Categories
Uncategorized

Innflutningur mótorhjóla 1905-2020

Það getur verið athyglisvert að skoða upplýsingar um innflutning mótorhjóla gegnum árin hér á Íslandi. Hann virðist hafa verið nokkuð sveiflukenndur svo ekki sé meira sagt enda höfðu utanaðkomandi aðstæður mikil áhrif á þessa hluti, ekki síst mótorhjólin sem voru munaðarvara. Skráningar virðast hafa verið á reiki til að byrja með og engin til fyrr en 1918, og í sumum tilfellum hef ég rekist á mótorhjól gegnum tíðina sem engin skráning hefur fundist á, jafnvel þótt vitað sé um sögu hjólsins í langan tíma.

Að minnsta kosti tvö þýsk Wanderer mótorhjól komu hingað fyrir 1918 en annað þeirra var svona V2 408 rsm hjól sem var tveggja strokka, 4ra hestafla hjól með tveimur gírum. Það var með vélarnúmerið 15843 og hefur því verið 1916 árgerð. Hitt mótorhjólið var með mun lægra vélarnúmeri og hefur því verið talsvert eldra.

Fyrsta mótorhjólið kom hingað 1905 og einu heimildirnar sem af því hafa fundist er frá því ári, svo líklegt má teljast að það hafi farið út aftur sama sumar. Ekkert er hægt að sjá í gögnum um innflutning mótorhjóla aftur fyrr en 1915 þegar eitt mótorhjól er skráð í hagskýrslum um utanríkisverslun. Þar er svo enginn innflutningur næstu tvö ár en allt í einu árið 1918 eru 21 mótorhjól flutt til landsins. Það stemmir þó ekki við fyrstu skráningu ökutækja sem fram fór 1918 en þá eru 36 mótorhjól á þeim lista þannig að ljóst má vera að þónokkur mótorhjól eru ekki í hagskýrslum.

Hvort að þetta Indian mótorhjól af árgerðinni 1914 hafi verið það sem flutt var inn árið 1915 skal ósagt látið en allavega eru til heimildir um nokkur mótorhjól fyrir 1918. Myndin er lituð.

Árið 1918 er merkilegt fyrir nokkrar sakir en þá getum við í fyrsta skipti bæði séð fjölda mótorhjóla og innflutningstölur. Algjör sprengja virðist hafa orðið 1918 en þá komu 21 mótorhjól til landsins eins og áður sagði. Eitt er þó sagt ónýtt og tvö seld til Danmerkur 1919. Næsta skráning fer fram árið 1922 og þá voru skráð 36 mótorhjól. Það segir þó ekki alla söguna því sagt er þar frá mótorhjólum sem seld höfðu verið erlendis eða voru orðin ónýt frá síðustu skráningu sem var árið 1918. Eitt ónefnt mótorhjól með númerið RE-42 mun hafa brunnið 1920 að Laugavegi 31. Eins mun annað ónefnt hjól, RE-58 hafa verið löngu eyðilagt eins og sagt er. Loks voru tíu hjól seld erlendis, eitt til Svíþjóðar og níu til Danmerkur.

Frá gullaldartímabilinu fyrir 1930. Lengst til vintri er Harley-Davidson og það situr Ólafur, búðarmaður hjá Kristjáni Siggeirssyni. Þvínæst koma tvö Triumph en það vintra situr Gunnar Jónasson í Stálhúsgögnum. RE-424 er Ariel 1927 og það situr Bergur Gíslason heildsali.

Árið 1925 eru aðeins 25 mótorhjól skráð á landinu en árið 1926 fer innflutningur að taka við sér og 13 ný mótorhjól eru flutt til landins. Áhuginn heldur áfram að vaxa og árið 1929 eru 34 mótorhól flutt hingað. Er svo komið að 1930 fer fjöldi þeirra yfir 100 enda eru 105 mótorhjól þá skráð í landinu. Haustið 1931 var bannaður innflutningur á óþarfa varningi vegna heimskreppunnar. Meðal þess sem bannað var að flytja inn voru mótorhjól og sést það vel á innflutningstölum en einnig í skráningum hjóla hérlendis. Talsvert var til dæmis flutt inn af Ariel, BSA, Triumph og Harley-Davidson kringum 1930 en eftir 1931 eru ekki fluttar inn nýjar árgerðir. Þau hjól sem til eru í dag frá 1930-40 eru líklega flutt inn í stríðinu eða rétt eftir það. Þessar reglur urðu enn harðari 1933 og voru í gildi til 1939.

Matchless mótorhjólin sem komu uppúr seinna stríði voru fjölmörg og segja sumir að allt að 50 stykki hafi komið hingað. Þau komu velflest ný í gegnum umboð Friðriks Bertelsen.
 

Árið 1946 virðist hafa orðið algjör sprenging í innflutningi mótorhjóla. Árið 1939 voru skráð bifhjól 101 á landinu öllu en 1946 urðu þau 546. Er þessi mikli fjöldi tilkominn vegna þess að íslenskir sjómenn silgdu mikið til Bretlands á þessum tíma með fisk, en þar var hægt að fá mótorhjól fallinna hermanna ódýrt á stríðsárunum. Í lok stríðsins voru svo herhjól seld bókstaflega í kippum, oft fimm saman og fengust þannig mjög ódýrt. Til eru dæmi um að þónokkur Royal Enfield herhjól hafi komið þannig hingað til lands, og mörg þeirra enduðu til dæmis á Vestfjörðum.

Royal Enfield mótorhjól voru keypt af breska hernum eftir stríð og voru mörg þeirra sem hér enduðu mótorhjól sem smíðuð voru fyrir breska flugherinn. Líklega hafa þau verið í betra ástandi en þau sem landherinn fékk. Engin fjögurra strokka Royal Enfield mótorhjól voru til svo að líklega hefur hér verið átt við fjórgengis, en þau voru líka til tvígengis á þessum tíma.

Um 1950 fækkar skráðum mótorhjólum um næstum helming og er engin sérstök skýring á því, nema að talsvert er um útflutning á hjólum í skráningarupplýsingum. Eru það þá í mörgum tilfellum útlendingar sem höfðu unnið hér sem flytja þau út. Eins má leiða getum að því að mörg þeirra hjóla sem enn voru á skrá frá því fyrir stríð voru óðum að týna tölunni. Um 1955 fer aðeins að bæta í tölurnar aftur en líklega má þakka það aukinni sölu nýrra hjóla en 1955 er talan komin uppí 332. Sú tala stendur þó í staðtil 1972 að mestu með aðeins nokkurra tuga mun.

Stóra bylgjan sem stundum hefur verið kölluð japanska innrásin hefst svo ekki hér svo heitið geti fyrr en árin 1973-4 þegar þess fer að gæta í fjölda skráðra mótorhjóla. Alls eru 343 mótorhjól í landinu 1973 en 420 árið 1974. Talan skríður svo yfir 500 árið 1978 og heldur svo smám saman að aukast allan níunda áratufinn þar til að 1000 hjóla markinu er náð árið 1989. Fljótlega eftir það hækkar talan áfram í 2000 hjól 1997 og er þar fram til um 2005 þegar talan fer að rísa ört. Er um helmingsfjölgun á mótorhjólum á næstu tveimur árum og fer talan yfir 8000 hjól árið 2007. Helst það í hendur við mikla aukningu á mótorhjólaprófum á þessum tíma sem fóru úr 300 í 1300 á örfáum árum. Árið 2020 er fjöldi bifhjóla kominn í 11.862 í árslok og er þá miðað við fjölda skráðra þungra og léttra bifhjóla. Má því vel áætla að 12.000 markinu verður náð áður en árið er á enda.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *