Categories
Uncategorized

Mótorhjóladagbækur Jóns frá Helluvaði

Jón Sigurgeirsson frá Helluvaði við Royal Enfield Bullet mótorhjólið sem hann hélt uppá.

Stundum rekur á fjörur manns fjársjóður eins og ljósmyndir og dagbækur þessa manns, Jóns Sigurgeirssonar frá Helluvaði í Mývatnssveit sem dóttir hans, Herdís Anna Jónsdóttir var svo elskuleg að senda mér eftir að hafa lesið grein í Bændablaðinu. Jón átti aðeins mótorhjól frá 1934 – 1950 áður en hann eignaðist bíl og flakkaði víða um landið og hálendi þess á reiðskjótum sínum. Hann hélt einstakar dagbækur um ferðir sínar sem eru frábær lesning. Hér er ferðasaga af honum á Royal Enfield Bullet 500 mótorhjóli frá 1939 sem hann var mjög hrifin af.

Bullet gerð Róyal Enfield kom fyrst fram 1931 og var toppventla, 250, 350 og 500 rsm hjól með hærri þjöppu og álheddum. Hjól Jóns var 500 rsm tveggja porta og hefur því verið öflugt hjól eða um 34 hestöfl.

Mótorhjólaferðalag með Árna frænda

Vorið 1943 heppnaðist mér að eignast traust og nýlegt mótorhjól “Royal Enfield” til kaups. Í næstum tíu ár hafði ég átt ýmsar tegundir hjóla sem voru mestu gallagripir sökum aldurs og slits. Ég ók þó einu þeirra vítt um Austurland, fór gömlu póstleiðina yfir Mývatnsöræfi og ferjaði það á bátskænu yfir Jökulsá hjá Grímsstöðum á Fjöllum. Af þremur gírum sem áttu að vera á hjólinu, vantaði miðgírinn, svo annað hvort fór það lúshægt, ellegar þá eins hratt og hægt var. Bensín kostaði þá 40 aura lítirinn sem nægði til að aka allt að 30 km vegalengd á góðum vegi.

Þegar þetta gljákrómaða nýtískulega mótorhjól, kom inní myndina ásamt fleiri vikna sumarfríi á kaupi varð mér á, að gera áætlanir um langar ferðir eitthvað út í buskann. Ég var þá fluttur til Akureyrar og var í starfi þar, en brá mér sífellt í frístundum uppá Helluvað um sumartímann að hjálpa til við heyskapinn. Gísli mágur minn stóð í fjárhúsbyggingu þetta sumar og sonur hans Árni, 17 ára vann að byggingunni. Hann hafði alist upp með mér á Helluvaði frá blautu barnsbeini og við frændurnir höfðum verið mjög samrýndir í leik og starfi. Hann fékk leyfi foreldra sinna til að fara í nokkurra daga ferðalag með mér á mótorhjólinu góða, heimsækja ömmu sína í Reykjavík og föðursystur sem mundu taka vel á móti okkur eins og á daginn kom.

Árni fékk far inneftir til mín í Aðalstræti 50 þar sem ég leigði hjá Páli frá Klömbrum og hafði ég allt tilbúið til ferðar, tjald, hitunartæki og nesti ef grípa þyrfti til.

Það hafði vorað seint og vegna hlýrrar sunnanáttar var vöxtur í ám og lækjum, þótt komin væru mánaðarmót júní og júlí, og var mér kunnugt um að vötn flæddu yfir vegi og að ræsi væru biluð. Vitað er að seinnipart nætur setur niður í leysingavötnum þannig að ég afréð að hefja ferðina með því að tjalda á grasbletti ofan við kartöflugarðinn í Aðalstræti 50 og sofa seinnipart dags og fram á nótt. Um óttuskeið, þann annan júlí skriðum við því upp úr pokum okkar, tókum saman ferðadótið, festum það á okkur og utan á hjólið og meðan bæjarbúar sváfu svefni hinna réttlátu rufum við hljóðmúrinn með mótorskellum svo undir tók í mannlausum strætum bæjarins. Nýr dagur var að renna upp yfir Vaðlaheiði með sunnablæ og vor í lofti. Seyrur og grafningar töfðu ferð okkar. Gloppuá í Öxnadal var í foráttu vexti og urðum við að leita eftir færu vaði niður á eyrum þar sem hún dreyfði sér. Upp hina illræmdu Bakkaselsbrekku skilaði hjólið okkur auðveldlega og í Giljareitum ómaði allt af vatnanið. Á grasbala í Silfrastaðafjlalli áðum við um stund, réttum úr stirðum hnjám og fengum okkur bita. Skuggar nærurhúmsins hurfu og morgunsólin gylltu vesturfjöllin og Mælifellshnjúk.

Ekkert lífsmark var að sjá í Blönduhlíð eða Vallhólma utan hópa vesældlegra útigönguhesta í vegköntum sem stukku frá okkur í ofboði er yfir dundu skellirnir í mótorhjólinu. Árna var umhverfið algerlega óþekkt, en ég hafði tíu árum áður gengið þjóðleiðina úr Borgarnesi í Helluvað, og gat því uppfrætt Árna nokkuð um hvaðeina, sem fyrir augu bar. Vörðurinn við Héraðsvatnabrúna var sjáanlega lítt hrifinn að vera rifinn upp úr fasta svefni um hánótt til að opna brúargrindina fyrir tveimur umrenningum.

Minnismerki Stephans G. á Arnarstapa skoðuðum við í krók og kring og vandfundinn mun betri sjónarhóll, víðara útsýni og fegurra, en þar gefur að líta, þegar morgunsólin fóðrar gulli fjöllin og byggðina.

Á Æsustöðu í Langadal bjó séra Gunnar, föðurbróðir Árna og áttum við þar alla fyrirgreiðslu vísa, en þegar okkur bar að garði, var klukkan bara að ganga sjö og heimilisfólk því í fastasvefni. Við vorum tveimur tímum á undan áætlun. Aldrei finnst mér ósiðlegra að vekja upp á bæjum, en svona snemma morguns. Við lögðum okkur því við vallargarðinn og drógum yfir okkur úlpur til að verjast sólarhitanum og sváfum til kl 10. Maður heyrði lífið færast í dalinn, hanar göluðu, hundar geltu og það og það brakaði í kýrklaufum er Æsustaðarkýrnar voru reknar fram hjá okkur í haga. Eftir að hafa svkett framan í okkur köldu vatni úr uppsprettulind og þurkkað stírur úr augum, gengum við á fund prests og konu hans Sigríðar frá Auðkúlu og fegnum hlýjar viðtökur. Átalið var þó, að hafa ekki vakið upp, en það létum við Árni ekki á okkur fá. Við sátum fram eftir degi í gleðskap og fagnaði en kl 2 kvöddum við á prestsetrinu og héldum okkar strik að Blönduósi hvar við bættum fimm lítrum af bensíni á hjólið. Ég spurðist fyrir um Björn Bergmann sem verið hafði kennari Árna og var trúfastur vinur minn og Mývetninga. Var hann sagður vera á Stóru-Giljá og þar tók hann á móti okkur af hjartans gleði. Drukkum við með honum kaffi og þar á eftir sýndi hann okkur mikla rafstöð í gilinu sem bærin dregur nafn af.  Síðan var haldið vestur sveitir á 70 km hraða eða meir, þar til við komum að sjoppu sem hét Norðurbraut, en er nú löngu aflögð. Þar fegnum við okkur límonaði og kex.

Royal Enfield mótorhjólið fyrir utan áningarstaðinn Norðurbraut.

Allt hafði gengið í sögu fyrir okkur, þar til við komum í Hrútafjörðinn, en þá sprakk afturhjólaslangan og olli það umstang, að rífa í sundur og líma, tveggja klukkustunda stoppi. Hjá Sveinatungu réttum við úr stirðum hnjám, lögðumst út á grasflöt og átum harðfisk en héldum svo fram hjá Grábrók og niður í Svignaskarð. Þar fékk ég bensín og leiðsögn í Reykholt. Þangað náðum við fyrir háttatíma og vorum því fegnir að koma til vinafólks og fá gistingu eftir 18 klst ferðavolk. Aldrei kvartaði Árni, þótt vont væri sæti hans, beinhart og rétt yfir afturhjólinu, en svo vel fylgdi hann eftir öllum hliðarsveiflum hjólisins að ég vissi naumast af því að hafa farþega, en farangurinn var mikill og til óþæginda. Hafði ég troðið bakpoka framan á mér spenntan aftur fyrir axlir og lá hann á bensíntankinum og veitti skjól í rokinu sem löngum er hvimleitt og alltaf í fangið sé nokkuð farið greitt.

Við Þórir skólastjóri í Reykholti áttum sömu ömmu, Sigríði á Helluvaði. Hann fagnaði okkur vel og bauð okkur gistingu. Er hann var smástrákur og í heimsókn hjá ömmu sinni, og átti að fara einn heimí bæ af kvíunum, fór hann í öfuga átt og lenti vestur í Helluvaðsheiði. Það var mesta mildi að hans var strax saknað og farið að leita. Þetta hefði getað skipt sköpum um skólastjórastöðuna og gistingu okkar og vinafagnaðinn í Reykholti.

Nýlega voru þá fundin jarðgöng út í laugina, og undursamlegt var að þreifa sig áfram milli þröngra veggjanna eins og Snorri Sturluson gerði í þessum dimma ranghala er hann fór í bað. Steinlagða vatnsrennu er hægt að sjá frá lauginni og í hverinn Skriflu, að nokkru leiti neðanjarðar. Eftir þessari rennu er vatnið leitt til upphitunar í skólabyggingarnar og nýtur staðurinn enn í dag handverka og hugvits Snorra.

Um miðjan næsta dag slitum við okkur upp frá frændfólkinu í Reykholti og héldum áfram ferðinni, ókum yfir heitan læk hjá Kleppjárnsreykjum og framhjá Varmalæk, og segir ekki af ferð okkar fyrr en við komum að Hvanneyri. Þá var komin ausandi rigning. Hímdum við þar um tíma undir húsvegg í skjóli fyrir vind og regni. Strákar óku mykju á tún í fjórhjóluðum vögnum. Sátu þeir á fjöl ofan á mykjuhlassinu, í regngalla með sjóhatta, og sungu við raust. Við gengum kringum skólabyggingarnar. Hafði ég gaman af því vegna þess að Jónas bróðir minn var hér tvo vetur í skóla, þegar ég var 10 og 11 ára. Var mér á þeim árum oft hugsað til þessa fjarlæga staðar, og á bréfunum sem við fengum stóð ávallt nafni stóra, Hvanneyri, efst á blaði. Nú fossaði vatn úr hverri þakrennu og enginn maður sást á ferli utan strákarnir á mykjuvögnunum.

Áfram var haldið í fossandi regni. Ég varð að hafa annað augað lokað og láta mér nægja að grilla til hálfs með hinu þar til mig fór að svíða en þá skipti ég um auga. Regndroparnir líktust sandkornum, að fá þá í andlitið, þegar hratt er ekið. Í Melaaveitinni, sem okkur virtist alveg óendanleg, gengu vatnsgusurnar upp að hnjám. Hvalfjarðarleið var okkur lokuð vegna hermanna sem réðu þar lögum og lofum, svo við stefndum á að fara á skipi frá Akranesi, og er þangað kom fórum við beint á hótel og fegnum okkur kaffi, til að taka úr okkur hrollinn og biðum skipsferðar.

Það stytti upp og gerði besta veður. Við ókum því þvers og langs um Skipatanga til að sjá okkur um og eyða tímanum, fórum svo aftur á hótelið og fengum okkur að borða. Loks kom Suðurlandið að bryggju og allir tróðust um borð og við Árni með hjólið. Hann fór sína fyrstu sjóferð og stóðst hana vel. Skipið lagðist við Grandagarðinn, þar sem fjöldi fólks beið á bryggjunni. Það var víst til siðs í Reykjavík að fjölmenna við hverja skipskomu, líklega af tómri forvitni. Við fórum ekki varhluta af henni, vorum grandskoðaðir en hjólið rauk í gang og við forðuðum okkur úr mannþrönginni og ókum að Sólvallagötu 29 þar sem okkur var fagnað sem við værum af himni sendir. Það var dáðst af því hvað við værum á fallegu mótorhjóli og það var látið standa í innganginum við dyrnar. Hjónin, Kristinn Ármannsson og Þóra höfðu oft dvalið á Helluvaði með börnin á sumrin og nutum við þess, fegnum jafnvel sérherbergi og þjónustu alla eins góða og hægt var að veita okkur.

Við gerum hér hlé á ferðasögu Jóns og Árna, en eftir komuna til Reykjavíkur gerðu þeir sér ferð um Suðurlandið á mótorhjólinu, áður en þeir fóru aftur norður. Verður þeirri sögu gerð skil hér á næstu vikum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *