Categories
Uncategorized

BSA hjólið sem birtist aftur og aftur

BSA Model E var með 50° V2 vél sem var 770 rúmsentimetrar og reyndar aðeins 6 hestöfl. Það var 153 kíló án hliðarvagns og gat þannig náð 88 kílómetra hraða í gegnum þriggja gíra kassa. Drif- og keðjuhlíf var úr áli og það hafði Girder framgaffall. Bensíntankurinn var með flötum hliðum inni í röragrind með demantslagi.

Um daginn barst mér í hendur mynd af BSA mótorhjóli á Eyrarbakka, en á hjólinu sátu kunnugleg hjón úr bók minni “Þá riðu hetjur um héröð” en það voru þau Bjargmundur Guðmundsson úr Hafnarfirði og frú. Er myndin tekin fyrir framan verslun Guðlaugs Pálssonar á Eyrarbakka en hann var vinur þeirra hjóna. Um sama leyti komst ég í gamlar skráningarupplýsingar sem sýndu að þetta hjól hafði einmitt verið í eigu Guðlaugs, sem kaupir það 1. maí 1926 af Þorleifi Andréssyni í Borg, og mun víst hafa verið eina ökutækið sem Guðlaugur átti. Myndin er því líklega tekin við það tækifæri þegar Bjargmundur kemur að kaupa hjólið árið seinna. Hjólið er með vélarnúmerið K32 og þekkist af því en bar skráningarnúmerið ÁR-37, en það skrýtna er að númerið á myndinni er RE-158. Það númer mun hins vegar hafa verið á Harley-Davidson hjóli, en Guðlaugur taldi sig einmitt hafa átt slíkt hjól í viðtali löngu síðar.

Í Vísi þann 12. september 1927 kemur fram að Bjarmundur hafi lent í óhappi á hjólinu ásamt konu sinni. “Bjargmundur Guðmundsson, umsjónarmaður ljósastöðvarinnar í Hafnarfirði, meiddist allmikið i gær, er bifhjól valt um koll undir bonum, skamt frá Hafnarsmiðjúnni, þar sem járnbrautarteinarnir liggja yfir vegjnn. Karfa var fest við hjólið og sat kona í henni, en hún meiddist litið eða ekkert.”

Bjargmundur og frú við verslun Guðlaugs Pálssonar á Eyrarbakka sem átti hjólið 1926.

Við skulum aðeins drepa niður í frásögn um HF-10 hjólið í bókinni: “Hjól þetta er líklega um það bil 1920 árgerð, en Bjargmundur mun allavega hafa átt það frá 1927-29. Árið 1933 er það komið í eigu Guðleifs Bjarnasonar sem selur það Gísla Guðmundssyni árið 1935, sem er einnig skráður fyrir því ári seinna. Árið 1936 er það komið til Reykjavíkur með númerið RE-459, þá í eigu Hjálmars Jóhannssonar. Bjarni Helgason, Laugavegi 20b kaupir það árið 1938 og til marks um endingu hjólsins er það selt Jóni Sigurgeirssyni, Helluvaði, Mývatnssveit árið 1939, þá orðið hjartnær 20 ára öldungur.”

Á myndinni eru þau hjónin Bjargmundur og Kristensa Kristófersdóttir ásamt dætrum þeirra tveimur, Kristbjörgu Aðalheiði á tíunda ári og Guðbjörgu yngri dóttur þeirra. Myndin er tekin 1929.

Það er eins og sum mótorhjól leiti á mann og er svo um þetta hjól því að Jón Sigurgeirrsson er einmitt maðurinn sem ritaði Mótorhjóladagbækurnar sem dóttir hans kom í mínar hendur á dögunum. Þar segir Jón frá BSA hjólinu sem hann kaupir fyrir sunnan árið 1939 og keyrir norður, en sendi hliðarvagninn með skipi til Húsavíkur. Þegar vagninn var kominn undir hafi hann í fyrstu verið svo óklár á þetta farartæki að við slysum lá í prufuferð um götur bæjarins. Jón átti hjólið einn vetur og notaði til vinnu í Bjarnarflagi en hann var líka oft kallaður til símaviðgerða um sveitirnar og til er góð saga af einu slíku ferðalagi á hjólinu. “Þegar Mývatn lagði stytti ég mér leið milli bæja, en kalt var oft að aka móto froststormi á ísnum. Þess minnist ég að eitt sinn er ég fór úr Ytri-Neslöndum undir nótt í skammdegismyrkri á glærum ís, suður í Álftabáru. Það var nístingsfrost og stormur í fangið. Þá voru ekki til gæruskinnúlpur. Ég tók sætið úr körfunni og tróð mér svo langt niður í hana að ég sá ekki út og lagði þannig af stað. Ég varð að teygja mig öðru hverju upp til að átta mig á gíghólunum við vatnið sem glórði í af bjarma frá norðurljósum og stjörnum himinsins, en hjólið rann beint áfram þótt ekki væri haldið um stýrið. Þá kom sér vel að geta sett hraðan með bensínsnerlinum, og skýlt svo höndunum. Hefði einhver mætt mér, þá hefði skapast sönn þjóðsaga um gandreið. Sá hefði í myrkrinu séð grilla í svartan óskapnað, þjóta á ofsahraða með hávaða og skellum, spúandi eldi og reyk, en hvergi nokkurn mann að sjá.” Þegar Jón flytur til Akureyrar til að fara í lögregluna selur hann hjólið til Siglufjarðar og síðasti skráði eigandi þess er Haraldur Kr. Guðmundsson, Þrastargötu 7 árið 1940 en þá er það komið með númerið R-1145.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *