Categories
Uncategorized

New Hudson mótorhjólin

Á Íslandi voru allavega til tvö New Hudson mótorhjól á millistríðsárunum. Voru þau bæði frekar forn en þau voru 1920 og 1924 árgerð. Samkvæmt skráningarupplýsingum virðist yngra hjólið hafa verið flutt inn frá Grimsby 12. apríl 1930. Það er fyrst í eigu Bjarna Guðmundssonar frá Túni fyrstu þrjú árin og bar þá númerið ÁR-46. Árið 1933 er það sagt bilað og það er selt Hannesi Gíslasyni, Reykholti Laufásvegi í nóvember það ár. Fær það þá númerið RE-465 en Hannes er allavega skráður fyrir því 1935. 1936 er það skráð á Marís Sigurðsson frá Litlu Brekku en hann virðist selja það 1937 Kristjáni Gíslasyni, Sogabletti 10 sem selur það Óskari Benediktssyni, Bragagötu 33 og fær það þá númerið R-1102 en hjólið er afskráð 1. júlí 1938. Hjólið birtist aftur á skrá fyrir austan fjall 1943 þegar Árni Gunnar Pálsson frá Litlu-Reykjum er skráður fyrir því, en það fer af skrá 1944. Hann er svo skráður fyrir því í Bílabókinni 1945 og er það síðasta sem við vitum um hjólið.

Hjólið ÁR-46 situr Bjarni Guðmundsson í Túni en hann átti hjólið frá 1930-33. Mynd ©
Héraðsskjalasafn Árnesinga.

Eldra hjólið var með skráningarnúmerið RE-392 og fór á skrá 19. mars 1927. Vélarnúmer þess var 20J1375 sem bendir til þess að um 1920 árgerð sé að ræða. Það var fyrst skráð á Friðrik K Þorgeirsson, Njálsgötu 47 en 16. ágúst 1928 er tilkynnt með bréfi að bifhjól þetta hafi verið selt Konráði Guðmundssyni, Óðinsgötu 13. Það er sagt ónýtt frá 16. júní 1930 og númeri þá skilað.

Hjólið á myndinni er af New Hudson 350 síðuventla eins og hjólinu sem hingað kom. Þetta hjól er 1924 árgerð og fannst í Svíþjóð um miðjan sjötta áratuginn í kössum. Það var gert upp af Alf Laver og selt Esko Rautanen sem notaði það talsvert. Það var selt á uppboði í Las Vegas árið 2019 og metið á 22.000 dollara, enda er New Hudson hjólin orðin fágæt. Hjólið var áður hluti af mótorhjólasafni í Stokkhólmi.

Þriðja New Hudson hjólið var skrá 3,5 hestöfl og var 1940 árgerð. Það hlýtur þó að vera eldra þar sem að New Hudson hætti framleiðslu á mótorhjólum vegna kreppunnar árið 1933 og byrjaði ekki fyrr en 1940 aftur, og þá aðeins á 98 rsm hjólum með Villiers vélum. Alveg er fræðilegur möguleiki að hjólið frá 1924 hafi verið endurskráð, allavega passar hestaflatalan við stærð vélarinnar. Það fór á skrá í Reykjavík 6. ágúst 1952 en hafði áður verið á númerinu B-22. Það var fyrst skrá í Reykjavík á nafn Ejvel Christiansen frá N-Gade í Kaupmannahöfn með númerið R-1150. Það er svo selt 11. desember 1953 Jóni Ólafssyni, Skipholti 27 og númerið lögð niður. New Hudson mótorhjólið R-3944 birtist í Bílabókinni 1956 og mjög líklegt má telja að um sama hjól sé að ræða. Það var þá skráð á Pétur Jónsson, Samtúni 10. Loks var svo eitt New Hudson mótorhjól til af 1946 árgerð, en þá átti um tíma Hilmar Lúthersson, Snigill nr. 1. Það var aðeins 98 rsm og þurfti ekki að skrá og hefur það líklega aldrei farið á skrá.

Þessi síða úr bækling fyrir New Hudson mótorhjólin sýnir tækniupplýsingar og einnig sést að um Model 83 er að ræða, þar sem íslenska hjólið var hvorki með ljósi né rafmagnsflautu.

New Hudson mótorhjólin frá fyrri hluta þriðja áratugarins voru í stíl tíðarandans með eins strokks toppventla eða síðuventla vélum sem voru berandi hluti grindarinnar. Gafflarnir voru Druid gormagafflar og tankurinn milli efri grindarbita og olíutankurinn milli hnakksúlunnar og afturbrettis. Þetta þóttu falleg og sportleg hjól með gott orðspor. Hjól Bjarna í Túni sem myndin sem fylgir þessari grein er af, bar vélarnúmerið L7222 en það hefur líkast til verið 1924 árgerð. L þýddi að um 350 rsm hjól var að ræða og auðvelt er að sjá að hjólið hefur verið síðuventla.

Hilmar Lúthersson situr hér New Hudson nöðruna sína sem hann gerði upp fyrir nokkrum árum. Mynd © Tryggvi Sigurðsson.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *