Á dögunum fann greinarhöfundur bifhjólaskráningar frá því á sjötta áratugnum yfir hjól sem voru skráð með F-númeri en það eru ökutæki frá Siglufirði og nágrenni. Þar var mikið um skellinöðrur á þeim tíma og voru langflestar þeirra af NSU gerð eða um 30 talsins þegar mest var. NSU skellinöðrurnar voru reyndar vinsælar víðar og voru mest seldu mótorhjól í Evrópu á sínum tíma. Hérlendis var það Fálkinn sem flutti þær inn og seldi. Allavega tvær slíkar hafa varðveist á Siglufirði, en það eru hjól Árna Magnússonar sem bar númerið F-25 og Stefáns Kristjánssonar sem var með númerið F-13 og varðveitt er á Síldarminjasafninu.
Leiða má getum að því að síldarævintýrið hafi haft sitt um kaupgetu ungra manna á staðnum því þetta er óvenjuhátt hlutfall sama ökutækis á einum stað. Guðmundur Pálsson eða Gvendur í Bænum, átti einstaklega fallegt NSU hjól, Benedikt Sigurðsson kennari var kallaður Benni á beyglunni, en hann var á Viktoria skellinöðru. Á þessum tíma gekk það á fyrir sunnan að mikið var um þjófnaði á NSU skellinöðrum og varð það að svo mikilli plágu að blöðin fjölluðu um það, enda hjólunum stolið í stundum tveimur í einu. Svo merkilegt sem það er voru tvö þessara hjóla frá Siglufirði en eigendur þeirra höfðu farið með þau til Reykjavíkur í sumarferð.
Fyrra hjólinu var stolið í Reykjavík vorið 1957, en í Morgunblaðinu 7. maí birtist grein með fyrirsögninni “Skellinöðru stolið. Siglfirðingur sem í vetur hefur verið við nám hér í Reykjavík, varð fyrir því óhappi fyrir nokkru að „skellinöðrunni“ hans, F-18, var stolið. Er þetta nýleg NSU-skellinaðra grá að lit, og hefur ekkert til farartækisins spurzt síðan. Var því stolið fyrir utan húsið Mávahlíð 1, en þar stóð það læst. Eru það tilmæli rannsóknarlögreglunnar til þeirra er kynnu að hafa séð skellinöðru þessa að gera þegar viðvart.” Sá sem var skráður fyrir hjólinu hét Magnús Pálsson.
Skellinöðruæðið hélt áfram þótt Nusurnar hefðu horfið ein af annarri en Simson hjólin voru einnig algeng á sjöunda áratugnum áður en að Honda skellinöðrurnar komu til sögunnar. Vinsældir þess merkis héldust alveg langt út níunda áratuginn með hjólum eins og Honda MT og MB, eins og sjá má í skráningargögnum. En það er önnur saga.