Categories
Uncategorized

Hvar er tvíburahjólið niðurkomið?

Það er alltaf gaman að rekast á gamla „vini“ eins og Maico M250B mótorhjólið sem ég sá hjá honum Alexander Ólafssyni á dögunum. Sumarið 1973 komu hingað tveir þjóðverjar á tveimur gömlum hermótorhjólum með það fyrir augum að aka á þeim yfir hálendi Íslands. Þessir ungu menn hétu Dieter Kizele og Georg Johna og höfðu þeir safnað fyrir hjólunum í eitt og hálft ár. Hjólin voru gömul hermótorhjól af Maico gerð, einnig kölluð Blizzard, með 250 rsm tvígengisvélum og fjögurra gíra kassa. Þeir keyptu þau á 100 mörk stykkið og þurftu talsvert að dytta að þeim áður en þeir komu hingað.

Alexander Ólafsson við annað M250B hjólið en ekki er vitað hvar hitt er niðurkomið.

Hjólin urðu eftir á Íslandi eftir för þeirra hingað og Grímur Jónsson járnsmiður keypti bæði hjólin. Átti hann þau fram til 1992 þegar Magnús Axelsson kaupir þau bæði af honum. Þegar stóra afmælissýning Snigla var haldin í Laugardalshöll 1994 fékk ritstjóri fornhjol.is bæði hjólin lánuð á sýninguna. Magnús selur seinna bæði hjólin og allavega annað þeirra Ólafi Hafsteinssyni. Nýlega rakst ég á annað þeirra hjá Alexander Ólafssyni í Hafnarfirði, en sonur hans Ellert keypti það af Ólafi. Þar hefur hjólið verið geymt lengi eða í hjartnær 20 ár, en ekki er vitað hvað varð af hinu hjólinu. Gaman væri ef að einhver getur bent okkur á hvar það skyldi niður komið og hvort það sé upprunalegt ennþá eins og hjól Alexanders og Ellerts.

Tvíburahjólin á mótorhjólasýningu Snigla í Laugardalshöll árið 1994.

Þegar ég skrifaði bókina um 100 ára sögu mótorhjólsins á Íslandi rakti ég aðeins sögu Georg og Dieter, enda var birt grein um þessa ferð þeirra í Morgunblaðinu 15. júlí 1973. Tókst mér meira að segja að hafa uppi á ættingjum þeirra og ræddi í síma við son Georg Johna, sem sagði mér að þeir væru báðir látnir, en þeim þætti mjög merkilegt að þeir væru að fara að birtast í bók á Íslandi. Hér fyrir neðan má lesa greinina úr Morgunblaðinu í heild sinni.

Yfir hálendið á eldgömlum hermóturhjólum

Fjórir ungir Þjóðverjar eru nýkomnir til Reykjavikur eftir næsta ævintýralega ferð um Island. Þeir ferðuðust um á eldgömlum hermótorhjólum sem þeir keyptu fyrir lítinn pening í sínu heimalandi og þeir voru m. a. fyrstu sumargestirnir sem komu að Hveravöllum í ár. Þeir Dieter Kizele og Georg Johna komu hingað í þeim fasta ásetningi að fara á mótorhjólum yfir hálendið og á leiðinni hiittu þeir tvo landa sína, Frank Backmann og Hans Jurgen Bunson sem voru á ferð á jafnvel enn fornfálegra farartæki en þeir sjálfir. Þeir Frank og Hans Jurgen höfðu ekki gert neina ferðaáætlun, en ákváðu að slást í för með þeim félögum og það á 14 ára gamalli Vespu sem þeir höfðu keypt fyrir 18 mörk.

Dieter Kizele og Georg Johna við hjól sín á Íslandi ásamt Frank Backmann og Hans Jurgen Bunson sem þeir hittu á þessari vespu á leið sinni.

Dieter Kizele var mestur enskumaðurinn í hópnum og hafði því orð fyrir þeim: “Við Georg ákváðum að fara í þessa ferð mest vegna þess að þetta er dálítið óvenjulegur íerðamáti og við vildum fara þær leiðir sem við þyrftum ekki að deila með túristahópum. Áhugann á Islandi fengum við frá vini okkar Halldóri Gíslasyni, sem við kynntumst þegar hann var við nám í Stuttgart. Halldór hlýtur að vera góður Islendingur þvi hann lýsti landi og þjóð svo fagurlega að við ákváðum að við YRÐUM einhvem veginn að heimsækja Ísland. Það eina sem mælti á móti því að við gerðum það var fjárskortur svo við byrjuðum á að bæta úr því. Við lögðum fyrir tvö mörk á dag í Íslandsferðarsjóð og hreyfðum þann sjóð ekki einu sinni í neyðartilvikum. Söfnunin tók eina átján mánuði en þeim tíma var vel varið því þá lágum við yfiir bókum og kortum og öllum þeim upplýsingum sem við gáturn orðið okkur úti um, um land og þjóð. Við komum því vel undirbúnir. Á söfnunartímanum svipuðumst við einnig um eftir heppilegum farkostum og það varð úr að við keyptum tvö 13 ára gömul mótorhjól af hernum, fyrir 100 mörk stykkið. Þau þurftu auðvitað töluverðrar viðgerðar við, en voru samt komin í gott stand þegar upp var lagt, enda lentum við aldrei í neinum vandræðum með þau.”

“Nú, svo rættist draumurinn loksins og við stóðum himinlifandi á hafnarbakkanum I Reykjavík. Líklega var mesta hættan á leiðinni sú að við keyrðum út af veginum, þvi landið ykkar er svo stórbrotið og fallegt að við vorum sifellt skimandi í kringum okkur. Við fórum Þingvallahring inn og að Gullfossi og Geysi og það var eins og að sjá gamla vini, þvi við vorum búnir að lesa um þetta, ekki sízt sögu Þingvalla. Mér er óhætt að fullyrða að maður nýtur þess helmingi betur að ferðast um ókunnugt land ef maður hefur kynnt sér það vel áður með bókum og kortum. Nú, við keyrðum svo inn Haukadalinn og komum brátt að fyrsta alvarlega vegartálmanum, Sandá. Okkur leizt satt að segja ekkert á hana til að byrja með. Þar hittum við fyrir þá Frank og Hans Jurgen en þeir ætluðu þá að snúa við þvi þeir þorðu ekki í ána. Okkur var iila við að gefast upp við svo búið og það varð úr að við svömliuðum yfir. Heldur var það óburðugur hópur sem náði bakkanum hinum megin, því við urðum að hálf draga mótorhjólin og allt draslið yfir og vorum rennandi blautir og hraktir þegar yfir kom. Það var nú líka óneitanlega nokkur óhugur í okkur meðan á bjástrinu stóð þvi áin var ansi straumhörð. Jæja, við héldum nú samt áfram eins og leið lá norður með Langjökli og þar til við komum að Hveravöllum. Það var ekki neinn lúxusvegur á þessari leið, en þótt við hossuðumst heill ósköp gekk þetta nokkuð greiðlega. Á Hveravöllum var okkur forkurnnarvel tekið og þar sem við vorum blautir, kaldir og hraktir vorum við fegnir að komast i skála Ferðafélagsins. Þeir eru mikiil guðsblessun fyrir ferðamenn þessir skálar.”

“Eftir að hafa hvílt okkur þarna héldum við áfram í norðurátt og að Varmahlíð og þaðan til Akureyrar. Eftir það fórum við eftir þjóðvegum í austurátt, til Mývatns, Egilsstaða, niður til Breiðdalsvikur og með ströndinni til Hafnar í Hornafirði. Við höfðum nokkrar áhyggjur af Breiðamerkursandi, en það reyndist óþarfi. Skeiðará var okkur að vísu gersamlega ófær, en við vorum ferjaðir yfir hana og þar eftir gekk allt eins og i sögu. Það eru komnar ágætar brýr á aðrar ár og við gátum farið nokkuð greitt yfir þótt við stönzuðum oft til að skoða okkur um. Nú, svo var draumurinn búinn og við vorum aftur komnir til Reykjavíkur. Það er kanmski ekki rétt að segja að draumurinn hafi ver ið búinn því við eigum áreiðanlega eftir að dreyma um þessa ferð og tala um hana, rifja upp það sem gerðist. Þetta hefur verið óglevmanlegt ævintýr. Það er kannski eigingjarnt, en ég vildi óska þess að Ísland yrði aldrei fjölfarið ferðamannaland. Ykkar ósnortna náttúra er svo dásamleg að það ætti eiginlega að geyma hana handa þeim sem vilja leggja eitthvað á sig til að sjá hana. Og ég get ekki skilið við þetta án þess að minnast á fólkið sem var í einu orði sagt dásamlegt. Það var sama hvar við komum okkum var tekið af vinsemd og hjálpfýsi sem ég efast um að fyrirfinnist annars staðar. Ísland mun héðan í frá verða okkur sem hilling eða fagur draumur.”

Fyrsta M250B hjólið kom árið 1960 og eru hjólin sem komu til Íslands af þeirri árgerð.

Maico var stofnað af tveimur bræðrum, Otto og William Maisch og byrjaði að framleiða reiðhjól árið 1926 en fyrsta mótorhjól merkisins kom árið 1934 og var 98 rsm. Stærra 118 rsm hjól fylgdi í kjölfarið en stríðið kom í veg fyrir frekar framleiðslu allt til ársins 1947, þegar fyrsta fullhannaða Maico hjólið kom með eigin vél. Það hét M125 og fljótlega kom M200 og bæði hjólin urðu vinsæl í Þýskalandi. Á sjötta áratugnum fjölgaði hjólum frá Maico og má þar nefna Maico Taifun, Maico Mobil sem var yfirbyggt og Maicoletta sem var með skúterlagi. Sala minnkaði þegar fór að líða á áratuginn en það sem bjargaði Maico gegnum þá kreppur var samningur við Vestur-þýska herinn, sem keypti 10.000 eintök af M250B byggt á Blizzard hjólinu. Sá samningur gerði meira en það og kom fótunum undir Maico sem framleiðanda torfærumótorhjóla, en Maico var eitt þekktasta merkið í heimi torfæruhjóla á áttunda áratugnum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *