Categories
Uncategorized

Mótorhjóladagbækurnar Seinni hluti

Þessi mynd af Royal Enfield hjóli Jóns frá Helluvaði er líklega elsta litmynd af mótorhjóli á Íslandi. Myndin er tekin við Námaskarð. Mynd © Minjasafn Akureyrar.

Á dögunum birtum við fyrri hluta mótorhjóladagbóka Jóns Sigurgeirssonar frá Helluvaði í Mývatnssveit. Hér er komin seinni hluti þeirrar frásagnar þar sem segir frá ferð þeirra frænda um suðurlandið og svo ferðinni norður aftur, þar sem þeir þurftu að aka um hersetinn Hvalfjörð.

Næsta morgun var sólskin og besta veður. Ég smurði í alla koppa á hjólinu og eftir hádegismat héldum við Árni ferð okkar áfram austur í sveitir. Ýmiskonar hindranir bæði af opnum hitaveituskurðum og herbraggahverfum töfðu ferð okkar austur úr bænum, en það tókst þó og við ókum allar götur í Kolviðarhól. Þangað var staðarlegt heim að líta. Húsið þó í eyði væri, líktist konungshöll og umhverfið svo stórbrotið að ógleymanlegt má kalla og mun býlið hafa borið af flestum stórbýlum landsins meðan það var og hét. Á Kambabrún áðum við lengi og lásum á kort, til að finna markverða staði og til að taka myndir. Mér höfðu Kambar oft komið í hug, eftir að ég 12 ára strákhvolpur sá kvikmynd á Akureyri af konungskomu 1918. Bílalest og krókar í brattri og grýttri fjallshlíð voru mér í minni, en nú bar svo við að færri króka var að sjá á veginum niður Kamba. Við nánari athugun sást þó gamli mjói krókótti vegurinn rétt til hliðar við þjóðveginn. Þar ók kóngur og fylgdarlið árið 1918 í rykmekki á opnum bílum með framstandandi skyggni sem þóttu fínir þá.

Ég átti mjög góðan sjónauka, prísma 8 X 5 sem oft kom okkur að gagni í ferðinni. Hafði ég þá fyrir nokkru keypt hann á 500 kr af Fjalla-Bensa. Enskur ferðalangur, að nafni Freme, gaf Bensa kíkinn fyrir góða leiðsögumennsku í Grafarlönd. Öfunduðu margir mig af gripnum.

Talsvert fróðari um bæi og örnefni í sjónmáli af Kambabrún, héldum við áfram til Selfoss. Þar gengum við aftur til baka yfir Ölfuárbrúna sem á sinni tíð þótti undursamlegt mannvirki og komst á fyrir framtak og hugvit bónda norðan úr Fnjóskadal. Eftir smá innkaup í kaupfélagsbúð og bensínáfyllingu heldum við að Laugardælum. Þann stað hafði ég oft heyrt faðir minn nefna og Eggert bónda þar, sem geymdi hesta þeirra þingeysku bænda er riðu Sprengisand 1918 og dvöldu nokkra daga í Reykjavík.

Hjá Hraungerði skiptast leiðir er fara skal uppí Hreppa og Þjórsárdal, við ókum Suðurlandsbrautina að Þjórsárbrú. Ljótara vatnsfall höfðum við aldrei augum litið, en Þjórsá var þá. Austan ár er stórhýsið Þjórsártún, samkomustaður Rangvellinga. Langar þættu þær bæjarleiðir í Eyjafjarðar- eða Þingeyjarsýslum sem við þeyrstum um í fjórða gír, og tókum framúr öllum bílum, austur yfir holt og mýrardrög þar til við komum að vestari Rangá. Þar stóðu nokkur hús austan ár við veglega járnbitabrú og hægðum við ferðina og tókum fólk tali. Mér var sýndur bær skammt upp með ánni sem heitir Helluvað. Fleiri en tvö Helluvöð eru ekki til á landinu, er ég best veit. Ég ætlaði að nýta mér heimboð í Odda til séra Erlendar sem ég hafði kynnst í Reykjavík er ég var heimagangur hjá Björgu systur hans, en hann var sagður á ferðalagi fyrir norðan, svo við slepptum Oddanum.

Jón frá Helluvaði á ferðalagi á Royal Enfield hjóli sínu, líklega einhverstaðar fyrir norðan.

Veður var kyrrt en lágskýjað og duldust því sjónum okkar toppar Suðurlandsjökla, en margs urðum við vísari eftir að flengjast um endilanga Rangárvelli og Fljótshlíðina. Við gengum um heimaslóðir Gunnars á Hlíðarenda og mæltum til hans við hauginn, en fengum ekki áheyrn. Austast í hlíðinni tókum við þá ákvörðun að snúa til baka, það var slegið í og náðum við í seinna lagi í kvöldmatinn á Selfossi. Afgreiðslufólk var önugt við okkur og stirt en þjónustaði hermenn Bretaveldis af því meiri alúð. Við biðum eftir að fá smurða fransbrauðssneið og mjólk á 7 kr fyrir hvorn okkar, skelltum okkur svo á bak og hugðumst finna þægilegan næsturstað í Grafningnum. Það var unaðslegt að aka um skógi vaxna hraunhóla, svalur kvöldblærinn bar að vitum manns sterka gróðurangan. Við komum óaðvitandi að Kerinu í Grímsnesi sem á sína líka í Mývatnssveit. Við gengum niður að vatninu í botni gígsins, sem er tært og sýndist botnlaust. Leiðin lá áfram um mýrarfláka, og hvergi sást þurr blettur að tjalda á eða hreinn lækur að drekka úr, og þegar ég sá hvíta gufustróka vissum við að þar mundi Laugarvatn vera og þar vísa gistingu að fá. Við fegnum inní skála sem heitir Björk. Við vorum orðnir þreyttir og sváfum því vel.

Næsta morgun skoðuðum við það markverðasta á staðnum, keyptum graut, smurt brauð og kaffi og héldum svo til baka yfir Brúarár í Skálholt, þetta frægasta höfuðból landsins á sínum tíma. Í túninu stóð hópur hrossa og skaut höm í regnsuddann. Kirkja, útihúsin og umhverfið bar litla reisn frekar en hrossin, og virtist allt þar vera á sömu bókina lært. Við skoðuðum staðhætti við Tungnafljót vegna sorglegs viðburðar, er bíll fór út af veginum í krappri beygju við brúna og hvarf í hyldýpið og tvær konur létu lífið.

Í eina skiptið í ferðinni kollkeyrðum við Árni á leiðinni upp að Gullfossi, en það kom þó ekki að sök, því svo illur var vegurinn, grýttur og laus, að hraðinn var í lágmarki. Við fossinn var fjöldi einkennisklæddra hermanna og sjóliða. Aflétt var regnsudda og veður hið besta og litskærir regnbogastúfar gægðust til himins upp úr gljúfrinu. Okkur fannst staðurinn svo undurfallegur að því munum við síst gleyma. Við héldum svo ferð okkar áfram til Geysis, en komum að honum aldauðum að á landafullri skálinni var ekki minnstu loftbólu að sjá. Ótal göt á jarðskorpunni ældu upp úr sér heitu vatni svo vall og kraumaði en annað eins höfðum við Árni séð heima, á Hverarönd, en þar kveður enn meira að skvettum og gusugangi, en hjá þessum heimsins fræga goshver.

Við höfðum séð margt merkilegt í ferðinni, en áttum þó stóru stundina eftir, en það var að skoða Þingvelli við Öxará. Okkur datt í hug að stytta okkur leiðina með því að fara Lyngdalsheiði, en var eindregið ráðið frá því, svo afleitan kváðu menn veginn vera. Það varð að taka því og aka niður að Sogi og hálfhring kringum Þingvallavatn. Ókum við greitt þráðbeina braut og eyðum nýtt og nýtt útsýni af hverju leiti. Illt var að lenda á eftir hægfara vörubílum og vera í moldroki og reykjarsvælu. Þeir heyrðu ekki okkar vesæla flautuvæl svo við hlutum að reyna að smjúga frammúr hvenær sem nokkurt færi gafst. Við fórum framhjá ótal sumarbústöðum vellríkra Reykvíkinga, sem fundið höfðu skrauthýsum sínum stað meðfram ánni og vatninu í mývarginum. Okkur þótti sunnlenski vargurinn býsna aðgangshraður. Mun hann líklega hafa ráðist á okkur í hefndarskyni fyrir þann flugnafjölda sem við höfðum étið og deytt í okkar heimabyggð. Margt svipaði þarna til heimkynna okkar við Mývatn. Ég hafði einu sinni komið til Þingvalla að sunna frá, en Árni hafði aldrei fyrr litið þann fræga stað.

Af austurbarmi Hrafnagjár sáum við í fjarska hvíta skellu í svörtum grunni. Fornmenn veittu Öxará niður í Almannagjá til að prýða þingstaðinn, og hagræða fyrir sér að drekkja konum, samanber Drekkingarhyl. Margir voru og þeir, sem urðu að spássera í fylgd presta og preláta, sín síðustu spor upp að Öxarárfossi, þar sem hengdir voru snærisþjófar og ólánsmenn. Á sólheiðum degi á Þingvöllum gleymast allar ljótar sögur og svo varð um okkur Árna að minnsta kosti. Við gengum hugfangnir um staðinn, lásum í búðarrústir og tókum myndir. Af hyggjuviti settum við hið forna Lögberg á milli gjánna Flosa og Nikulásar, en ekki á lægri barm Almannagjár, sem þó er sett þar niður með merki og fánastöng. Mótorskellir bermáluðu hátt í veggjum Almannagjár er við kvöddum þingstaðinn og þeystum upp Kárastaðastíg.

Þegar til Reykjavíkur kom reyndist mér tafsamt að aka vestur úr bænum vegna hitaveituskurðanna en hafnaði þó á Sólvallagötu rétt um kvöldmatarleytið. Þökkuðum við okkar sæla og Royal Enfield, hvað ferðin hafði tekist vel í alla staði. Daginn eftir héldum við kyrru fyrir í Reykjavík, einkum vegna tilmæla frændfólks Árna, svo hann fengi að sjá sig um í höfuðstaðnum. Vilhjálmur Þ. Gíslason fór með okkur á öll söfn sem til náðist. Vegna loftárásarhættu hafði það markverðasta af náttúru- og forngripum verið flutt úr bænum til öryggis, út í sveit til geymslu meðan stríðið stæði yfir og var því færra að skoða en ella. Árni Kristinsson bauð frænda sínum í bíó en ég heimsótti frændkonu mína á Öldugötu, Stínu frá Skútustöðum og mann hennar Sigurð Halldórsson. Um kvöldið vorum við hjá frú Auði í Miðstræti 3, ömmu Árna og dætrum hennar í vinafögnuði fram á nótt. Ég talaði við afgreiðslu flóabátsins og bað um far til baka. Var mér sagt að mæta við skipshlið kl 7 að morgni.

Næsta morgun var veður glóbjart og hlýtt. Við kvöddum vini og vandamenn og mættum á bryggjuna á tilsettum tíma. Vegna háttvísi biðum við þess nokkra stunda að verða vísað um borð með mótorhjólið, og er ég spurðist fyrir um það, var mér í styttingi svarað að hjólið yrði ekki tekið um borð. Stafsmenn við skipið höfðu ekki mætt til vinnu sinnar og gremja útaf því var látin bitna á okkur. Lögregluþjónn sem hlýddi á samtalið, bauðst til að hjálpa til að koma hjólinu um borð en þá var það of seint, skipið fór og við stóðum bölvandi á bryggjunni.

Jón frá Helluvaði við Royal Enfiled Bullet hjólið við Námaskarð.

Engra úrkosta var völ, annarra en að fara landleiðina kringum Hvalfjörð, þó sögur gengu um að saklausir ferðamenn væru teknir þar til fanga af hermönnum og látnir sæta afarkostum. Við fórum á bensínsölu og fylltum tankinn. Einnig leituðum að lausum skrúfum á hjólinu, því endalaust voru þær að losna vegna hristingsins. Síðan þeystum við af stað um Kjalarnes og Kjós, en allstaðar á leið okkar voru hermannabraggar. Við Hvammsvík vorum við stoppaðir af hópi hermanna, gráum fyrir járnum og fóru þar fram ítarlegar yfirheyrslur s.s. hversvegna við værum þar á ferð og hvað við hefðum í farangri okkar, sem var þónokkur, sem fyrr var sagt. Við máttum þó halda áfram ef við hlýddum nákvæmlega þeim reglum er okkur voru settar. Það var stranglega bannað að stansa, og tvær myndavélar sem við höfðum, voru vafðar með límbandi og innsiglaðar og lagt blátt bann við að hreyfa þær. Það yrði fylgst með okkur. Símþráður lá alla leið í vegarkantinum, og með stuttu millibili stóðu verðir með símtæki við eyrað og hvesstu á okkur sjónir. „Two men on bicycle passed“ heyrðum við þá tauta í símtólið. Túnið í Hvítanesi var eins og iðandi borg með hús og stræti, og eins var við Þyril, hervirki bæði á landi og sjó og sívalir tankar hálfgrafnir í jörð, upp um allar brekkur.

Ekki var hjá því komst að stansa af bráðri þörf á svo langri leið og kostaði það rex og tortryggni en við gáfum greið svör um að við höfðum leyft okkur að pissa á bak við klett og það var tekið gilt. Loks tók þessi Hvalfjarðarhergæsla enda og við skelltum okkur upp í Svínadal og yfir Dragháls. Ekið var á fullu norður sveitir og upp Langadal í Æsustaði og gist þar í vinagarði. Um kvöldið spilaði prestfrúin á orgel og sungið var fram á nótt. Ég fann í heimilisbragnum á Æsustöðum og gömlu sönglögunum, sældarlíf æskudaganna leika um mig.

Næsti dagur var almennur hrossasmölunardagur til rétta í Langadal. Marka þurfti folöld, klippa og snyrta stóðið áður en það var rekið til fjalls. Ég fór með presti í slaginn, uppdubbaður í vinnuföt af honum, er voru mér helst til of þröng. „Hrossarag“ eins og það kallaðist þar í sveit var mér óþekkt þótt mörg búsýslustörf hefði ég lagt hönd á. Á réttina kom mikil fjöldi hrossa og þótti mér í grófara lagi að þeim farið, einkum trippum og folöldum. Til að handsama hrossin var togað í tögl, föx og eyru af svo mörgum mönnum sem að skepnunni komust ef þurfa þótti. Klippt var það sem náðist af hrosshári með góðu móti, hitt látið vera og það nýjasta af stofninum markað. Hávaðalaust fór þetta ekki fram. Lítið hafði prestur sig í frammi í þessum hráskinnaleik enda skorti þarna ekki þaulvana stóðréttarmenn sem hvergi drógu af sér.

Við Árni gistum næstu nótt á Æsustöðum en héldum svo í einum spretti til Akureryrar.

Mótorhjóladagbækur Jóns frá Helluvaði innihalda fleiri frásagnir, meðal annars af fyrstu tveimur mótorhjólum hans sem voru af Harley-Davidson gerð. Þær frásagnir bíða þó betri tíma og verða birtar í bók um sögu Harley-Davidson mótorhjóla, sem nú er í smíðum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *