorhjólið til að ná 100 mílna hraða árið 1912. Árið 1914 var hjólið komið með tveggja gíra kassa og blaðfjöðrun að framan eins og sést á þessu hjóli. Þriggja gíra kassi kom árið 1915 en því miður sjáum við ekki á myndinni hvort hann sé í hjólinu eða ekki. Árið 1921 keypti Excelsior Henderson merkið og þar með voru dagar þessa V2 mótors taldir.

Seldi hjólið til Svíþjóðar

Súsanna sagði einnig að til væri gömul grein um afa henna rog mótorhjólið. Í Morgunblaðinu þann 13. mars 1931 er fjallað um Westlund. Þar er meðal annars minnst á bifhjólið og sögu því tengdu. Við grípum niður í frásögn Morgunblaðsins um mótorhjólið. “Svo var það einn góðan veðurdag, að maður var á bifhjóli inn við Elliðaár. Hjólið datt í árnar. Það skemdist. Eigandinn fjekk ekki gert við það og seldi það fyrir hálfvirði en Westlund keypti. Bifhjól eru merkilegir gripir. Það fanst Westlund. Hann plokkaði hjólið alt í sundur ögn fyrir ögn, og einkum þó hreyfilinn. Af því lærði hann margt. Margar tilraunir gerði hann. En að því kom að bifhjólið var sem nýtt og Westlund settist á bak, margfróðari um hreyfla og hjól, en er hann byrjaði. Ári seinna fór hann í skemmtiferð um Noreg og Svíþjóð á hjólinu. Hann seldi það í Málmey nokkur hundruð krónum dýrara en hann hafði keypt það.”


Samskonar Excelsior mótorhjól sem selt var á uppboði nýlega, með annars konar gasljóskeri en hjól Ossian.

Í einkasafni í Helsingborg í Svíþjóð má meðal annars finna safn mótorhjóla sem nú er reyndar lokað þar sem erfingjar eru að selja safnið. Meðal gripa þar er Excelsior mótorhjól af sömu árgerð, einnig með hliðarvagni og samskonar ljóskeri. Leiða má líkum að um sama hjól sé að ræða en framtíðin mun vonandi leiða það í ljós.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *