Það er ekki einfalt mál að finna út úr eigendasögu gamalla mótorhjóla á Íslandi og skráningarupplýsingum þeirra. Fyrir það fyrsta eru þær skráningarupplýsingar sem eru til frekar gloppóttar og oft þarf að reiða sig á aðrar upplýsingar eins og ljósmyndir eða munnlegar heimildir. Við getum tekið tvö dæmi en það voru skráningarnar R-1129 og R1164. Á forsíðumyndinni með þessari grein má sjá R-1129 að leik í snjónum við Stærribæ í Grímsnesi en þar bjó Hafliði Grímsson sem átti X-171, en þá átti Ólafur Sigurðsson nágranni hans R-1129.
Svo við byrjum á R-1129 var það fyrst á Harley-Davidson mótorhjóli þegar það kom á númer og þá í eigu Eyjólfs Steinssonar. Það hjól hafði áður borið númerið R-23 en með breytingu á númeraskrá kringum 1940 voru bifhjól flutt á númerin R-1100-1199 í Reykjavík. Það dugði þó ekki lengi en þar sem mikið kom af hjólum til landsins á stríðsárunum þurfti að bæta við á nokkrum árum R-2800, R-3500 og R-3900. R-1129 sem Harley fer svo á nafn Guðna Guðbjartssonar, Seljavegi 39 1941-42. En svo við víkjum aftur að R-1129 til ársins 1945 er númerið komið á Triumph hjól af 1927 árgerð en þá átti Skarphéðinn Frímannsson það. Uppúr seinna stríði er númerið komið á Royal Enfield mótorhjól sem var fyrst í eigu Ólafs Sigurðssonar.
Á árunum eftir stríð bjó hinn danski Hans Peter Christensen hér um nokkurra ára skeið. Númerið R-1129 er þó hvergi skráð á hann í skráningarupplýsingum og er aðeins sjáanlegt á nokkrum ljósmyndum. Svo merkilega vildi til að sonur hans heimsótti Mótorhjólasafn Íslands fyrir skömmu og rakst þá á mynd af föður sínum úr myndasafni undirritaðs. Í Bílabókinni frá 1956 var svo númerið skráð á BSA 1947 árgerð í eigu Inga R. B. Björnssonar.
R-1164 var fyrst á gömlu Monark 1928 mótorhjóli frá Svíþjóð, en það var skráð á Ásgeir Vigfússon til heimilis að Hraunborg við Engjaveg. Það er selt á Þistilfjörð árið 1943 og fer þá númerið á Norton herhjól frá 1940.
Það er fyrst í eigu Arnórs Hjálmarssonar frá Steinhólum við Kleppsveg 1943, en 1944 í eigu Jóhanns Einarssonar, Miklubraut 28. Gísli Sigurðsson frá Hrauni eignast það 1945 en sama ár fer R-1164 á nýttinnflutt AJS mótorhjól frá Englandi. Fyrst er það í eigu Jóns Ingvarssonar, Framnesvegi 18 og 1946 er það komið undir Bjarna Steingrímsson, Reykhólum. Árni Sigurðsson, Grettisgötu 47 eignast það sama ár en 1947 er það komið í eigu Björns Kristjánssonar frá Skagaströnd en þá fer það á númerið H-191.
Árið 1949-50 er það komið á BSA hjól í eigu Tove Olsen frá Grenimel 38 en það hjól er svo flutt til Danmerkur. Næst sjáum við númerið á Rex skellinöðru frá 1954 en það var í eigu Hafsteins Daníelssonar, Sörlaskjóli 16 árið 1956. Árið 1957 er númerið komið á Vespa mótorhjól sem líklega var fyrsta eintakið hérlendis en það hjól má sjá á nokkum myndum með það númer. Loks er númerið aftur komið á BSA hjól 1959 og var þá í eigu Valdimars Samúelssonar.