Categories
Uncategorized

Stína á hjólinu

Kristín Kristjánsdóttir frá Húsavík var ein fyrsta konan á Íslandi til að eiga og nota mótorhjól, en það átti hún um miðja tuttugustu öldina. Hún átti Royal Enfield hjól frá hernum í nokkur á og notaði hún hjólið talsvert í veiði og til að heimsækja fjölskyldu sína í Bárðardal. Einnig notaði hún það til ferðalaga og ferðaðist mikið með Ríkharði Pálssyni sem einnig átti mótorhjól. Fóru þau meðal annars saman í Ásbyrgi á hjólunum.

Myndin af Stínu sýnir hana laga sprungið afturdekk á hjóli sínu einhversstaðar í Aðaldalshrauni. Mynd © Minjasafnið á Akureyri.

Hún var mjög smávaxin og grönn og ef hjólið fór á hliðina reisti hún það ekki við hjálparlaust. Hún kom nokkrar ferðir á því í Lundarbrekku til systur sinnar. Hún hafði þann hátt á þegar hún var að fara fram í sveitir, að fara seinnipart nætur á stað til að losna við umferð. Einu sinni var hún á leið í Lundarbrekku og áði við BP bensíntank sem Lúter Vigfússon á Fosshóli var með. Hún mældi bensínið á hjólinu til að sjá hvort það dygði suður í Lundarbrekku. Hún vildi helst ekki vekja Lúter ef hún kæmist hjá því. Hún ákvað að bensínið væri nóg, en þegar hún var að setja hjólið í gang datt það á hliðina. Varð hún því að vekja Lúter og fá hann til að hjálpa sér að reisa það við. Lúter tók ekki annað í mál en hún drykki með sér kaffi, einmitt það sem hún ætlaði að sleppa við.


Royal Enfield Flying Flea var einfalt 125 rsm mótorhjól með handskiptingu á bensíntanki.

Einu sinni festi hún hjólið í djúpum hjólförum uppi á Mývatnsheiði. Hún var á leiðinni upp í Hofsstaði að veiða í Laxá. Það varð henni til bjargar að Siggi í Haganesi, frændi hennar kom á bíl og hjálpaði henni að losa hjólið, en hann var að fara í flug snemma til Akureyrar.

Talsverðu var eytt í þróun þess að geta kastað Flying Flea út úr flugvélum þótt það hafi sjaldan verið raunin þegar til kom. Mynd © Top Gear

Hjólið hennar Stínu bar númerið Þ-110 og var Royal Enfield Flying Flea hermótorhjól sem hannað var sérstaklega til að það væri hægt að kasta því út í fallhlíf. Hjólin voru létt enda bara með 125 rúmsentimetra vél en beðið var sérstaklega um þau af breska hernum þegar ekki var lengur hægt að fá DKW RT100 hjólin árið 1938 vegna yfirvofandi átaka. Hægt var að fella upp fótstig og startsveif ásamt stýrinu til að hjólið tæki sem minnst pláss. Gengið var frá bensíni þannig að það læki ekki þrátt fyrir að hjólið væri á hvolfi. Hjólin urðu vinsæl eftir stríð sem ódýr leið til að útvega sér ökutæki og voru í framleiðslu nánast óbreytt til 1950. Hjólið hennar Stínu er með handskiptingu hægra megin og handkúplingu vinstra megin á stýri, svo það hefur hugsanlega þjónað í stríðinu. Ekki er vitað um afdrif hjólsins eftir að Stína átti það.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *