
Það er útbreiddur misskilningur að Honda merkið hafi verið fyrst af þeim sem komu frá Japan hér til lands. Hið rétta er að Rolf Johansen & Co. flutti inn Bridgestone skellinöðrur ári fyrr en Honda kom á markað. Bridgestone merkið var undirdeild hjólbarðafyrirtækisins og framleiddi mótorhjól frá 1952-1970. Hjólin þeirra þóttu fullkomin að gerð og voru þar af leiðandi í dýrari kantinun. Gerðin sem var seld hér kallaðist Super 7 og var fyrir ameríkumarkað og var meira að segja fáanleg með rafstarti.

Fyrsta auglýsingin fyrir Bridgestone hjólin birtist í Þjóðviljanum þann 31. Október 1961 og vikurnar á eftir komu margar auglýsingar í viðbót þar sem strákar eru hvattir til að kaupa sér „besta bifhjólið.“ Í grein í Vísi þann 23. Mars 1962 er sagt frá Bridgestone 7 sem þá er komin til landsins.

Þar er haft eftir Friðriki Theódórssyni hjá Rolf Johansen að hún sé fyrsta japanska skellinaðran sem er flutt til landsins. „Þú bara svissar á eins og í bíl og þrýstir á hnapp við bensíngjöfina í stýrinu, og ræsir vélina eins og í bíl. Það eru þrír gírar og þú skiptir með fætinum. Stellið er tvöfalt og þessi gerð er lúxusútgáfa en hámarkshraðinn er 70 km á klst.” Eftir að hafa grafið aðeins í skráningum og ljósmyndum er hægt að segja að allavega tvö svona hjól fóru á númer, þótt vitað sé að fjögur hjól komu í fyrstu og líklega einu sendingunni. Hin tvö voru með reiðhjólalagi og vindbrjótum og ekki er víst að þau hafi selst og hugsanlega verið send úr landi aftur.

R-880 er aðeins til á ljósmynd og er Moody Þórarinsson líklega fyrsti eigandi hjólsins. Hann selur Áskeli Agnarssyni í Keflavík hjólið sem á það í nokkur ár en ekki er vitað um hjólið eftir það. Áskell mundi vel eftir hjólinu þegar haft var samband við hann og sagði það hafa verið mjög gott hjól og vel búið. R-881 átti Guðmundur Jón Vilhjálmsson fyrst. Guðjón Jónsson, Hverfisgötu 50 átti það líka allt til 2. apríl 1966 en þá keypti Daníel Guðmundsson, Grundarstíg 19 hjólið. Halldór Waagfjörð mun einnig hafa pantað svona hjól sem koma aldrei og þurfti hann að fá innáborgun endurgreidda. Því miður er ekkert vitað meira um þessi hjól sem líklega er týnd og tröllum gefin, en gaman væri að heyra ef einhverjir vita meira um þessa gripi.
