Categories
Uncategorized

Mecum mótorhjólauppboðið

Í lok janúar fer fram eitt stærsta mótorhjólauppboð ár hvert, sem er Mecum uppboðið í Las Vegas. Fjöldi fágætra mótorhjóla var þar á uppboði og má þar nefna hjól eins og 1908 árgerð Harley-Davidson, BMW R32 1925, Henderson C-módel 1914, Henderson 1916, 1938 árgerð Vincent HRD og margt fleira. Einnig var talsvert af nýrri mótorhjólum til sölu og mörg ansi sérstök, eins og við komum að síðar í greininni.

Hér má sjá Z1 900 1973 mótorhjól Mike Konopacki um það bil að fara undir hamarinn. Mynd: Youtube

Meðal hjóla sem fóru fyrir metfé á uppboðinu var Kawasaki Z1 900 frá 1973, sem var fyrsta árgerð þessa mótorhjóls. Sá sem átti hjólið og hafði gert það upp héitir Mike Konopacki og þekktur kvartmílukeppandi í Bandaríkjunum. Hann var með sex mótorhjól á uppboðinu og hafði gert sér vonir um að fá 3,5 milljónir fyrir Z1 hjólið. Hann var líka með óaðfinnanleg KZ900 1976 og Z1R 1978 sem fóru fyrst undir hamarinn, en honum til nokkurra vonbrigða fóru þau bara á 1,7 og 2 milljónir. Eftir hádegi var komið að Z1 hjólinu og Mike hafði áhyggjur að það myndi ekki ná því marki sem hann vildi ná. Annað átti þó eftir að koma í ljós því að boðin streymdu inn og fljótlega var það komið upp í 3,5 milljónir. Þá var eins og skipt hafi verið um gír og áfram héldu boðin að koma í hjólið, þar til það var slegið fyrir hæstu upphæð sem fengist hefur fyrir hjól af þessari gerð, eða litlar 7,1 milljón króna! Mike fór strax á barinn og pantaði sér einn Crown Royal til að halda uppá söluna. Hann hafði líka frekari ástæðu til að fagna síðar, því að tvö önnur Z1 hjól frá honum voru boðin upp seinna um daginn, og fóru á 3,5 milljónir hvort, en þá voru 1974 og 5 árgerð.

Þetta óaðfinnanlega Harley-Davidson eins strokks frá 1908 var á uppboðinu en ári seinna komu fyrstu V2 hjólin frá þeim á markað. Mynd: Mecum

Á uppboðinu fóru mörg hjól yfir 15 milljónir króna og sum nálægt 20 milljónum. Það sem vakti þó kannski ekki síður athygli var þegar Aaron Loveless frá Kaliforníu kom með ansi skrýtið mótorhjól á uppboðið. Greinarhöfundur þekkir hann ágætlega og fylgdist með honum í nóvember þegar hann fann gripinn í gömlu flugskýli. Hjólið er í grunninn reiðhjól frá 1915 og kallast Areothrust, en það er lítill flugvélamótor sem er festur á bögglaberann sem knýr hjólið áfram. Aaron er með ástríðu fyrir öllu gömlu þótt hann sé ungur að árum og keppir meðal annars árlega í Cannonball rallinu á 100 ára gömlum mótorhjólum. Þegar kom að því að bjóða upp flugreiðhjólið hans fóru skrýtnir hlutir að gerast. Greinilegt var að margir vildu eignast gripinn og verðið klifraði hratt upp. Þegar hjólið var slegið hafði það farið fyrir 82.000 dollara, eða 11,7 milljónir króna og geri aðrir betur.

Areothrust hjól Aaron Loveless fór á 82.000 dollara og brutust þá út mikil fagnaðarlæti.
Alls þurfti fjóra daga til að bjóða öll mótorhjólin upp en hér má sjá hluta þeirra í einni sýningarhöllinni. Mynd: Harald Zechner

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *