Categories
Uncategorized

Harley-Davidson hjólið R-519

Þau eru orðin ansi mörg mótorhjólin sem maður hefur skannað inn í tölvuna á þeim rúmu 30 árum síðan að ég hóf að safna upplýsingum um gömul mótorhjól á Íslandi. Hjólið og myndin sem kveikti áhugann var mynd af Harley-Davidson hjóli Lofts Ámundasonar járnsmiðs sem að Hilmar Lúthersson sýndi mér, en myndina hafði hann fengið hjá fjölskyldu Lofts. Maður lét sig dreyma um að maður myndi finna gamalt, yfirgefið mótorhjól í einhverri skemmunni um sveitir landsins. Sjaldgæft mótorhjól eins og Harley-Davidson frá því fyrir stríð var þó fjarlægur draumur.

Eggert Jóhannesson á R-519, líklega sumarið 1937.

Lengi hafði ég þó vitað af Harley-Davidson hjólunum í Vík og gert mér meira að segja ferð að skoða þau árið 1992. Þegar tækifæri gafst fyrir stuttu til að kaupa eldra hjólið lét ég ekki segja mér það tvisvar og lagði af stað í austurátt ásamt tengdaföður mínum, Tryggva Þormóðssyni. Að sögn eiganda átti að fylgja hjólinu eitthvað dót sem var af óljósum uppruna. Hjólið sem við keyptum hafði verið geymt í skemmu frá aldamótum sem notuð var til að skipta um olíu á bílum og vinnuvélum. Það sem fylgdi hjólinu var ofan í olíugryfjunni og aldrei hefði mér grunað að meðal þess sem ég fann þar var mótorinn úr einmitt hjólinu hans Lofts, hjólinu sem byrjað hafði þessa vegferð mína.

Greinarhöfundur við Model D 1929 hjólið með upprunalega mótornum.

Þetta tiltekna hjól er af gerðinni Harley-Davidson Model D frá 1929. Um sjaldgæfa gerð er að ræða fyrir margar sakir. Fyrir það fyrsta var þessi tiltekni mótor aðeins í notkun í þrjú ár, frá 1929-1931. Hann er með stórum dínamó vinstra megin framarlega sem liggur eins og fremri strokkur vélarinnar og þess vegna voru þessi hjól stundum kölluð 3ja strokka Harley-hjólin. Árgerð 1929 var eina árgerðin með grennri gerð grindarinnar og kom með mjórri framgaffli en árið á eftir. Mótorinn ber vélarnúmerið 7720 sem þýðir að þetta hjól var númer 6720 í röðinni þar sem 1001 var venjulega fyrsta vélarnúmerið. Ég hugsaði strax að þetta mótorhjól þyrfti að gera upp og því var byrjað á að kaupa fremri strokkinn sem vantaði í mótorinn. Tækifærið gafst svo í vor þegar grind á hjólum bauðst til sölu í Slóveníu. Hafin er samsetning á hjólinu sem er fyrsta skrefið á þeirri vegferð að gera gripinn upp í upprunalegt ástand.

Hér situr Aage Lorange hjólið meðan það er nýlegt. Myndin er tekin á Hafursstöðum í Skagahreppi.

Saga hjólsins er rekin í bók minni „Ameríska Goðsögnin“ en þar vantaði þó rúman áratug eftir að Loftur átti mótorhjólið. Aage Lorange, Freyjugötu 10 kaupir hjólið nýtt 11. febrúar 1930 og á það í tvö sumur. Emil Jónsson verslunarmaður, Baldursgötu 10 kaupir það 12. október 1931 og er skráður fyrir því 1932 en 3. júní 1933 er það komið á nafn Lofts Helgasonar, Freyjugötu 10 og Ágústs Sæmundssonar, Ránargötu 29 sem eru skráðir fyrir RE-519 frá 1933-1936.

Sex stykki Harley-Davidson fyrir framan Tryggvaskála sumarið 1937. Fremst er R-519 en það situr Eggert Jóhannesson. Á R-93 situr Gissur Erasmussen en það er Harley-Davidson Model C 1931. RE-565 er Harley-Davidson Model D 1930 en á því erTómas Þorsteinsson. Einar Björnsson er á R-472 sem er Model C 1929 og R-583 er Harley-Davidson Model D frá 1931 en Sigurður Sigurðsson situr það. RE-488 er loks Harley-Davidson Model VL 1931 með 1.200 rsm mótor, en það situr Ásgeir Matthíasson.

Eggert Jóhannesson, Hringbraut 132 er skráður fyrir hjólinu 2. maí 1936 ásamt Eyjólfi K. Steinssyni, Frakkastíg 12. Eyjólfur notar hjólið mikið og fór meðal annars nokkrar ferðir á því norður ásamt vini sínum Einari Björnssyni. Árið 1939 fær það númerið R-519 og er þá enn í eigu Eggerts og Eyjólfs.

Félagarnir Hlöðver Einarsson í forgrunni og Loftur Ámundason. Hlöðver situr Ariel hjól frá 1934 en Loftur R-519 sem skömmu seinna fékk númerið R-1130. Það var einmitt þessi mynd sem hóf söfnun heimilda minna um gömul mótorhjól á Íslandi.

Loftur Ámundason, Grettisgötu 73 kaupir það 26. febrúar 1939 og þann 1. júlí er það sett á númerið R-1130. Hilmar Lúthersson sagði mér meðal annars frá því að hann mundi vel eftir því þegar Loftur fór á hjólinu í vinnuna í Vélsmiðjuna Héðinn, en hann bjó í sömu götu og hann. Hilmar hefur varla verið meira en 10-12 ára en þar kviknaði mótorhjólaáhugi hans fyrir alvöru. Hér vantaði nokkuð í sögu hjólsins í bókinni en með afskráningarpappírum sem fundust nýlega á Þjóðskjalasafninu bætist nú við sögu þess. Loftur á hjólið semsagt í tæpan áratug en hann selur það 16. september 1948 Þorbergi Á Þorbergssyni, Sölvhólsgötu 13. Hann selur það Sigurbjarna G. Þorbergssyni bróðir sínum næsta vor en hann á það næstu þrjú árin. Þann 22. desember 1952 er það selt austur fyrir fjall Helga Ívarssyni í Vestur-Meðalholtum og fær hjólið þá númerið X-171.

Eyjólfur K. Steinsson situr hér R-519 og við hlið hans er vinur hans EInar Björnsson.

Hjólið fær seinna númerið G-672 en 20. október 1958 er það komið á númerið R-3918 og á nafn Preben Skovsted, Laufásvegi 41. Þann 24. nóvember 1958 er það skráð á Konráð Bergþórsson til heimilis að Nökkvavogi 1. Hann auglýsir það til sölu í Morgunblaðinu 29. maí 1959 og er það selt ódýrt. Baldvin Einarsson, Hverfisgötu 90 er skráður fyrir því 12. júní 1959 en hann auglýsir það til sölu í Vísi 11. ágúst og svo aftur 19. nóvember sama ár, sem ódýrt Harley-Davidson, 10 hestöfl og eru upplýsingar gefnar á Hverfisgötu 90. Þann 17. febrúar 1967 er númerið sagt niðurlagt og ónýtt.

Svona mun endanlegt útlit hjólsins verða þegar það er fullbúið í ólífugrænum lit. Tvöföldu Solar framljósin voru einkennandi fyrir árgerðirnar frá 1929-1931.

Það að mótor hjólins skuli hafa verið til er mikil heppni því að mótorinn ber verksmiðjunúmer hjólsins og þess vegna verður hægt að skrá það aftur þegar fram í sækir. Sá sem gerði upp hjólin í Vík hét Guðmundur Guðlaugsson og hefur hann líklega hugsað sér að nota mótorinn í annað hvort hjólið, en þessi tiltekni mótor passar í bæði hjólin sem hann var með. Það sem vantar núna í hjólið eru hlutir eins og blöndungur og hraðamælir sem leitað verður að á næstunni en vandað skal til verka til að hafa það sem upprunalegast. Verður það sprautað í ólífugrænum lit sem var framleiðslulitur þessa tíma hjá Harley-Davidson.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *