Categories
Uncategorized

Mótorhjólið í mykjuhaugnum

Excelsior auglýsing frá fimmta áratugnum.

Algengasta mótorhjólategundin eftir stríð var ekki BSA eða Ariel heldur var það annað enskt mótorhjól að nafni Excelsior. Var það með lítilli 125 rsm Villiers tvígengisvél og árið 1947 var það algengasta mótorhjólið, en þá voru 83 stykki í landinu öllu. Voru þau ásamt tegundum eins og Francis Barnett, James og Norman skráð tvö hestöfl þannig að vel fram á fimmta áratuginn þurfti ekkert mótorhjólapróf á þau. Var Excelsior hjólið þriggja gíra og handskipt og gat náð um 75 km hraða í þriðja gír. Það kom með verkfæratösku og framljósi sem staðalbúnaði en hraðamælir var seldur sem aukahlutur. Aðalljósið fékk rafmagn frá magnetunni en stöðuljósið notaðist við 6 volta rafhlöðu sem komið var fyrir í ljósakúpunni.

Mynd af hjólinu meðan það var ennþá á háaloftinu í gamla bænum á Dvergstöðum.

Hólmgeir Karlsson hjá Bústólpa fyrir norðan á eitt slíkt hjól sem hann er búinn að eiga síðan að hann var 15 ára gamalt. Sagan af því hvernig hann og bróðir hans eignuðust það er nokkuð sérstök, en þeir keyptu það óséð svo ekki sé meira sagt. Hjólið lá semsagt grafið í fjóshlaðinu hjá Magna í Árgerði og stóð aðeins hluti af stýrinu uppúr. Borgðuðu þeir einhverja hundraðkalla fyrir hjólið, grófu það upp úr skítnum og fóru með það heim. Var mótorinn rifinn úr og hreinsaður til að koma hjólinu í gang, sem það tókst. Áttu þeir þó í talsverðu brasi við svinghjólskveikjuna, og svo þurftu þeir að búa til heddpakkningu úr hundskinni. Slíkar pakkningar eru aðallega til að nota við blöndunga eða olíudælur og entist hún því illa. Komust þeir þó á hjólinu í Hrafnagilsskóla sem var um 5 kílómetra leið. Þurfti þó að taka með sér auka heddpakkningu og lykla með í úlpuvasanum. Hólmgeir ætlar að eiga hjólið eins og það er og varðveita með ryðinu sem var á því þegar það var dregið upp úr jörðinni fyrir næstum hálfri öld síðan. Eru engar áætlanir um að selja gripinn svo að óhætt er að sleppa því að hringja í hann til að falast eftir því.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *