Categories
Uncategorized

Black Bomber mótorhjólin

Þessi mynd myndi sóma sér vel á póstkorti en þarna hallar Ásbjörn Eydal sér að Black Bomber mótorhjóli sínu við höfnina í Vestmannaeyjum.

Fyrstu japönsku hjólin til að setja mark sitt á mótorhjólasöguna eru án efa Honda CB450 sem oft voru nefnd Black Bomber í byrjun, en fyrstu árgerðirnar voru með einkennandi svörtum bensíntönkum. Þau komu fyrst á markað árið 1965 en fyrstu hjólin komu hingað til lands ári seinna. Black Bomber hjólin voru með rafstarti og fjögurra gíra kassa. Þau voru öflug enda með tveimur yfirliggjandi knastásum og skiluðu 43 hestöflum en komu svo með fimm gíra kassa árið 1968. Mike Hailwood átti að keppa á Black Bomber hjóli á Brands Hatch árið 1966 en var bannað að taka þátt þar sem keppnisstjórn trúði því ekki að um framleiðsluhjól væri að ræða vegna þess að það var með tveimur knastásum.

Annað af uppgerðum Black Bomber 1966 er hjól Lofts Ágústssonar sem upphaflega var hjól Halldórs Pálssonar.

Fyrstu Honda CB450 hjólin komu hingað til lands árið 1966 og voru þau sex talsins. Eigendur þeirra voru samkvæmt Tryggva Sigurðssyni í Vestmannaeyjum þeir Halldór Pálsson í Lönguhlíð 19, Tómas Ingólfsson í Njörvasundi 9, Kristján Víkingsson í Stigahlíð 4, Bjarni Thors Lágafelli í Mosfellssveit, Ásbjörn Eydal, Brekastíg 14 í Vestmannaeyjum og Guðjón Jónsson, Vestmannabraut 44 í Vestmannaeyjum. Við ætlum að byrja á að skoða hjól Kristjáns sem bar verksmiðjunúmerið 1017348 og var sett á númerið R-11937 þegar það kom til landsins.

Eiríkur Carlsen á R-11937 sem hann fór á í Evróputúr sumarið 1967 en myndin er tekin í Danmörku.

Hjólið kom til landsins 4. júlí 1966 og fékk númerið R-11937. Kristján átti það bara fyrsta sumarið en hann selur það Eiríki Carlsen þann 4. október sama ár. Eiríkur Carlsen fer á hjólinu í Evróputúr sumarið 1967. Það er svo selt Sigurði H. Hlöðverssyni, Hólmgarði 41 þann 27. september 1967.

Ásbjörn Eydal á mótorhjóli sínu sem Tryggvi Sigurðsson gerði síðar upp.

Til er skemmtileg saga af Sigurði og Viggó Guðmundssyni, en hann átti svona hjól af 1967 árgerð. Þeir voru saman á sitt hvorri svörtu bombunni og voru að leika sér í sandgryfjum að spóla í hringi og stökkva á hjólunum. Kom þar að lögreglumaður á Harley-Davidson lögregluhjóli, sem horfði á þá um stund en fór svo af stað og ók nokkra hringi. Hraðinn jóks og áræðnin með, en á endanum fór svo að við eina lendinguna á þungu lögregluhjólinu, sleit mótorinn sig lausann og breyttist í jarðýtu. Sigurður og Viggó horfðu uppá þetta og ákváðu að lauma sér strax í burtu, því þeim þótti líklegt að einhvernveginn yrði þeim kennt um þetta óhapp.

Eiríkur Carlsen á sínu Black Bomber við flugskýli 1 við Reykjavíkurflugvöll en fremra hjólið er hjól Halldórs Pálssonar.

Sigurður selur svo hjólið 14. apríl 1968 Bæjarsjóði Keflavíkur og fer það á númerið Ö-1001 og er gert að lögregluhjóli. Sá sem notaði hjólið mest hjá lögreglunni hét Viðar Pétursson og er líklega á hjólinu á myndbandi sem til er af því. Þegar lögreglan hættir að nota það fer það í geymslu en er svo selt hjá Innkaupastofnun Ríkisins, en það var Bjarni Matthíasson ökukennari og lögreglumaður kaupir það. Óskar Hallgrímsson kaupir það svo af honum 1971 og notar næstu tvö árin á númerinu G-7477. Hann lendir meðal annars í því að detta á hjólinu og skemmdust þá töskurnar og rúðan svo að því dóti var seinna hent. Hann á hjólið ennþá ásamt bróðir sínum, Hallmundi Helgasyni enn þann dag í dag og er það í hægri uppgerð.

Klippa úr myndbandi frá æfingu slökkviliðsins í Keflavík seint á sjöunda áratugnum en þar sést glitta í Honda Black Bomber lögregluhjólið.

Annað af 1966 hjólunum var hjól Tómasar G Ingólfssonar í Njörvasundi 9 en það fékk númerið R-11985. Hann selur það Ágústi Guðmundssyni Laufásvegi 40 í maí 1967 en hann selur það svo í janúar 1968 Gunnari Árnasyni í Stóragerði 26. Hann selur það svo um sumarið norður í land en það er Daggeir H Pálsson, Bjarmastíg 3 Akureyri sem kaupir og fær hjólið þá númerið A-1124.

Black Bomber hjól Ágústs Guðmundssonar R-11985.

Sá sem kaupir hjólið 1969 af Daggeir er enginn annar en Óskar Þór Kristinsson, og var þetta fyrsta stóra mótorhjólið hans. Hefur því þetta hjól verið kallað jakkahjólið af innvígðum og festist það nafn við hjólið. Óskar átti hjólið í tvö ár á númerinu H-418 og seldi það 1971 Hermanni Benediktssyni á Akureyri. Óskar flutti hjólið til Akureyrar sjóleiðina þegar hann seldi það og skemmdist aðeins tankurinn í flutningunum. Árið 1972 er það selt Árna Árnasyni að Suðurbyggð 4 og sama sumar er það selt Eðvald Geirssyni, Þórunnarstræti 133. Halldór Jóhannesson frá Lundeyri kaupir það svo um haustið og er það þá með númerið A-1134. Steindór Steindórsson, Strandgötu 51 á Akureyri kaupir það í Október 1973 og hann selur það í sama mánuði Jóhannesi Sigtryggssyni frá Sandhólum í Saurbæjarhrepp. Þorsteinn Gunnarsson, Eyrarlandsvegi 33 kaupir það ári seinna en hjólið er afskráð úr Eyjafjarðarsýslu 10. nóvember 1977 og fær þá númerið U-200. Þetta hjól var með verksmiðjunúmerið 1017575, og fasta númerið BP076 en grindin af þessu hjóli er til ennþá. Upphaflegt mótornúmer var 1015160.

Ágúst Guðmundsson í torfærum á R-11985 í sandgryfjunum á Sævarhöfða.

Þriðja hjólið er í eigu Lofts Ágústssonar og er uppgert hjól í dag. Dóri Sigtryggson bifhjólavirki átti hjólið en seldi Lofti það um miðjan níunda áratuginn. Loftur keypti ýmislegt í hjólið, bæði nýtt og notað og gerði upp ásamt Dóra. Ekki er vitað mikið um sögu þess en er verksmiðjunúmer þess 1017556. Halldór Pálsson átti það fyrst og er hjólið til á myndum síðan að hann átti það.

Halldór Pálsson á mótorhjóli sínu fyrir utan heimili hans í Lönguhlíðinni.

Minna er vitað um sögu hinna þriggja en hjólið með verksmiðjunúmerið 1017536 er það sem Guðjón átti, en það má sjá í sölureikningum frá Honda umboðinu, sem varðveittir eru hjá Tryggva og Darra í Eyjum. Á þeim reikningum má einnig sjá að mótorinn úr því hjóli bar númerið 1015357 og er hann til í dag.

Viggó Guðmundsson við Black Bomber hjólið R-11993.

Hjólið með verksmiðjunúmerið 1017486 er hjól Ásbjörns Eydal. Þetta hjól er ennþá til en Tryggvi Sigurðsson gerði það upp, og er eigandi þess Viggó Guðmundsson. Það bar númerið R-11993. Mótorhjólið með verksmiðjunúmerið 1017579 er hjólið sem Bjarni Thors keypti nýtt á 63.650 kr árið 1966. Þetta hjól er nú í eigu Halldórs Sigtryggsonar og er óuppgert en það fannst í hitaveitukompu. Síðasta númer sem það bar er G-7474.

Brynjólfur Sigurðsson situr Honda CB450 vinstra megin á myndinni. Árni Þorsteinsson situr R-11916, sem er Honda 305 Dream. Árni fékk Black Bomber hjól Brynjólfs lánað og lenti í árekstri á því í Nóatúni. Daníel Guðmundsson var aftan á og þeir köstuðust yfir bílinn sem kom upp Nóatúnið og lentu þeir fyrir framan lögreglubíl sem var hinu megin á gatnamótunum. Þeir sluppu ágætlega frá þessu báðir og hjólið líka, en kaupa þurfti nýja framgaffla, ljós og tank. Hjólið var með nr-ið R-11950. Myndin er tekin 1968 á Óðinsgötu 18 og er líklega upphaflega hjól Guðjóns Jónssonar þó ekki sé hægt að slá því föstu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *