Categories
Uncategorized

Myndir frá fyrstu mótorhjólakeppninni

Í bók minni „Þá riðu hetjur um héröð – 100 ára saga mótorhjólsins á Íslandi“ er frásögn breska hermannsins Ernest Walters af fyrstu mótorhjólakeppninni sem fram fór hérlendis svo vitað sé. Fór hún fram árið 1940 og er henni vel lýst, en eina myndin sem fylgdi greininni er mynd sem Ernest teiknaði sjálfur af sér að aka yfir á. Svo gerðist það að flugvirkinn Hinrik Steinsson, sem safnað hefur öllu sem tengist sögu styrjaldarinnar á Íslandi, fékk í hendur myndaalbúm frá Alabaster Force sem var innrásarlið Bretanna sem komu hingað í maí 1940. Hinrik keypti það af manni alla leið frá Ástralíu og í albúminu leyndust meðal annars tvær myndir frá þessari keppni sem hér er lýst.

Myndin er tekin við herskálahverfi í Reykjavík þaðan sem keppnin hófst en sjá má Esjuna í bakgrunni myndarinnar. Mynd © Hinrik Steinsson.

“Ef að ég hefði ekki fengið staðfestingu á langlífi og góðri afkomu frá lófalesara fyrir nokkru hefðu vinir mínir eflaust óttast um líf mitt í gær. Þá tók ég þátt í mótorhjólakeppni.

Orðið keppni í því samhengi er að vissu leyti úrelt. Það er náskylt orðinu þrekraun sem þetta er. Eins og allt annað í lífinu (skrýtið hvað ég er heimspekilegur í dag) fær maður úthlutað einhverju í byrjun, sem að aðrir reyna svo að taka af þér aftur. Ég hafði fengið 100 stigum úthlutað og uppgötvaði að samkvæmt reglum keppninnar, gæti ég þess vegna misst þau öll á fyrsta hálftímanum. Getuleysi mitt til dáða í keppnum sem þessum hafði gefið mér þykkan skráp, mér var svo sem alveg sama þótt ég tapaði einhvejum stigum. En ég ætlaði mér samt ekki að missa fleiri stig en ég þyrfti.

Byrjun keppninnar var eins og atriði úr bíómynd. Ekki var ský á himni og um allt var hjörð harnaðra ungra manna í þriggja manna hópum, klæddir í glæsilega einkennisbúninga, á hjólum sem búið var að númera í bak og fyrir, og vélargnýr þeirra fyllti loftið. Ég var eins og í bíómynd líka, Marx gamanmynd þar að segja. Það dó á vélinni hjá mér 30 sekúndum fyrir ræsingu og með frosinn svip á andlitinu ýtti ég hjólinu yfir rásmarkið og byrjaði að reyna að sparka því í gang. Það fór næstum strax í gang og titrandi á beinum rásaði ég upp á litla hæð. Það tók mig um tíu mínútur að ná aftur sæti mínu í keppninni.

Fyrsti leggurinn var auðveldur. Hann var á annars flokks íslenskum vegi, og þótt að það væri nóg til að fá hvaða mótorhjólaframleiðandan til að hvítna, þótti okkur það ekkert tiltökumál. Ég kom að fyrsta tímahliðinu á hárréttum tíma. Þaðan lá leið okkar á eitthvað sem ég get aðeins kallað vagnaslóð, því að enskt mál býður ekki upp á betra orð fyrir svona fyrirbæri. Þessi slóð lá að fyrsta vatnsbaðinu, litlum og fallegum læk sem að ég hefði stoppað við á annarri stundu og hent steinum í að gamni mínu.

Þetta var fyrsta áhorfendasvæðið og stór hópur fólks, sem ég hafði hingað til kallað vini mína, hafði safnast saman við annan bakkann til að horfa á skemmtunina. Ég gaf þeim enga slíka og slapp yfir án þess að vökna.. Því miður þurfti ég að aka strax yfir lækinn aftur, (mótorhjólakeppnir eru því miður oft á þennan veg) og þá ók ég á stóran hnullung. Hjólið slapp þó án skemmda sem betur fer.

Á næsta kafla leiðarinnar lenti ég svo í mýrarfeni. Sem betur fer hafði verið þurrt í veðri og hjólið sökk því aðeins upp að öxlum. Hópur af hlægjandi áhorfendum togaði mig upp úr. Eftir það lá leiðin, jafn vel og hún var merkt, inná ótroðið hálendið.

Mér finnst mjög erfitt að gefa einhverja nákvæma lýsingu á næsta hluta leiðarinnar. Auðvitað lá hún upp og niður til skiptis, við því var að búast. Ég bjóst hins vegar ekki við að þurfa að hoppa niður fjallshlíð, stökkva á milli hryggja og að þurfa að hafa mig allan við að hanga í hnakkinum. Ekki bjóst ég heldur við að feta kindastíg í fjallshlíð fyrir ofan stórt vatn, þar sem að ein vitlaus hreyfing hefði þýtt vísan dauða, og ef ekki þá langa göngu aftur til byggða. Svo var það grjótbeðið. Það hefur skrýtin áhrif á mótorhjól. Afturhjólið fer í allar aðrar áttir en framhjólið. Það eru til tvær aðferðir fyrir þann sem þarf að aka yfir svona grjótbeð. Að gefa í og reyna að halda jafnvæginu með fótunum ef með þarf, eða stíga af og leiða hjólið yfir. Ég reyndi báðar aðferðir og get ekki gert upp á milli þeirra. Þriðja leiðin er að stíga af baki og kveikja á eldspýtu ofan í bensíntankinum, en þá komum við aftur að göngunni löngu heim.

Þrátt fyrir þessar eldraunir komumst við alla leið að brekkuklifrinu. Engin mótorhjólakeppni er fullkomnuð nema þar sé almennilegt brekkuklifur, og slíkt hafði verið gert fyrir okkur. Slóðin lá til hliðar upp bratta grasbrekku og beygði síðan skyndilega til hægri upp á topp. Brekkuklifrið hafði líka dregið að stóran hóp áhorfenda og hróp þeirra, og stöku baul þegar einhver keppandi náði toppi brekkunnar, minnti mest á hrinsgleikahússstemmingu.

Þegar mig bar að hafði mest öll torfan flagnað ofan af svo að það sást alltof vel í steinana og leirinn fyrir neðan. Það er skrýtin staðreynd, en mótorhjóladekk á fullum snúningi, nær nánast engu gripi í blautum leir. Annars gekk hjólinu betur en mér, það náði upp tvo þriðju hluta brekkunnar á meðan að ég rúllaði aftur niður hana, næstum niður á botn. Ég held að það hafi verið sjóliði sem að kom því aftur í gang fyrir mig útkeyrðan, tíu mínútum seinna, en ég get þó ekki svarið fyrir það.

Eftir þetta var keppnin á auðum sjó svo að segja. Fimmtán kílómetrar af almennilegum vegi og hálftími til að keyra hann, auðvelt meira að segja á íslenskan mælikvarða. Auðvitað höfðu óvinir vorir, sem skipulagt höfðu keppnina hugsað fyrir því. Næst tók við annað vatnsbað öllu verra en það fyrra. Þetta var rúmlega hálfur meter á dýpt og fimmtán metrar á breidd. Aldrei hefði mér dottið í hug að ég myndi sjá fiska synda á milli fóta minna á mótorhjóli á ferð.

Teikning Ernest Walters sýnir hvernig honnum fannst að aka yfir íslenska bergvatnsá, með fiskana syndandi milli fóta hans.

Þarna var líka komið að leiðarlokum. Vélin drap á sér áður en að ég náði aftir landi og þegar búið var að draga hjólið á þurrt, lak það vatni alls staðar. Sem betur fer var vélvirki nærstaddur sem gat framkvæmt lítið kraftaverk og hvort sem þið trúið því eða ekki, komst hjólið aftur í gang. Aðal óþægindi mín voru þau að stígvél mín voru svo góð að það vatn sem komist hafði ofan í þau, átti enga útkomuleið. Fætur sem slíkir gleypa ekki í sig mikið vatn.

Semsagt, allir höfðu gaman af. Næsta keppni, ef ég hef eitthvað um það að segja, mun vera á milli yfirmanna, sem hver og einn þarf að reiða með sér liðsforingja. Og ég ætla að horfa á síðasta vatnsbaðið.”

Hjólin á myndinni eru K-M20 útgáfur sem voru framleiddar árið 1939 með 8 tommu Lucas DUI42 framljósi. Mynd © Hinrik Steinsson.

Seinni keppnin var haldin 27. júlí 1941 eins og kemur frá í stríðsdagbók bresku setuliðsstjórnarinnar, en þar segir: „Seinni þolaksturskeppni mótorhjóla var haldin í dag. Leiðin náði yfir 150 kílómetra vegalengd og náðí leiðin vestur og suður fyrir Þingvallavatn, að brúnni yfir Alvirðu og aftur til Reykjavíkur. Alls tóku 120 hjól þátt í 30 fjögurra manna liðum.“

BSA M20 hjólið var fyrst hannað sem herhjól árið 1936 og átti fyrst brösulega byrjun, en varð svo það mótorhjól sem breski herinn notaði mest í seinni heimsstyrjöldinni. Alls voru 126.000 eintök framleidd af þessu 500 rsm hjóli sem skilaði 13 hestöflum í gegnum 4ra gíra kassa. Vað M20 hjólinu mest hrósað fyrir áreiðanleika frekar en nokkuð annað, enda eru mörg eintök til enn þann dag í dag, og tvö uppgerð eintök eru til hér á Íslandi í herútfærslu.

“Í fyrra tók ég þátt í mótorhjóla þolaksturskeppni. Ég skráði mig í svipaða keppni í þessum mánuði, en tók þó ekki beinan þátt. Allt umstangið er þó þess vert að um það sé fjallað.

Sagan samanstendur að miklu leyti af spurningunni um íslenska vegi. Koma okkar til landsins hefur haft tvær afleiðeingar í för með sér á vegakerfið, vegirnir hafa orðið að breikka og þar af leiðandi hafa þeir versnað til muna. Vegagerð á Íslandi er af einföldustu gerð. Þegar vegur er breikkaður eru hlaðið torfi eða grjóti í kantana og síðan fyllt upp í með sandi og steinvölum og það síðan látið vera. Náttúran og umferð hersins mun síðan sjá um að þjappa þetta allt saman í nokkuð þétt yfirborð, sem þó eins og búast mátti við verður all margvíslegt.

Þar sem að enginn hafði slasast alvarlega í síðustu keppni, og aðeins þrjú hjól skemmst að ráði, fannst skipuleggjendum keppninnar í ár, sem ekki tóku þátt í keppninni, að keppnin í ár þyrfti að vera nokkur erfiðari. Þar af leiðandi hafði 140 kílómetra leið verið ákveðin, tveir þriðju hluti hennar á vegum en þriðjungur á slóðum. Það var aðeins einn stuttur kafli yfir ósnortið land, sem var miður fannst mér. Samkvæmt minni reynslu var stuttur sprettur yfir óskorið land hvíld frekar en áraun.

Ég skráði mig í lið ásamt þremur öðrum, herramanni frá háskólanum í Oxford, blaðamanni frá Glasgow og óbreyttum hermanni til fjögurra ára. Ég gerði strax ein mistök, mjög slæm mistök. Tveir okkar ákváðu að skoða leiðina í heild sinni daginn fyrir keppni. Ég er viss um að eina leiðin til að komast andlega í gegnum keppni sem þessa er að vita ekkert um hana fyrir fram. Þegar allt er tekið til greina skiptir andlegi þátturinn líklega mestu máli.

Við hófum könnunina um eftirmiðdaginn. Fyrsti leggurinn var eftir vegi sem minnti helst á bárujárn. Krumpurnar voru nógu djúpar og breiðar til að ómögulegt væri að keyra ofan á toppum þeirra, sama á hvaða hraða maður reyndi. Eina sem hægt var að gera var að hlusta á smellina í framdemparanum, skröltið í afturstandaranum og verkfærasettinu sem hafði allt losnað innan í verkfærahólfinu. Sem betur fer, eða ekki, eftir því hvernig litið er á það, er mannslíkaminn þannig hannaður að innyfli hans eru laus við svona skrölt þótt að þau séu að slást saman við hvort annað. Þetta getur þó haft þau áhrif að maður tekur ekki eftir neinu slæmu fyrr en að það er orðið of seint.

Eftir átta kílómetra akstur á bárunni beygðum við niður eftir öðrum vegi sem verið var að endurgera. Það þýðir að yfirborð dagsins í dag er ágætt, dagsins í gær sæmilegt og síðustu viku gjörsamlega ómögulegt. Þar sem að ekkert sagði okkur hvar dagamunurinn væri í veginum tók ferðin á sig nýjar og óþekktar hættur. Ofan á það bættist fjöldinn allur af íslenskum vörubílum á veginum. Hinn íslenski vörubílstjóri hefur enga tilfinningu fyrir öðrum vegfarendum, þótt hann stoppi kannski og aðstoði eftir að slys hefur átt sér stað. Eins og nærri mátti geta vorum við fegnastir því þegar við komum af þessum vegi út á venjulegan slóða.

Á þeirri stundu byrjaði að rigna. Ég get ekki sagt að það hafi skipt miklu máli, þar sem að slóðinn var þegar fullur af holum eftir polla. Það er svo skrýtið að þegar mótorhjóli er ekið ofan í poll skvettist vatnið fremur upp á við í staðinn fyrir hliðanna. Helsti ókosturinn við rigninguna er þó sá að hún lemur andlitið viðstöðulaust.

Slóðin var fremur auðveld til að byrja með. Yfirborðið var slétt og felld leðja svo að hvert fall eftir hliðarskrið var sársaukalaust. En svo tók landið að rísa og slóðin að liggja meðfram vatni, 30-40 metrum neðan við slóðina. Ef að einhver ók út af hérna átti hann það á hættu að hrapa beint ofan í vatnið eða bjarga sér með því að vefja sig utan um stein eða þvíumlíkt. Hér kom þó rigningin sér vel að einu leyti því að maður varð að keyra hálf blindandi vegna hennar.

Áfram hélt vegurinn eina tíu kílómetra og svo komum við inn í eldfjallalendi. Vegurinn lá eftir nokkuð sléttum sandi og til hliðar við hann lá næstum lóðréttur hraunveggurinn. Þannig ók maður í forundran í smástund eða þar til að hjólið skrikaði niður malarhrygg ofan í á. Áin var grunn og þegar hjólið lá á hliðinni sást vel í annan enda stýrisins. Við gátum ýtt hjólinu yfir en það var þrautin þyngri að þurrka blauta vélina í beljandi rigningu, en það tókst að lokum. Hinn möguleikinn hefði verið að bíða eftir trukknum daginn eftir, sem að ók á eftir keppendum til að hirða upp þá sem höfðu bilað. Þótt að dauðsföll vegna ofkælingar á sumrin séu fátíð, eru þau þó ekki óþekkt.

Næsti kafli lá yfir nokkra kílómetra af grjótbeði, kringlóttum steinum á stærð við hænuegg. Þegar ekið er yfir þess háttar yfirborð er gjörsamlega ómögulegt að ráða því hvert er farið. Eina ráðið er að fara yfir á talsverðum hraða, og vera hent til og frá milli kantanna í þeirri von um að þetta verði bráðum á enda. Það gerði það á endanum, með annarri á.

En það er svo sem óþarfi að rifja upp alla ferðina. Þó var skrýtið atvik þegar ég lá fastur með ökklann undir hjólinu og bensínið lak yfir mig allan, á meðan ég hugsaði um samtal sem við höfðum átt í hádeginu um hversu auðvelt það væri að brenna lifandi við þess háttar aðstæður. Það var einnig íslenskur bílstjóri sem að talaði ensku og spurði mig hvers vegna við stæðum í slíku. Og svo var það síðasti vegarkaflinn til baka með holu í hverjum meter og svart hraunið beggja megin vegarins. Það sagði sig sjálft að liðið okkar hafði takmarkaðan áhuga á að taka þátt í keppninni daginn eftir., Það hafði ég ekki heldur, eða eins og aðstoðarmaður minn sagði, það er hægt að hafa of gaman af hlutunum. Það var alveg hárrétt hjá honum.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *