Categories
Uncategorized

Nusurnar á Sigló

Inni á Síldarminjasafninu á Siglufirði má meðal annarra muna sjá þessa NSU skellinöðru frá hápunkti síldarævintýrisins.

Á dögunum fann greinarhöfundur bifhjólaskráningar frá því á sjötta áratugnum yfir hjól sem voru skráð með F-númeri en það eru ökutæki frá Siglufirði og nágrenni. Þar var mikið um skellinöðrur á þeim tíma og voru langflestar þeirra af NSU gerð eða um 30 talsins þegar mest var. NSU skellinöðrurnar voru reyndar vinsælar víðar og voru mest seldu mótorhjól í Evrópu á sínum tíma. Hérlendis var það Fálkinn sem flutti þær inn og seldi. Allavega tvær slíkar hafa varðveist á Siglufirði, en það eru hjól Árna Magnússonar sem bar númerið F-25 og Stefáns Kristjánssonar sem var með númerið F-13 og varðveitt er á Síldarminjasafninu.

Árni Filippus Magnússon með F-6 en það var í eigu Vals Jóhannssonar þegar það kom nýtt árið 1956. Hjólið er af gerðinni NSU Quickly. Myndin er frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Leiða má getum að því að síldarævintýrið hafi haft sitt um kaupgetu ungra manna á staðnum því þetta er óvenjuhátt hlutfall sama ökutækis á einum stað. Guðmundur Pálsson eða Gvendur í Bænum, átti einstaklega fallegt NSU hjól, Benedikt Sigurðsson kennari var kallaður Benni á beyglunni, en hann var á Viktoria skellinöðru. Á þessum tíma gekk það á fyrir sunnan að mikið var um þjófnaði á NSU skellinöðrum og varð það að svo mikilli plágu að blöðin fjölluðu um það, enda hjólunum stolið í stundum tveimur í einu. Svo merkilegt sem það er voru tvö þessara hjóla frá Siglufirði en eigendur þeirra höfðu farið með þau til Reykjavíkur í sumarferð.

Magnús Pálsson á NSU skellinöðrunni sem stolið var fyrir sunnan, á Eyrargötunni á Siglufirði en þessi mynd var birt á vefsíðunni trolli.is. Þar stóð líka að samkvæmt nokkuð áreiðanlegum heimildum að það hefði verið hægt að panta svona hjól hjá Fálkanum í Reykjavík 1957, fyrir aðeins 5.550 kr. Myndin er frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Fyrra hjólinu var stolið í Reykjavík vorið 1957, en í Morgunblaðinu 7. maí birtist grein með fyrirsögninni “Skellinöðru stolið. Siglfirðingur sem í vetur hefur verið við nám hér í Reykjavík, varð fyrir því óhappi fyrir nokkru að „skellinöðrunni“ hans, F-18, var stolið. Er þetta nýleg NSU-skellinaðra grá að lit, og hefur ekkert til farartækisins spurzt síðan. Var því stolið fyrir utan húsið Mávahlíð 1, en þar stóð það læst. Eru það tilmæli rannsóknarlögreglunnar til þeirra er kynnu að hafa séð skellinöðru þessa að gera þegar viðvart.” Sá sem var skráður fyrir hjólinu hét Magnús Pálsson.

Í Morgunblaðinu þann 9. Febrúar er sagt frá stuldi á skellinöðrunni F-35.

Skellinöðruæðið hélt áfram þótt Nusurnar hefðu horfið ein af annarri en Simson hjólin voru einnig algeng á sjöunda áratugnum áður en að Honda skellinöðrurnar komu til sögunnar. Vinsældir þess merkis héldust alveg langt út níunda áratuginn með hjólum eins og Honda MT og MB, eins og sjá má í skráningargögnum. En það er önnur saga.

Algengustu gerðirnar á NSU Quickly var svokölluð N gerð eins og hér sést frá 1957 og mest var selt af hérlendis. Þjappan í mótornum var aðeins 5,5:1 og hestöflin 1,4 við 4.600 snúninga á mínútu. Gírkassinn var tveggja gíra og var hjólinu skipt í stýri með því að hreyfa til handfangið um leið og kúplað var með sömu hendi. Alls voru 539.793 NSU Quickly N framleiddar á árunum 1953-1962.
Greinarhöfundur er þriðji eigandi þessarar Kreidler K50 1955 skellinöðru sem kom ný til Siglufjarðar og fékk númerið F-9.. Sá sem átti hana fyrst hét Baldur Ólafsson en hann seldi hana suður í sumarlok 1957. Lárus Guðgeirsson flugmaður keypti hana og notaði við sendlastörf næstu þrjú árin en næstu sextíu árin fékk hún svo að kúra í geymslunni hans. Svona leit gripurinn út þegar hann kom aftur undir bert loft árið 2020.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *