Categories
Uncategorized

Á mótorhjóli á Skjaldbreið

Pétur Símonarson frá Vatnskoti í Þingvallasveit var þekktur fyrir marga vélarsmíðina og smíðaði meðal annars tvo vélsleða sitt hvoru megin við seinni heimsstyrjöldina með mótorum úr flugvélum. Hann notaði einnig mótorhjól við smíði sumra tæka eins og Vatnadrekans sem var með motor úr gömlu mótorhjóli. Einnig breytti hann gömlu Ariel mótorhjóli fyrir vetrarakstur og fór á því víða og fjöllum við aðeins um það hér.

Pétur átti Ariel hjólið 1936-38 en áður hafði hann átt gamalt Radco mótorhjól frá því kringum 1920. Ariel hjól Péturs var með númerið RE-429 og var með vélarnúmerið L.3980. Fyrsti eigandi var Konráð Guðmundsson, Fjölnisvegi 12 en hann skráði það 15. maí 1933. Hann kaupir það 10. Júlí 1936 af Pétri Maack, Bragagötu 22. Það er svo afskráð með vottorði 27. Júlí 1938. Það er bróðir Péturs, Aðalsteinn sem situr hjólið.

Fyrst er minnst á Ariel mótorhjólið í Nýja Dagblaðinu þann 18. Apríl árið 1937 í grein um það þegar Pétur fór á Skjaldbreið á hjólinu. “Um páskaleysið í vetur tók Pétur Símonarson í Vatnskoti við Þingvallavatn að vinna að útbúnaði, sem hann kom fyrir á mótorhjóli, er hann átti, og sem hann ætlaðist til að gerði kleift að fara á því yfir tiltölulega lausan snjó. Festi hann málmskíði meðfram framhjólinu og undir vélarkassann og setti á það gilda bílakeðju.

Nærmynd af Ariel hjóli Péturs fyrir breytingar en á hjólinu situr Ída, öðru nafni Ingibjörg Tómasdóttir.

Á sunnudaginn var steig Pétur svo á hjól sitt og stefndi Kaldadalsveginn til fjalla. Var þá auð jörð hið neðra, en óslitin snjóbreiða úr því kom innfyrir Hofmannaflöt. Fór hann eftir íshrönn meðfram Sandvatni og síðan beint af augum upp Skjaldbreið. En þegar ofarlega kom í fjallið varð hann að halda skáhallt upp hlíðarnar vegan hallans og komst hann þannig alla leið uppá fjallið, þar til hann átti aðeins ófarna 200 metra að gígnum. Þar uppi hafði snjórinn bersýnilega aldrei hlánað neitt í vor. Veður var bjart og fagurt þennan dag og logn á öræfum. Drifhvítur snær svo langt sem augað eygði, en blánaði fyrir brúnum Hlöðufells og Skriðu. Niðri í hlíðunum var mikil sólbráð og þegar Pétur fór til baka, hafði fönnin hjaðnað svo mikið, að snjórinn, sem hjólin höfðu bælt undir sig, er hann fór upp, stóð nú eins og lág brún upp úr hjarnbreiðunni. Við Sandvatn var færðin orðin mjög slæm, en þó gekk allvel og alls var Pétur 8 klukkustundir í ferðinni. Pétur segir, að gott sé að ferðast á hjólinu, með þessum útbúnaði, sé snjórinn það samanbarinn, að hann haldi gangandi manni, en tafsamt sé hann lausari.”

Ariel hjól Pétur á bungu Skjaldbreið.

Í viðtali við Tímann 5. Maí 1963 segir Pétur aðeins ffrá hjólinu þegar hann er spurður hvort að hann hafi farið á slíku tæki uppá Skjaldbreið. “Já, og um hávetur” svarar Pétur. “En þetta var ekkert venjulegt mótorhjól. Ég var búinn að umbreyta því. Ég smíðaði tannhjól í það og gíraði niður, svo það yrði kraftmeira. Svo setti ég aluminiumskíði sitt hvoru megin við framhjólið, stálskíði undir mótorinn og gírkassann. Ég smíðaði nýjan gaffal á það að aftan og setti sverari hjólbarða undir það og hafði á því keðjur. Svo brunaði ég á því út um allar trissur, fór oft yfir heiðina til Reykjavíkur, þótt allt væri ófært. Það var svo kraftmikið, að snjórinn stóð í strók á eftir mér.”
Gekk ekki erfiðlega upp á Skjaldbreið?
“Nei, Nei, en ég varð að skáskera brekkurnar upp og velja leið; þar sem snjórinn var fastastur. Ég var aftur á móti ekki lengi á leiðinni niður, brunaði. bara beint af augum. Þag kom náttúrlega stundum fyrir, að ég missti það niður í krapafláka, en smávegis erfiðleikar höfðu ekki mikil áhrif á mann. Maður var alltaf að skrattast á þessum mótorhjólum. Þegar ís var á Þingvallavatni, djöfluðumst við nokkrir strákar á mótorhjólum fram og aftur á glerhálu svellinu, þetta var okkar líf og yndi.

Pétur á hjólinu óbreyttu á ísilögðu Þingvallavatni við Sandey.

Pétur lenti í slysi á hjólinu á veginum milli Þingvalla og Vatnskots eitt sinn. Þá mætti hann bíl svo að hann leti útan vegar og á gjárvegg þar sem hjólið stoppaði en hann flaug sjálfur yfir.

Areil hjól Péturs var svokallað LB model sem kom fyrst á markað árið 1929 og hjólið hans Péturs hefur að öllum líkindum verið af þeirri árgerð. Það var 250 rsm og hjól með þessa kúbikatölu voru kölluð Colt í daglegu tali. Ariel valdi nefnilega að koma með minni fjórgengishjól í stað þess að koma með ódýrari tvígengishjól handa þeim sem vildu ódýrari hjól. Hjólið var rétt undir 200 punda skattaþröskuldinum og 1929 árgerðin var eina árgerðin sem kom með miðjustandara undir hjólinu. Þótti hann vera of veikur og auk þess mjög erfiður í notkun og kom hann því ekki á 1930 árgerðunum. Hjólið hans Péturs hefur verið með Lucas SS49 aðalljósi og eru 250 hjólin mjög sjaldgæf í dag þar sem að það voru frekar stærri hjólin sem lifðu lengur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *