Categories
Uncategorized

Af hverju varð Harley-Davidson ofan á eftir fyrri heimstyrjöldina?

Það er staðreynd að þrátt fyrir ömurleika styrjalda hafa stórátök alltaf haft áhrif á tækniframfarir og á það líka við um mótorhjólin. Fyrri heimsstyrjöldin varð til þess að mótorhjólið tók stórt stökk fram á við, frá því að vera minni gerðir mótorhjóla með einföldum gírkössum og leðurreimadrifi, yfir í stærri gerðir mótorhjóla sem líkjast meira því sem við sjáum enn þann dag í dag. Gott dæmi um slíkt eru mótorhjólin sem komu frá Ameríku í sinni hluta fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Triumph Model H voru algeng hjá breska hernum ásamt Douglas mótorhjólunum og auglýsti inflytjandinn á Íslandi það að þau “hefðu reynst bezt í stríðinu.”

Ameríski markaðurinn var í blóma á fyrri hluta annars áratugar tuttugustu aldarinnar. Þótt að merki eins og Indian, Harley-Davidson og Excelsior væru stærst voru mörg flott merki einnig að berjast um hituna og má þar til dæmis nefna Henderson, Yale, Pope, Merkel, Sears, Dayton, Thor, Cleveland og Cyclone svo eitthvað sé nefnt. Það voru hins vegar stóru merkin þrjú sem hlutu náð fyrir augum stjórnvalda þegar kom að því að framleiða fyrir ameríska herinn. Voru það allt saman hjól af sömu stærð sem framleidd voru til hergagnanota, en það voru 61 kúbiktommu V2 hjól eða 1.000 rúmsentimetrar. Minnsti samningurinn féll Excelsior í skaut en 3.500 slík voru framleidd fyrir herinn, en einnig framleiddi Excelsior mótora fyrir flugvélar í stríðinu.

Indian Powerplus mótorhjólið þótti afar fullkomið og varð þess vegna vinsælt hjá þeim sem sömdu við framleiðendur um hergögn, en það reyndist hins vegar eitruð pilla fyrir Indian merkið.

Stærsta samninginn hlaut hins vegar Indian enda var merkið stærsti framleiðandinn í þessari heimsálfu um miðjan áratuginn. Nýjasta afurð þeirra var hið öfluga Powerplus mótorhjól sem þótti í senn öflugt og áreiðanlegt, kostir sem að herinn lét ekki fara fram hjá sér. Fyrsti samningurinn við ameríska herinn hljóðaði uppá 20.000 eintök, og kostaði hvert mótorhjól 187,50 dollara og ef bætt var við hliðarvagni var upphæðin 234,50 dollarar. Þótt að stór samningur þýddi að hægt var að einfalda framleiðsluna var snemma ljóst að það gat reynst erfitt að standa við samning af þessari stærðargráðu. Það var líka ljóst þegar hráefnaskortur fór að setja mark sitt á stríðið á seinni hluta ársins 1917 að aðföng urðu dýrari. Í raun varð tap á þessum 20.000 eintökum og þótt að Indian hafi fengið að endursemja þegar pöntuð voru 25.000 eintök í viðbót þýddi samningurinn einnig að einstaklingar gátu ekki með nokkru móti fengið Powerplus mótorhjólin á seinni hluta annars áratugarins, þótt þeir fegnir vildu.

Tvö af fyrstu Harley-Davidson mótorhjólum á Íslandi. Annað þeirra situr Kristján Gíslason ásamt Ingibjörgu Árnadóttir konu sinni, en þau voru afi og amma Kristjáns Hringfara, en á hinu situr Filippus Ámundason.

Á Íslandi sást þetta í þeirri staðreynd að aðeins eitt Powerplus mótorhjól var flutt til landsins og kom það með hliðarvagni. Að vísu komu nokkur Light Twin sem seldust illa í Ameríku en voru vinsæl í Evrópu. Harley-Davidson aftur á móti þurftu ekki að standa við eins stóran samninga og fyrsti samningur þeirra hljóðaði uppá 7.500 eintök. Þótt að Harley-Davidson hafi framleitt tæplega 18.000 eintök af hinu vinsæla T-módeli fyrir stríðið var það aðeins 35% af framleiðslu þeirra 1917-18. Það þýddi að merkið gat ekki einungis séð heimamarkaði fyrir mótorhjólum, heldur einnig flutt talsvert á erlenda markaði eins og í Evrópu og Ástralíu. Til Íslands kom um tugur slíkra hjóla undir lok áratugarins, flest af sömu gerð og notuð voru í stríðinu.

Harley-Davidson Model T var byggt á hinu þaulreynda F-módeli og kom í ýmsum útgáfum eins og hér sést.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *