Eflaust geta margir lesendur fornhjol.is séð Tinna fyrir sér á mótorhjóli. Það sem færri kannski vita er að uppruna Tinna má rekja til franska blaðamannsins Robert Sexe. Robert þessi var vinur Hergé, höfundar Tinnabókanna en samlíkingin endar ekki þar. Hundur Robert Sexe var hvítur og hét René Milhoux, eða Milou í frönsku Tinnabókunum. Robert Sexe ferðaðist til Sovétríkjanna, Kongó og Bandaríkjanna í sömu röð og í Tinnabókunum, og hann gerði það líka á mótorhjóli.

Robert Sexe ferðaðist kringum hnöttinn á sérstaklega breyttu Gillet-Herstal mótorhjóli með 40 lítra bensíntanki, en það gerði hann árið 1926, þremur árum áður en fyrsta Tinnabókin „Tinni í Sovétríkjunum“ kom út. Robert Sexe hélt tryggð við það merki þar til árið 1931 þegar hann fór að kynna Peugeot mótorhjólin.

Peugeot kom með nýtt módel á markað árið 1929, 250 rsm P110 mótorhjólið sem var létt fjórgengishjól með einum strokki. Til að kynna nýju línuna fékk Peugeot merkið Robert Sexe til að fara í hnattferðalag á hjólinu. Hann ók því hjóli 26.000 km í Evrópu og Afríku, en einnig fór hann um alla Evrópu á Peugeot skellinöðru og aðstoðaði Peugeot að hanna herútgáfu af mótorhjóli.

Margir vilja tengja mótorhjólið í Tinnabókunum við Gillet-Herstal mótorhjólið og eru góðar ástæður fyrir því. Robert Sexe vann ennþá fyrir Gillet-Herstal merkið þegar fyrsta Tinnabókin kom út árið 1929. Merkið var líka belgískt eins og Hergé, höfundur bókanna, og Robert Sexe hafði einmitt ferðast til Sovétríkjanna á Gillet-Herstal eins og Tinni gerði í fyrstu sögunni. Mótorhjólið sem Robert Sexe notaði er ennþá til á Auto-moto-vélo safninu í Châtellerault í Frakklandi.

Þegar myndirnar af mótorhjóli Tinna eru hins vegar skoðaðar eru miklu meiri líkindi við Peugeot P110 mótorhjólið. Pústkerfið á hjóli Tinna er eins og á Peugeot hjólinu fyrir utan það að vera vitlausu megin. Hægri hlið mótorsins er með áberandi hring á blokkinni eins og P110 hjólið og framljósið er með sama lagi. Peugeot mótorhjól Robert Sexe er einnig til, en það var lengi í eigu belgísks mótorhjólasafnara að nafni Hans Devos. Hann hélt uppboð á hjólinu í belgískum sjónvarpsþætti, en kaupandinn borgaði það aldrei og er því hjólið nú í eigu viðkomandi framleiðslufyrirtækis.
