Categories
Uncategorized

Fyrsta myndin af Indian Chief!

Það hefur alltaf truflað mig að eiga enga mynd af seinni tíma Indian mótorhjólunum sem hingað komu. Á Íslandi voru kringum seinni heimsstyrjöldina til þrjú Chief mótorhjól og eitt Scout en einhverra hluta vegna hafði ég ekki haft spurnir af nema einni mynd, sem því miður týndist þegar myndasafni viðkomandi fjölskyldu var hent. Svo gerist það um síðustu helgi að hinn norski Halvor Midtvik var í heimsókn hjá mér, en hann er Norðmaður sem á nokkur Indian mótorhjól og hefur heimsótt Ísland á einu þeirra. Ég sagði honum einmitt frá þessum hjólum og að ég ætti því miður enga mynd af þeim. Þá greip forsjónin inní eins og svo oft áður, því þegar ég kom heim beið mín tölvupóstur með 15 gömlum mótorhjólamyndum. Ég fletti gegnum myndasafnið og síðasta myndin setti mig í rogastans, því þar blasti einmitt við mér tilkomumikið Indian Chief á X-númeri!

Sagt er að hjólið hafi verið fallega blátt að lit með gylltum merkingum sem passar við litasamsetningu Indian Chief á þessum tíma.

X-96 var skráð á Erlend Þórðarson árið 1945 í Bílabókinni.
Hjólið var fyrst skráð á Smörlíkisgerðina Smára 22. maí 1942 og fékk þá númerið R-1140. Því næst ferð það á nafn Gunnars Guðjónssonar, Sogamýrarbletti 36 þann 6. mars 1943. Erlendur Þórðarson, Mjólkurbúi Flóamanna kaupir það svo þann 14. júlí 1944. Hugsanlega er þetta sama hjól og Lögreglan í Reykjavík fékk að láni á Lýðveldishátíðinni 18. júní 1944, en í kvikmynd frá atburðinum sést glitta í hjólið fremst í skrúðgöngu.

Hér má sjá samskonar Indian Chief mótorhjól en með annarri litasamsetningu.

Árið 1940 komu síðu brettin og gormadempari að aftan í Chief og Four hjólin. Þetta bætti þó 40 kílóum við þyngdina og þótti sumum það misráðið en á móti kom að mótorinn fékk álhedd með hærri þjöppu. Rauði liturinn var langt frá því að vera eini liturinn á Indian hjólum á þessum tíma. Indian Chief hjól Halvor Midtvik er mjög svipað X-96 nema að það er ekki komið með síðu brettin. Eins og áður sagði heimsótti hann Ísland árið 2007 og ásamt því að fara hringveginn fór hann meðal annars uppí Landmannalaugar á hjólinu.

Indian hjól Halvor Midtvik komið langleiðina uppí Landmannalaugar.
Ekið yfir polla á Kjalvegi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *