Birgir Jónsson er oftast kallaður Biggi breti og hann ber svo sannarlega nafn með rentu. Hann er með sex glæsileg bresk mótorhjól í safni sínu og eru þau öll af sitt hvorri gerðinni. Það „nýjasta“ í flotanum er jafnframt það elsta en í vetur lauk hann við uppgerð á Panther M100 frá 1938.
Biggi átti hjólið upp úr 1970 og hafði breytt því í hippa þegar það gaus í Eyjum. Þá var hjólinu stolið og endaði það í Reykjavík. Þar fann hann Símon Waagfjörð hjólið á bak við hús á Þórsgötunni og sagði Bigga frá því. Biggi ákvað að gefa Símoni hjólið sem sótti það og hafði það hjá sér í Garðabænum. Hann flytur svo seinna með það með sér til Víkur í Mýrdal. Þar skoðaði greinarhöfundur meðal annars hjólið sumarið 1992 og var það þá enn með langa gafflinum.
Símon flutti svo aftur til Eyja og tók hjólið með sér í bútum, enda stóð þá til að fara að gera það upp. Það komst þó ekki lengra en það og gaf Símon því Bigga hjólið aftur. Biggi einhenti sér í verkið að gera hjólið upp og kláraði það á hálfu ári, eftir að hjólið hafði ekki verið brúkað í hálfa öld.
Hjólið bar fyrst númerið R-2815 og var í Bílabókinni 1945 skráð á Hjört Jónsson. Í Bílabókinni 1956 er það skráð á Skúla Jónsson, Laugavegi 70. Það er enn í eigu hans þegar það er skoðað síðast þann 23. júlí 1958 og fer þá líklega á númerið R-3922. Númerið er svo niðurlagt þann 10. nóvember 1959, líklega þegar það fer í annað umdæmi.
Gott Panther mótorhjól er auglýst til sölu 1. Nóvember 1945 í Morgunblaðinu. Einnig er um sumarið auglýst Panther mótorhjól, gott og sterkt í Vísi 7. Júní. Annað Panther mótorhjól sem var til hér á skrá var skráð 2,5 hestöfl og með númerið X-173 svo leiða má líkum að því að hér sé verið að auglýsa R-2815. Sá sem er skrifaður fyrir auglýsingunni er Lauritz Jörgensen hjá Skiltastofunni Hótel Heklu. Loks er Panther mótorhjól auglýst selt með tækifærisverði, ennfremur varahlutir seldir sér, í Vísi 27. Maí 1946 en ekkert kemur fram hver er að selja hjólið nema símanúmerið 2050. Það símanúmer er skráð á Þorstein Bergmann sem seldi Mimeograph fjölritunartæki.
Panther Model 100 var með 598 rsm toppventlavél sem hallaði fram (sloper) og var fremri hluti vélarinnar hluti af grindinni. Þjappan var 6,5:1 og voru hjólin oft notuð fyrir hliðarvagna. Model 100 kom fyrst á markað árið 1932 og var framleitt nánast óbreytt til 1963. Hjólið gat ná 80 mílna hraða og þótti traust og gott. Hjólið var framleitt í þrjá áratugi sem er sérstakt meðal mótorhjóla. Árið 1939 var M100 Panther hjóli ekið stöðugt 10.000 mílur í níu daga samfleytt á milli Leeds og London um miðjan vetur. Aðeins þurfti að sinna minni háttar viðgerð á bensínleiðslu og slitinni keðju en að öðru leyti stóðst hjólið þessa raun.