Categories
Uncategorized

Norton 500 mótorhjólið

Norton mótorhjól voru kannski ekki algengustu bresku mótorhjólin hérlendis en í skráningum finnast vel innan við tugur slíkra hjóla frá því fyrir stríð. Meira virðist þó hafa komið af slíkum hjólum í stríðinu til landsins með sjómönnum og eflaust hafa einhver fyrirstríðshjólin komið þannig til landsins. Ekkert umboð var rekið fyrir Norton mótorhjólin en þau voru síðar seld hjá Fálkanum á seinni hluta aldarinnar.

Ingiberg Þórarinn Halldórsson á Norton 1937 hjóli uppúr seinni heimsstyrjöldinni. G-452 var í eigu Jakobs Indriðasonar úr Keflavík 1945 samkvæmt Bílabókinni. Athygli vekur að þetta Norton er með uppsveigðu pústi sem bendir til meiri sportútgáfu.

Norton er einna helst þekkt fyrir 500 rsm hjólið sem þótti bæði öflugt og áreiðanlegt, en það kom fram í ýmsum gerðum Norton mótorhjóla. Rekja má sögu  500 rsm eins strokks vélarinnar í Norton hjólunum til 1911 þegar 490 rsm hjól með 79 mm bori og 100 mm slagi keppti í Isle of Man Senior Class. Nákvæmlega þessi hlutföll mundu haldast óbreytt í meira en hálfa öld eða allt þar til árið 1963 þegar síðasta eins strokks 500 hjólið var framleitt hjá Norton.

Norton 18H frá 1933 með 500 rsm mótor.

Þótt að Norton hjólið hafi ekki unnið nein verðlaun fyrsta árið var reynslan notuð til endurbóta, en hönnuðurinn og keppandinn James Norton, betrumbætti vélina og tók þátt í Brooklands keppninni árið 1912 sem hann vann, ásamt því að setja þrjú heimsmet. Þess vegna kom Norton BS á markað árið 1913 en það stóð fyrir Brookland Special og gat það hjól keyrt sporöskjuna á Brookland með meðalhraðanum 115 km á klst. Eftir fyrri heimsstyrjöldina kom Norton 500 hjólið með þriggja gíra Sturmay-Archer gírkassa ásamt keðjudrifi. Norton hjólið fékk 16H nafnið árið 1921 þegar James Norton kynnti 500 mótorinn í breyttri og lægri grind, en H stóð einfaldlega fyrir Home. Einnig var hægt að kaupa 500 hjólið i annarri grind með meiri veghæð en það var kallað 17C þar sem C stóð fyrir Colonies eða nýlendur.

Norton WD 16H hermótorhjólið sem var algengasta hermótorhjól breska hersins.

Í framhaldi kreppunnar miklu árið 1929 varð Bretum fljótt ljóst að það stefndi í aðra heimsstyrjöld og þess vegna fór hermálaráðuneytið að undirbúa það, meðal annars með því að gera samninga um framleiðslu á mótorhjólum. Þar sem að Norton hafði orð á sér fyrir áreiðanleika var haft samband við Norton og beðið um hjól frá þeim í prófanir.

Mynd af íslensku hermótorhjóli í eigu Gunnars Péturssonar en það var frumsýnt nýlega á herminjasýningu í Mosfellsbæ.

Í stað þess að koma með nýustu útgáfurnar fór Norton þá leið að velja 16H hjólið með síðuventla mótor og breytti grindinni fyrir meiri veghæð. Einnig var framgafflinum breytt og settir sterkari gormar í hann og hjólið fékk grófari fótstig, farangursgrind, hraðamæli og rafmagnsflautu ásamt stærri og sterkari afturstandara. Skemmst er frá að segja að Norton hjólið kom best út í samanburði við hjól eins og BSA, Matchless, Triumph og Royal Enfiled meðal annars.

Þetta Norton WD 16H hermótorhjól er í uppgerð hjá Hinriki Steinssyni flugvirkja og hefur engu verið til sparað til að gera það sem upprunalegast. Það mun fara á stríðsminjasafnið á Reyðarfirði þegar það verður tilbúið.

Árið 1936 var Norton þegar búið að afhenda 900 WD 16 H mótorhjól en WD stendur fyrir War Department. Norton hjólin voru þau algengustu meðal breska hersins í stríðinu og alls framleidd í hátt í 100.000 eintökum.

R-1155 er líklega Norton 1937 en það var árið 1945 í eigu Gunnar Elíassonar.

Eins og annars staðar var Norton algengasta herhjólið á Íslandi í stríðinu. Hingað komu reyndar fyrst BSA hjól á hernámsdaginn en með tilkomu 47 herfylkisins og herlögreglusveitar sem var búin Norton hjólum fjölgaði þeim mikið hér. Engar tölur yfir fjölda þeirra hafa fundist en samkvæmt ljósmyndasafni ritstjóra fornhjol.is má finna 35 stykki Norton WD 16H á ljósmyndum.

Þessi mynd af herlögreglumönnum við æfingar á Norton mótorhjólum sínum er tekin í Daníelsslipp árið 1940.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *