Categories
Uncategorized

“Breskt er best!”

Þegar kom að vali á mótorhjólum hjá Hilmari Lútherssyni var þetta oft viðurkvæðið, breskt er best! Hilmar lést í síðastliðinni viku og vegna áhuga afastelpu hans sem langar að sjá hjólin hans afa gegnum tíðina, ákvað ég að skrifa grein um þau helstu. Auðvitað verður sú grein aldrei tæmandi því mótorhjólin sem hann átti gegnum ævina voru yfir 100 talsins og mörg þeirra keypti hann ný, sérstaklega á árunum fyrir aldamót.

Hér er Hilmar með New Hudson skellinöðru sem hann flutti inn og var eins og hann átti.

Fyrstu skellinöðruna sína keypti hann aðeins tólf ára gamall árið 1950 og fyrsta stóra mótorhjólið eignaðist hann vorið 1956 en það var Ariel 500. Hilmar var eins og alþjóð veit mikill áhugamaður um gömul mótorhjól og gerði þau upp í tugatali frá grunni.

Matchless G8L sem Birgir Guðnason fékk í Siglunesi fyrir norðan og afhenti Tæmernum.
Sama Matchless hjól ári síðar eftir að það var búið að fara í gegnum uppgerð hjá Hilmari.

Eins og áður sagði áttu bresku mótorhjólin hug hans Hilmars. Af einhverri einstakri gerð má segja að Hilmar hafi haft mest dálæti á Matchless G8L 1947 en hann gerði sex slík upp á ferlinum, það síðasta átti hann ennþá þegar hann lést.

Svona leit hlaðið út hjá Hilmari þegar hann bjó í Kópavogi fyrir aldamót. Þarna má sjá frá vinstri BSA Lightning 1971, BSA Lightning 1968, Triumph Tiger 1972 og Norton Commando 850 1974.

Af BSA hjólum má nefna helst BSA Spitfire 1968 sem hann gerði upp og er nú í eigu Hjartar Jónassonar á Selfossi. Einnig gerði hann upp tvö BSA Thunderbolt og eitt BSA Lightning 1971 sem nú er í safni Höskuldar Kjartanssonar.

Triumph Trophy 650 1968 sem Hilmar gerði upp fyrir 35 árum síðan en nú hefur farið í gengum aðra uppgerð hjá núverandi eiganda.

Triumph hjólin voru allnokkur, til dæmis tvö Bonneville frá 1972. Einnig gerði hann upp Trident frá 1972 sem endaði í Danmörku en líka Tiger 1972 sem að er í eigu vinar hans Halldórs Sigtryggssonar. Loks á Hjörtur Jónasson annað hjól sem Hilmar gerði upp en það er Triumph Trophy frá 1968.

Glæsilegt Ariel NH350 1946 og fyrir aftan glittir í Harley-Davidson 1931 sem Hilmar fann fyrir vestan og kom á lappirnar áður en hann seldi það hálfklárað.

Þau voru líka nokkur Ariel sem fóru í gegnum hendur Hilmars. Eitt það glæsilegasta er Ariel NH350 frá 1938 sem er nú í eigu Mótorhjólasafns Íslands. Safn Hermanns Ólafssonar í Stakkavík á glæsilegt Ariel 500 1945 eftir Hilmar og einnig gerði Hilmar upp Ariel 350 1939 sem hann seldi fyrir nokkrum árum til að fjármagna næstu uppgerð.

Hilmari þótti þetta Royal Enfiled frá 1962 skemmtilegt aksturshjól en hann er nú í eigu vinar hans Birgis Guðnasonar.
Royal Enfield WD/CO 1944 sem er í grunninn herhjól en Hilmar gerði upp í borgaralega útgáfu fyrir rúmum áratug.

Af öðrum breskum tegundum sem hann gerði upp var Royal Enfield og er það hjól í Stakkavíkursafninu. Einnig gerði hann upp forláta Velocette MAC350 1936 sem nú er í eigu Njáls Gunnlaugssonar og AJS hjól frá 1945. Loks gerði hann upp forláta Norton Commando 850 sem Ingimundur Axelsson á í dag.

Eitt af þeim hjólum sem Hilmar var mjög stoltur af var þetta AJS frá 1945.
Greinarhöfundur á fjögur mótorhjól sem Hilmar hefur gert upp og eitt þeirra er þetta Velocette MAC 350 frá 1936.

Af öðrum tegundum en breskum getum við líka tengt við Hilmar Lúthersson. Hann fann leyfar af gömlu Harley-Davidson 1931 og gerði upp að hálfu leyti áður en að hann seldi það. Einnig átti hann Harley-Davidson lögregluhjól frá 1972. Hann átti líka Moto Guzzi lögregluhjól frá 1971 og nokkrar gamlar Piaggio vespur. Loks átti hann og gerði upp nokkur japönsk hjól, eins og Kawasaki GPz900 1986 og Honda CD175 1975, nú í eigu frænda hans, Gunnlaugs Harðarsonar, Gaflara.

Á þessu Yamaha FJ 1100 var hann Íslandsmeistari í kvartmílu tvö ár í röð. Þetta hjól er nú í eigu vinar hans Guðna Þór Þorvaldssonar sem er að ljúka uppgerð á því.
Hilmar átti þennan Harley-Davidson 1972 sem var áður í eigu lögreglunnar, en myndin er tekin á mótorhjólamílu Snigla árið 1989.

Síðast en ekki síst fóru margar skellinöðrur í endurnýjun lífdaga hjá Hilmari. Má þar nefna allavega tvö NSU Quickly frá sjötta áratugnum, Simson 1963 sem er stofustáss hjá undirrituðum, Tempo 1978, Puch 1963, Victoria 1960 og Kreidler 1954. Þegar Hilmar féll frá var hann að vinna í nokkrum eins og David 1956 og Monark 1963 sem undirritaður gaukaði að honum þegar Hilmar varð verkefnalaus í nokkra mánuði fyrir nokkru.

Hilmar stillir sér upp við Honda CD175 frá 1975 sem hann kláraði í fyrra.
Tvær af þeim skellinöðrum sem Hilmar gerði upp samhliða en það eru Kreidler 1954 sm er nær en fyrir aftan er Simson 1963.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *