Það hafa ekki margir lagt það á sig að smíða mótorhjól frá grunni hér á Íslandi. Til eru þó dæmi um það og í sumum tilfellum fóru mótorhjólin jafnvel á skrá. Til eru skráningarupplýsingar um tvö mótorhjól sem að Fálkinn hf smíðaði uppúr reiðhjólum og setti á skrá. Fyrra hjólið var með númerið R-55 og var sett á skrá í lok október 1951. Vélarnúmer þess var RF2363 og eigandinn hét Jón Jónsson, til heimilis að Nökkvavogi 36.

Ágúst Guðmundsson, sem er frændi hans og einnig býr í Nökkvavogi 36, gat staðfest að Jón hefði einmitt átt reiðhjól með hjálparvél. Baldur B. Bjarnason, pabbi Jóns í B. Racing, sagði að hjólið hefði verið með mótorinn fyrir ofan framdekkið. Því miður voru engar myndir af gripnum til í fjölskyldualbúmunum. Það seinna var hjól sem var með tegundarheitið BTC Fálkinn og kom með Fuchs mótor, en það var sett á skrá haustið 1953. Sá sem eignaðist síðan hjólið hét Þorbergur Skúlason og bjó á Laugavegi 53.

Davíð Hemstock átti mörg mótorhjól í kringum 1960 en hann tók sig til og smíðaði mótorhjól á sjöunda áratugnum. Mótorhjólið var á litlum dekkjum og með Sachs mótor og fékk nafnið Traðreiðin. Þegar Matthías Hemstock, sonur hans hafði náð aldri til að keyra hjólið var það endursmíðað kringum 1980 og notaði hann hjólið nokkuð þar sem þau bjuggu í Garðabænum til að fara til vinnu sinnar.. Kom fyrir að lögreglan hefði af honum afskipti á hjólinu en sendi hann jafnan heim á gripnum aftur. Traðreiðin er ennþá til í því ástandi sem það var um 1980.

Í Vísi birtist í nóvember 1975 grein um Þingeying sem smíðað hafði eigið mótorhjól. Kappinn heitir Eiður Jónsson frá Árteigi í Kinn, og gat staðfest í samtali að leyfar hjólsins væru enn til við Skjálfandafljót. Hjólið var með jeppahjólbarða og á bílfelgum en teinarnir voru úr steypustyrktarjárni. Mótorinn var frá Briggs & Stratton og skilaði aðeins 3 hestöflum og drifið út í afturdekk var í gegnum vatnskassareim. Eiður kvartaði líka yfir krafleysi í greininni og sagðist þurfa að fá sér stærri mótor. Eiður smíðaði sjálfur grindina en hjólið var ekki sett á skrá, heldur notað sem leiktæki kringum bæinn.
