Categories
Uncategorized

Fyrstu Indian mótorhjólin

Erfitt er að segja með nákvæmni hvenær fyrsta Indian mótorhjólið kom til Íslands. Fyrsta heimild um slíkt hjól er þegar auglýstur er mótorhjólhestur „Indian“ nærri nýr í Vísi þann 4.-5. september 1917. Þar er talað um að hjólið sé 7,5 hestöfl og sé til sýnis í kjötbúð Milners. Líkast til er hér um að ræða RE-41 sem er rakið hér fyrir neðan. Indian hjólin virðast hafa komið snemma og enst þokkalega vel, en 3 slík eru enn skráð árið 1930. Við höfum áður fjallað um RE-233 svo við sleppum því í þessari upptalningu.

Þessi litaða mynd sýnir RE-41 hjólið í auglýsingu frá Ísaga gasfyrirtækinu. Ísaga er stofnað 1918 svo myndin er tekin eftir það, líklega kringum 1920 og á líklega að sýna gaslugt og gastank sem er á mótorhjólinu. Myndin er tekin við Tjarnargötuna og er upprunalega svarthvíta myndin í geymslu Þjóðminjasafns Íslands. Um er að ræða Indian Hedstrom Model F 1914, 7,9 hestöfl með lykkjugrind. Þau komu á þessu ári með Hedstrom blöndungi, tankinn á milli grindarbita og þetta var fyrsta árið af síðuventla F-head hjólunum. Á hjólinu eru aukahlutir eins og Acetylen ljós með tanki á framgaffli, Klaxon flauta, verkfærakassi á tanki og farangursgrind.

RE-41
Indian mótorhjól með vélarnúmerið 84F148 og er það skráð 0,45 metrar á breidd svo það hefur ekki verið með hliðarvagni. Vélarnúmer bendir til þess að um 1914 módel af Model F hjóli sé að ræða, en það var 7 hestöfl og fyrsta Indian hjólið með rafstarti. RE-41 er fyrst skráð á A. Grímsson og svo selt Kristjáni Gíslasyni, Vesturgötu 57. Það er skráð 4. Október 1921 á Karl Oskar Hedlund á Norðurstíg 7. Það er selt Bjarna Þorsteinssyni 15. Febrúar 1923 og 18. júlí 1925 er það selt Jóni Sveinbjörnssyni Hverfisgötu 90. Mánuði síðar er það tilkynnt að hjólið sé brotið og ónothæft.

RE-44

Þetta númer var skráð á mótorhjól í eigu Rosenkilde á Vesturgötu árið 1918. Í Morgunblaðinu þann 10. júní 1919 er mótorhjól auglýst til sölu og kemur fram að um Indian hjól sé að ræða, sem var eign Rosenkilde sem andaðist um veturinn. Það er auglýst selt með 5 kössum af bensíni og smurningsolíu, varadedkkjum og slöngum. Er þeim sem áhuga hafa bent á að tala við pakkhúsmann Nathans & Olsen.

Hvort hér sé um hjól Rosenkilde að ræða er erfitt að segja en þetta hjól ber númerið HF-51 og er eina hjólið þar sem ekki er hægt að rekja sögu þess, ásamt RE-44.

RE-47
Skráð Indian mótorhjól en ekki með vélarnúmeri. Það er sagt 3,2 hestöfl og 0,8 metrar á breidd og aðeins 75 kíló og aðeins fyrir ökumann. Því er líkast til um Light Twin hjólið frá Indian að ræða. Þann 7. Júní 1929 er það skráð á Theódór Þorláksson, Vesturgötu 42. Það er selt haustið 1929 til Engelhart Svendsen á Norðfirði og fer á númerið NK-3.

RE-117
Það er skráð 22. Maí 1919 sem Indian mótorhjól. Það er á nafni Carl Ólafssonar ljósmyndara, Laugavegi 24. Hestaflatalan er 3,2 hestöfl og 75 kíló svo aftur er um Light Twin að ræða. Það er skráð með vélarnúmerið 31K948 svo um 1918 árgerð er að ræða. Jóhann Þorláksson, Nýlendugötu 19 á svo hjólið og hann selur hjólið Óskari Árnasyni, Nýlendugötu 21 í desember 1922. Tilkynnt 21. Júlí 1925 að hjólið sé eign Jóns Alexandersonar hjá Rafveitunni. Upplýst við aðalskoðun bifreiða 1927 að bifhjól þetta liggi í pörtum í Rafstöðinni við Elliðaár, eigandi þá erlendis. Komið á nafn Gísla Guðlaugssonar vélstjóra, Hverfisgötu 106 þann 28. Júní 1933.

Hér er eitt af Light Twin hjólunum fyrir utan Geitháls, en myndin er líklega tekin í kringum 1920.

RE-128

Hjólið er skráð 4. júní 1919 sem Indian mótorhjól. Það er á nafni Halldórs Eiríkssonar kaupmanns, en hann mun hafa endursent það strax til Danmerkur.

RE-132

Hér ber skráningarupplýsingum ekki saman en í skráningum árið 1922 er hjólið sagt 7,9 hestöfl. Í skráningarhefði er það hins vegar 3,2 hestafla Indian hjól af sömu stærð og önnur Light Twin hjól. Það virðist fyrst vera skráð 30. Júní 1919 en þá fær Gustav Carlson, Grettisgötu 53 þetta númer á mótorhjól. Þann 15. September 1922 er tilkynnt að Sigurður Jóhannsson, Grettisgötu 46 hafi keypt hjólið um sumarið. Þann 18. Júní 1923 er hjólið skráð á Guðfinn Þorbjörnsson, Kolasundi 1 og 21. September sama ár er það tilkynnt eign Ólafs Hannessonar, Garðastræti 1. Árið 1926 er það sagt ónothæft en samt er það skráð 1928 svo að hann hefur líklega sameinað það við RE-47 áður en hann selur það til Norðfjarðar. Þar mun það hafa verið í eigu Engelhart Svendsen og er sagt frá því að hann hafi ekið því með skellum svo tekið var eftir um bæinn.

RE-159

Þetta er Indian mótorhjól, skráð á Harald Rasmusen, Laugavegi 38 þann 18. Ágúst 1919. Hjólið virðist vera flutt með MS Íslandi til Danmerkur 30. September sama ár.

RE-189

Enn eitt Light Twin Indian mótorhjól sem er skráð á þá Konráð og Kristinn Guðjónssyni þann 24. Júlí 1925. Tilkynnt með bréfi 15. Maí 1927 að bifhjólið er selt Valdimari Bjarnasyni, Bergstaðarstræti 9. Tilkynnt 11. Ágúst 1928 að bifhjól þetta sé selt Guðna Sigurbjarnasyni járnsmið, Öldugötu 8. Komið á nafn Eggert Ólafssonar vélstjóra, Vesturgötu 23 þann 25. Júlí 1929. Þann 25. September 1931 fer það á Jóhann Björnsson, Framnesvegi 6b.

R-682

Þetta er Indian hjól með vélarnúmerið EG1304 sem þýðiur að um 1930 módel af Scout 750 var að ræða. Hjólið er skráð 1,5 metrar á breidd svo það hefur verið með hliðarvagni. Það er skráð á Valdemar Kristjánsson, Öldugötu 45 þann 14. Ágúst 1942 en mánuði síðar er það komið á nafn Guðbjörns Jónssonar, frá Úlfsá á Ísafirði. Seinna fer það á nafn Stefáns Jónssonar frá Flateyri með númerið Í-56.

Indian Scout frá því í kringum 1930 voru dugmikil hjól og mörg eru til enn þann dag í dag í fullri notkun.

R-1140

Indian sem upphaflega er skráður á Smörlíkisgerðina Smára í maí 1942. Hjólið er með vélarnúmerið CDO3349 sem þýðir að um hið veglega Chief er að ræða, hugsanlega herútgáfu frá Kanada 1940 módel. Gunnar Guðjónsson, Sogamýrarbletti 36 er skráður fyrir því 6. Mars 1943 og 14. Júlí 1944 er það sett á nafn Erlends Þórðarsonar hjá Mjólkurbúi Flóamanna og fær númerið X-96.

Ekki er ólíklegt að hjólið hafi litið svona út þegar það kom hingað 1942.

R-1153

Hjólið er fyrst skráð 11. Júní 1942 á Jón Benjamínsson, Víðimel 44. Hjólið er með vélarnúmerið CCF1466 sem þýðir að um 1200 rsm Chief 1936 er að ræða enda hjólið skráð 12 hestöfl. Sigurður Benjamínsson, Hverfisgötu 73 er skráður fyrir því 14. September 1944 og Friðþjófur Óskarsson, Framnesvegi 46 er kominn með það á sitt nafn 29. Maí 1945. Hjólið er auglýst í Morgunblaðinu 19. Júní 1945 og daginn eftir er Karl Jónsson, Höfðatúni 5 e skráður fyrir því. Magnús Þórðarson, Hlíðardal Kringlum er skráður fyrir hjólinu 2. Ágúst sama ár. Harald Friðriksen, Reykjum í Mosfellssveit fær það svo 3. Mars 1946 og það er enn á skrá ári seinna og er þá komið með númerið G-669.

Halldór Gunnarsson, sýnir listir sínar á Indian mótorhjóli innan í tunnu. Sýningin var á vegum KR og fór fram á Kalkofnsvegi við Arnarhól. Mynd © Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *