Bjargmundur Björgvinsson hafði samband við undirritaðan á dögunum með nokkrar gamlar mótorhjólamyndir úr safni afa síns, Bjargmundar Guðmundssonar. Bjargmundur hinn eldri var lengst af rafstöðvarstjóri í Hafnarfirði og átti nokkur mótorhjól en fyrsta mótorhjól hans var Bradburymótorhjólið. Á einni myndinni mátti sjá, svo ekki varð um villst, mótorhjól sem bar númerið RE-187, en það er einmitt númerið sem Bradbury-mótorhjólið bar. Við nánari skoðun á hjólinu á myndinni má sjá að um 1911 árgerð er að ræða sem gerir myndina ansi merkilega, því aðeins er vitað um eitt eldra mótorhjól á Íslandi, en það var ELG-mótorhjólið sem kom hingað fyrst allra árið 1905.
Bradbury-mótorhjólið var fyrst skráð á Óskar Westlund prentara 24. apríl 1920 og er ári seinna skráð á Bjarna Þorsteinsson, Vesturgötu 33. Það er svo tilkynnt 1924 að í apríl 1922 hafi hjólið verið selt Bjargmundi Guðmundssyni í Hafnarfirði, en hann átti einnig BSA-mótorhjólið HF-10 árið 1927 eða þar um bil. Allavega er RE-187 komið á Rugby-vörubifreið í byrjun árs 1928 svo að líklega hefur hann selt Bradbury-mótorhjólið um eða eftir miðjan þriðja áratuginn. Hjólið var upphaflega skráð eins strokka og 3 ½ hestafl og 60 sentimetrar á breidd svo ekki hefur það verið með hliðarvagni.
Bradbury er eitt af fyrstu mótorhjólamerkjunum en Bradbury-mótorhjól komu á markað árið 1902 með Minerva-vélum. Bradbury fékk einkaleyfi árið 1903 fyrir grind sem var ásoðin sveifaráshúsinu og þar af leiðandi þóttu hjólin stöðugri í keyrslu. Árið 1910 voru komnar kúlulegur í sveifarásinn og á þessum tíma þóttu Bradbury-mótorhjólin mjög fullkomin. Árið 1910 kom 3,5 hestafla gerðin á markað og voru tvær gerðir Bradbury þá á markaði, bæði 517 rsm. Gerðirnar kölluðust Sport og Standard og voru búnar reimdrifi. Þá voru þær búnar Dunlop-dekkjum og Brooks-hnakki, en Standard-útgáfan eins og hjól Bjargmundar var með gaslukt með gastanki fyrir ofan bensíntankinn og þekkist 1911 árgerðin af því.
Fyrsta skráða heimild um mótorhjól á norðurlandi er grein í Verkamanninum 10. júlí 1919 en þar segir svo: “Fyrst minnst er á bifreiðarnar. er ekki hægt að sleppa nýtískuleikfangi, sem nýkomið er til bæjarins. “Mótorhjól” er það kallað í daglegu tali. Ekki ber svo mikið á þessum ferðarokk á daginn, en með kvöldinu fer hann á kreik, og stundum hraðara en skyldi. Standa þessar skemmtiferðir stundum langt fram á nótt og fylgir þeim töluverður hávaði. Fólk kvartar sáran undan þessu óþarfa næturgöltri, en ekki ber á öðru en næturvörðurinn láti það afskiftalaust.” Um haustið sama ár fer líka að bera á auglýsingum um Henderson mótorhjólið sem Esphólín Co. á Akureyri hafði umboð fyrir, en hingað til lands kom eitt slíkt hjól sem var fyrir norðan fyrstu árin og er nú varðveitt á Mótorhjólasafninu á Akureyri.
Talsvert var um mótorhjól á Akureyri og nágrenni strax á millistríðsárunum enda hafa þau verið hentug til ferðalaga á þeim vegum sem þar voru á þessum tíma. Meðal fyrstu mótorhjóla norðan heiða hafa verið Henderson mótorhjól Esphólín frá 1918 og Harley-Davidson hjól Gríms Valdimarssonar sem var 1920 árgerð. Ekki er vitað hvaða A-númer var á Henderson mótorhjólinu en hjól Gríms var fyrst með númerið A-16 en síðar A-41. Önnur mótorhjól með lág A-númer voru AJS hjól Stefáns K. Snæbjörnssonar sem bar A-17 og A-21 sem var í eigu Eggerts Stefánssonar. A-17 var með vélarnúmerið 48475 og hefur samkvæmt því verið Model E6 af 1925 árgerð, en A-21 líklega 1928 módel. Næsta hjól með lágt númer var BSA hjól Gests Pálssonar með A-31 en á eftir því sjaldgæft Rudge Whitworth hjól Kristjáns Rögnvaldssonar frá Fífugerði. Einnig voru notuð E-númer á fyrstu árunum og meðal mótorhjóla sem báru E-númer var Opel hjól Tryggva Gunnarssonar sem fyrst bar númerið E-15 en síðar A-120.
A-52 var NSU mótorhjól í eigu Þórs Jóhanssonar og hefur verið fyrsta NSU mótorhjól landsins. Hann hefur átt hjólið 1934-35 en árið 1936 er það selt Gunnari Sigþórssyni. A-53 var svo Norton 18H mótorhjól frá 1934 í eigu Kristjáns P. Guðmundssonar. Næsta hjól í röðinni er svo A-59 sem var Triumph hjól í eigu Lárus J. Rist. Næst koma A-61 Ariel bifhjól í eigu Ólafs Jónssonar, Gróðrastöðinni og þvínæst A-62 sem var AJS í eigu Þorvalds J. Vestmann. A-63 var þýskt DKW sem Marinó Stefánsson átti.
A-68 var Triumph hjól sem að Aðalsteinn Einarsson átti frá 1934-37 en þá keypti Ölver Karlsson hjólið. A-69 var Ariel 1929 sem að var meðal annars í eigu Inga Hanssonar, Þorsteins Davíðssonar og Hafliða Guðmundssonar. Triumph hjólið A-71 var í eigu Jóns Kristinssonar frá 1934-36 en svo í eigu Ágústs Ásgrímssonar. A-77 var Ariel hjól sem var í eigu Þorsteins Benediktssonar lengi vel. RMW var sérstakt hjól frá Þýskalandi sem bar númerið A-89 og er í eigu Páls Tómassonar frá 1934. Það er svo komið í eigu Bifreiðastöð Akureyrar árið 1937.
Næstu A-númer eru svo A-103 og A-104, en það voru Triumph hjól í eigu Þorvalds Hallgrímssonar og Francis Barnett hjól í eigu Páls Sigurðssonar frá Bakka. A-107 var New Imperial mótorhjól sem fyrst var í eigu Karls Magnússonar en síðar Antons Kurtgannon frá Englandi. Sama var með OCD hjólið A-108 sem var í eigu Richard Ryel til 1936 en svo í eigu Friðjóns Axfjörð og Þóris Björnssonar. A-114 var Triumph mótorhjól sem var í eigu Jóns Helgasonar til 1936 en svo í eigu Björns Guðnasonar og svo Ingólfs Kristinssonar. A-128 var DKW hjól með vélarnúmerið 266913 í eigu Vigfúss Sigurgeirssonar. A-136 er svo áðurnefnt Harley-Davidson hjól frá 1920, þá komið í eigu Björns Guðnasonar og svo Jóns Sigurgeirssonar frá Helluvaði. OEC hjólið A-108 hefur svo í stuttan tíma farið á A-142 undir nafni Gook 1935 áður en það er selt til Reykjavíkur. A-157 er svo Triumph sem var í eigu Kristins Sigmundssonar frá Hóli.
Norðlingur, 30. ágúst 1928.
Á mótorhjóli fóru þeir austur í Mývatnssveit fyrir stuttu Ottó Baldvins símritari og Vigfús Sigurgeirsson Ijósmyndari. Fóru þeir alla leið að Skútustöðum, og komu einnig að Grenjaðarstað. 3 og 1/2 kl. st. voru þeir þaðan og hingað tii Akureyrar. Þessi leið hefir aldrei verið farin áður á mótorhjóli.
Dagur, 19. ágúst 1937.
Maður slasast á Akureyrargötum.
Um miðja síðustu viku var Herluf Ryel skipasmiður hér í bæ á leið heim til sín síðla kvölds og fór á bifhjóli. Maður í innbænum, Gunnar Thorarensen, heyrði að ekið var bifhjóli eftir götunni, en skyndilega heyrði hann þungt högg og í sama bili að tók fyrir gang bifhjólsins. Fór hann þá á fætur og fann Herluf liggjandi á götunni meðvitundarlausan í nánd við húsið nr. 19 við Aðalstræti. Hjá því húsi var gryfja í austurhluta götunnar, en allstór sleði hafði verið lagður yfir gryfjuna, og á hann er álitið að Herluf hafi ekið. Læknir kom brátt á vettvang, og var Herluf flutitur á sjúkrahús. Hafði hann hlotið meiðsl á höfuð og hefir legið meðvitundarlítill síðan.
Verkamaðurinn, 20. júlí 1929.
Nýlega fóru þeir Jón O. Guðmann kaupm. og Þórður Jóhannesson smiður til Sauðárkróks á sínu ARIEL-bifhjólinu hverHafði Ouðmann frúna með í körfu. Á vesturleið hrefti ferðafólkið rigningu og norðanstorm. Voru vegir því slæmir á fjöllum uppi. En hjólin reyndust veltiþing og gekk ferðin ágætlega
Pétur Símonarson frá Vatnskoti í Þingvallasveit var þekktur fyrir marga vélarsmíðina og smíðaði meðal annars tvo vélsleða sitt hvoru megin við seinni heimsstyrjöldina með mótorum úr flugvélum. Hann notaði einnig mótorhjól við smíði sumra tæka eins og Vatnadrekans sem var með motor úr gömlu mótorhjóli. Einnig breytti hann gömlu Ariel mótorhjóli fyrir vetrarakstur og fór á því víða og fjöllum við aðeins um það hér.
Fyrst er minnst á Ariel mótorhjólið í Nýja Dagblaðinu þann 18. Apríl árið 1937 í grein um það þegar Pétur fór á Skjaldbreið á hjólinu. “Um páskaleysið í vetur tók Pétur Símonarson í Vatnskoti við Þingvallavatn að vinna að útbúnaði, sem hann kom fyrir á mótorhjóli, er hann átti, og sem hann ætlaðist til að gerði kleift að fara á því yfir tiltölulega lausan snjó. Festi hann málmskíði meðfram framhjólinu og undir vélarkassann og setti á það gilda bílakeðju.
Á sunnudaginn var steig Pétur svo á hjól sitt og stefndi Kaldadalsveginn til fjalla. Var þá auð jörð hið neðra, en óslitin snjóbreiða úr því kom innfyrir Hofmannaflöt. Fór hann eftir íshrönn meðfram Sandvatni og síðan beint af augum upp Skjaldbreið. En þegar ofarlega kom í fjallið varð hann að halda skáhallt upp hlíðarnar vegan hallans og komst hann þannig alla leið uppá fjallið, þar til hann átti aðeins ófarna 200 metra að gígnum. Þar uppi hafði snjórinn bersýnilega aldrei hlánað neitt í vor. Veður var bjart og fagurt þennan dag og logn á öræfum. Drifhvítur snær svo langt sem augað eygði, en blánaði fyrir brúnum Hlöðufells og Skriðu. Niðri í hlíðunum var mikil sólbráð og þegar Pétur fór til baka, hafði fönnin hjaðnað svo mikið, að snjórinn, sem hjólin höfðu bælt undir sig, er hann fór upp, stóð nú eins og lág brún upp úr hjarnbreiðunni. Við Sandvatn var færðin orðin mjög slæm, en þó gekk allvel og alls var Pétur 8 klukkustundir í ferðinni. Pétur segir, að gott sé að ferðast á hjólinu, með þessum útbúnaði, sé snjórinn það samanbarinn, að hann haldi gangandi manni, en tafsamt sé hann lausari.”
Í viðtali við Tímann 5. Maí 1963 segir Pétur aðeins ffrá hjólinu þegar hann er spurður hvort að hann hafi farið á slíku tæki uppá Skjaldbreið. “Já, og um hávetur” svarar Pétur. “En þetta var ekkert venjulegt mótorhjól. Ég var búinn að umbreyta því. Ég smíðaði tannhjól í það og gíraði niður, svo það yrði kraftmeira. Svo setti ég aluminiumskíði sitt hvoru megin við framhjólið, stálskíði undir mótorinn og gírkassann. Ég smíðaði nýjan gaffal á það að aftan og setti sverari hjólbarða undir það og hafði á því keðjur. Svo brunaði ég á því út um allar trissur, fór oft yfir heiðina til Reykjavíkur, þótt allt væri ófært. Það var svo kraftmikið, að snjórinn stóð í strók á eftir mér.” Gekk ekki erfiðlega upp á Skjaldbreið? “Nei, Nei, en ég varð að skáskera brekkurnar upp og velja leið; þar sem snjórinn var fastastur. Ég var aftur á móti ekki lengi á leiðinni niður, brunaði. bara beint af augum. Þag kom náttúrlega stundum fyrir, að ég missti það niður í krapafláka, en smávegis erfiðleikar höfðu ekki mikil áhrif á mann. Maður var alltaf að skrattast á þessum mótorhjólum. Þegar ís var á Þingvallavatni, djöfluðumst við nokkrir strákar á mótorhjólum fram og aftur á glerhálu svellinu, þetta var okkar líf og yndi.
Pétur lenti í slysi á hjólinu á veginum milli Þingvalla og Vatnskots eitt sinn. Þá mætti hann bíl svo að hann leti útan vegar og á gjárvegg þar sem hjólið stoppaði en hann flaug sjálfur yfir.
Í öðrum þætti Vestfjarðarmótorhjólanna fjöllum við um hjól sem margir þekktu en það var Matchless mótorhjól Helga Hartarsonar sem bar númerið Í-88. Helgi Hjartarson átti reyndar þrjú mótorhjól uppúr seinna stríði. Fyrst kom Royal Enfield herhjól líkt og áður hefur verið talað um, því næst Matchless G8L og svo BSA mótorhjól sem enn er til hérlendis óuppgert. Að sögn sonar hans Hjartar Helgasonar þótti honum vænst um Matchless hjólið, sem hann seldi fyrir útborgun í íbúð þegar hann gifti sig. Hjörtur fékk oft að fara með honum rúntinn á því hjóli, og sat lengst af á bensíntankinum á sérstökum púða sem amma hans útbjó. Til er mynd af honum þar sem hann situr í fangi föður síns á BSA hjólinu.
Einu sinni ákvað hann að fá sér rúnt til Þingeyrar einn síns liðs á Matchless hjólinu. Þegar hann kom uppí Kinn mætti hann Ágústi Leósyni á mótorhjóli. Hann spyr hvert Helgi sé að fara og þegar hann heyrir það segir Ágúst. „Ég er að koma þaðan en ætla að snúa við og koma með þér.“ Þetta sýnir hvað menn höfðu gaman af mótorhjólunum á þessum árum. Helgi var mikill veiðimaður á bæði stöng og byssu. Hann fór allra sinna ferða á hjólinu og oft í veiðiferðir. Stundum fór vinur hans með til rjúpna en þá setti Helgi bakpokann og byssuna framan á sig, en vinurinn hafði sitt á réttum stað. Þannig keyrðu þeir alla leið í Arnarfjörð og víðar. Einu sinni plataði hann vin sinn til að koma með sér í langferð, alla leið suður yfir Snæfellsnes. Þar var unnusta hans í kaupavinnu það sumar. Þegar þeir voru komnir langt suður yfir gömlu Þingmannaheiðina þá yfirtók feimnin kjarkinn, og þeir snéru við.
Þegar við fréttum af því að búið væri að gera upp gripinn hans Helga urðum við að heimsækja eigandann, Guðmund Ásgeirsson, en hann hefur átt hjólið síðan 1963. Hann á annað mótorhjól sem hann hefur gert upp en það er BMW R50 1967 sem að Karl K Cooper átti einu sinni, en það er önnur saga. Við spurðum Guðmund hvernig hjólið komst í hans eigu. „Pabbi minn var vörubílsstjóri í Njarðvík og í einni af ferðum hans inná Stapa sem var þá ruslahaugur, hitti hann á félaga sína sem voru að henda drasli úr bílskúrstiltekt. Þar á meðal var hræið af þessu hjóli.“
Að sögn Guðmundar var það eina sem var nothæft úr hjólinu, stellið og hjólnáin og svo botninn úr mótorsnum ásamt gírkassa. „Brettin voru ónýt en það var hægt að nota stögin. Ég lét smíða bretti sem voru völsuð en ég þurfti svo að laga til og hnoða saman“ sagði Guðmundur. „Fljótlega eftir að ég fæ hjólið hjá honum var ég kominn með vél frá Englandi sem ég gat notað toppinn úr. Þá varð maður var við viðmótið hjá Tollinum sem vildi skipta sér af því hvað ég væri að panta þetta sjálfur, og vildi meina að ég ætti að fá þetta í gegnum umboðið.
Ég kom svo hjólinu í gang en þegar ég fór í skóla var það sett í geymslu. Það er reyndar skemmtileg saga af því þegar það var komið í gang, en þá kom pabbi að því þar sem það var í gangi. Hann spyr hvort að hann mátti prófa en hann hafði aldrei prófað svona áður. Hann settist á hjólið og ég sýndi honum gírana og þess háttar. Með það rauk hann af stað og endaði í gegnum trégrindverkið í næsta garði.“ Óhætt er að segja að það hafi vel tekist til við uppgerðina hjá Guðmundi sem vonast til að geta prófað hjólið í vor með hækkandi sól.
Í bók minni „Þá riðu hetjur“ frá 2005 fjalla ég um fyrstu Yamaha hjólin sem hingað komu gegnum Bílaborg árið 1974, svo vitnað sé beint í texta bókarinnar. „Árið 1974 koma fyrstu Yamaha hjólin til landsins og voru það RD 50 til að byrja með. Það var Þórir Jensen hjá Bílaborg sem að flutti inn Yamaha hjólin. Voru þau send með Síberíulestinni í gegnum Rússland þar sem að erfitt var með flutning gegnum Súezskurð á þessum tíma. Komu 50 hjól í hverri sendingu, mest af skellinöðrum en seinna komu stærri hjól og þá aðallega torfæruhjól.” Meðal annars er tilgangur þessarar heimasíðu að leiðrétta ef upp koma rangfærslur, eftir útgáfu bókarinnar, eins og er í þessu tilviki.
Fyrstu mótorhjólin frá Yamaha voru flutt inn af Japönsku Bifreiðasölunni árið 1967 og voru fjögur talsins. Þá vann Þorkell Guðnason þar og fékk það hlutverk að setja saman þessi fjögur hjól og prófa. Hann minnir að 80 hjólin tvö hafi ekki fengið skráningu þar sem að ekki var hægt að skrá þau sem skellinöðrur. “Ég var á þessum tíma þjónustustjóri hjá Japönsku bifreiðasölunni í Ármúla 7, sem var fyrsta Toyota umboðið á Íslandi, en við fengum bíla og þessi hjól frá Erla Auto Import í Danmörku. Það var lítill áhugi fyrir 80 rsm hjólunum sem pössuðu ekki á markaðinn hér, en ég prófaði þau í gryfjum þar sem nú er Fjölbrautaskólinn í Ármúla. Annað stærra hjólið fór á Skagaströnd en sá sem fékk 250 hjólið var Unnsteinn Egill Kristinsson, nágranni minn í Kópavoginum á þessum tíma. Hann seldi hjólið eftir að hafa lent í árekstri við hross hjá Bergsstöðum í Biskupstungum.”
Egill minnist þess vel þegar hann lenti í árekstrinum við hrossið og sagði að það hefði þurft að aflífa það. “Það hljóp hrossahópur uppá veginn í veg fyrir mig og ég lenti á einu þeirra. Ég fótbrotnaði illa en hjólið skemmdist nokkuð mikið en ég lét laga það gegnum tryggingarnar sem að tók meira en ár að gera í lag. Þar sem ekki var hægt að fá rétt stýri og fleira breyttist það aðeins í meðförum okkar en ég seldi það svo til Reykjavíkur.”
Það er ekki einfalt mál að finna út úr eigendasögu gamalla mótorhjóla á Íslandi og skráningarupplýsingum þeirra. Fyrir það fyrsta eru þær skráningarupplýsingar sem eru til frekar gloppóttar og oft þarf að reiða sig á aðrar upplýsingar eins og ljósmyndir eða munnlegar heimildir. Við getum tekið tvö dæmi en það voru skráningarnar R-1129 og R1164. Á forsíðumyndinni með þessari grein má sjá R-1129 að leik í snjónum við Stærribæ í Grímsnesi en þar bjó Hafliði Grímsson sem átti X-171, en þá átti Ólafur Sigurðsson nágranni hans R-1129.
Svo við byrjum á R-1129 var það fyrst á Harley-Davidson mótorhjóli þegar það kom á númer og þá í eigu Eyjólfs Steinssonar. Það hjól hafði áður borið númerið R-23 en með breytingu á númeraskrá kringum 1940 voru bifhjól flutt á númerin R-1100-1199 í Reykjavík. Það dugði þó ekki lengi en þar sem mikið kom af hjólum til landsins á stríðsárunum þurfti að bæta við á nokkrum árum R-2800, R-3500 og R-3900. R-1129 sem Harley fer svo á nafn Guðna Guðbjartssonar, Seljavegi 39 1941-42. En svo við víkjum aftur að R-1129 til ársins 1945 er númerið komið á Triumph hjól af 1927 árgerð en þá átti Skarphéðinn Frímannsson það. Uppúr seinna stríði er númerið komið á Royal Enfield mótorhjól sem var fyrst í eigu Ólafs Sigurðssonar.
Á árunum eftir stríð bjó hinn danski Hans Peter Christensen hér um nokkurra ára skeið. Númerið R-1129 er þó hvergi skráð á hann í skráningarupplýsingum og er aðeins sjáanlegt á nokkrum ljósmyndum. Svo merkilega vildi til að sonur hans heimsótti Mótorhjólasafn Íslands fyrir skömmu og rakst þá á mynd af föður sínum úr myndasafni undirritaðs. Í Bílabókinni frá 1956 var svo númerið skráð á BSA 1947 árgerð í eigu Inga R. B. Björnssonar.
R-1164 var fyrst á gömlu Monark 1928 mótorhjóli frá Svíþjóð, en það var skráð á Ásgeir Vigfússon til heimilis að Hraunborg við Engjaveg. Það er selt á Þistilfjörð árið 1943 og fer þá númerið á Norton herhjól frá 1940.
Það er fyrst í eigu Arnórs Hjálmarssonar frá Steinhólum við Kleppsveg 1943, en 1944 í eigu Jóhanns Einarssonar, Miklubraut 28. Gísli Sigurðsson frá Hrauni eignast það 1945 en sama ár fer R-1164 á nýttinnflutt AJS mótorhjól frá Englandi. Fyrst er það í eigu Jóns Ingvarssonar, Framnesvegi 18 og 1946 er það komið undir Bjarna Steingrímsson, Reykhólum. Árni Sigurðsson, Grettisgötu 47 eignast það sama ár en 1947 er það komið í eigu Björns Kristjánssonar frá Skagaströnd en þá fer það á númerið H-191.
Árið 1949-50 er það komið á BSA hjól í eigu Tove Olsen frá Grenimel 38 en það hjól er svo flutt til Danmerkur. Næst sjáum við númerið á Rex skellinöðru frá 1954 en það var í eigu Hafsteins Daníelssonar, Sörlaskjóli 16 árið 1956. Árið 1957 er númerið komið á Vespa mótorhjól sem líklega var fyrsta eintakið hérlendis en það hjól má sjá á nokkum myndum með það númer. Loks er númerið aftur komið á BSA hjól 1959 og var þá í eigu Valdimars Samúelssonar.
Erfitt er að segja með nákvæmni hvenær fyrsta Indian mótorhjólið kom til Íslands. Fyrsta heimild um slíkt hjól er þegar auglýstur er mótorhjólhestur „Indian“ nærri nýr í Vísi þann 4.-5. september 1917. Þar er talað um að hjólið sé 7,5 hestöfl og sé til sýnis í kjötbúð Milners. Líkast til er hér um að ræða RE-41 sem er rakið hér fyrir neðan. Indian hjólin virðast hafa komið snemma og enst þokkalega vel, en 3 slík eru enn skráð árið 1930. Við höfum áður fjallað um RE-233 svo við sleppum því í þessari upptalningu.
RE-41 Indian mótorhjól með vélarnúmerið 84F148 og er það skráð 0,45 metrar á breidd svo það hefur ekki verið með hliðarvagni. Vélarnúmer bendir til þess að um 1914 módel af Model F hjóli sé að ræða, en það var 7 hestöfl og fyrsta Indian hjólið með rafstarti. RE-41 er fyrst skráð á A. Grímsson og svo selt Kristjáni Gíslasyni, Vesturgötu 57. Það er skráð 4. Október 1921 á Karl Oskar Hedlund á Norðurstíg 7. Það er selt Bjarna Þorsteinssyni 15. Febrúar 1923 og 18. júlí 1925 er það selt Jóni Sveinbjörnssyni Hverfisgötu 90. Mánuði síðar er það tilkynnt að hjólið sé brotið og ónothæft.
RE-44
Þetta númer var skráð á mótorhjól í eigu Rosenkilde á Vesturgötu árið 1918. Í Morgunblaðinu þann 10. júní 1919 er mótorhjól auglýst til sölu og kemur fram að um Indian hjól sé að ræða, sem var eign Rosenkilde sem andaðist um veturinn. Það er auglýst selt með 5 kössum af bensíni og smurningsolíu, varadedkkjum og slöngum. Er þeim sem áhuga hafa bent á að tala við pakkhúsmann Nathans & Olsen.
RE-47 Skráð Indian mótorhjól en ekki með vélarnúmeri. Það er sagt 3,2 hestöfl og 0,8 metrar á breidd og aðeins 75 kíló og aðeins fyrir ökumann. Því er líkast til um Light Twin hjólið frá Indian að ræða. Þann 7. Júní 1929 er það skráð á Theódór Þorláksson, Vesturgötu 42. Það er selt haustið 1929 til Engelhart Svendsen á Norðfirði og fer á númerið NK-3.
RE-117 Það er skráð 22. Maí 1919 sem Indian mótorhjól. Það er á nafni Carl Ólafssonar ljósmyndara, Laugavegi 24. Hestaflatalan er 3,2 hestöfl og 75 kíló svo aftur er um Light Twin að ræða. Það er skráð með vélarnúmerið 31K948 svo um 1918 árgerð er að ræða. Jóhann Þorláksson, Nýlendugötu 19 á svo hjólið og hann selur hjólið Óskari Árnasyni, Nýlendugötu 21 í desember 1922. Tilkynnt 21. Júlí 1925 að hjólið sé eign Jóns Alexandersonar hjá Rafveitunni. Upplýst við aðalskoðun bifreiða 1927 að bifhjól þetta liggi í pörtum í Rafstöðinni við Elliðaár, eigandi þá erlendis. Komið á nafn Gísla Guðlaugssonar vélstjóra, Hverfisgötu 106 þann 28. Júní 1933.
RE-128
Hjólið er skráð 4. júní 1919 sem Indian mótorhjól. Það er á nafni Halldórs Eiríkssonar kaupmanns, en hann mun hafa endursent það strax til Danmerkur.
RE-132
Hér ber skráningarupplýsingum ekki saman en í skráningum árið 1922 er hjólið sagt 7,9 hestöfl. Í skráningarhefði er það hins vegar 3,2 hestafla Indian hjól af sömu stærð og önnur Light Twin hjól. Það virðist fyrst vera skráð 30. Júní 1919 en þá fær Gustav Carlson, Grettisgötu 53 þetta númer á mótorhjól. Þann 15. September 1922 er tilkynnt að Sigurður Jóhannsson, Grettisgötu 46 hafi keypt hjólið um sumarið. Þann 18. Júní 1923 er hjólið skráð á Guðfinn Þorbjörnsson, Kolasundi 1 og 21. September sama ár er það tilkynnt eign Ólafs Hannessonar, Garðastræti 1. Árið 1926 er það sagt ónothæft en samt er það skráð 1928 svo að hann hefur líklega sameinað það við RE-47 áður en hann selur það til Norðfjarðar. Þar mun það hafa verið í eigu Engelhart Svendsen og er sagt frá því að hann hafi ekið því með skellum svo tekið var eftir um bæinn.
RE-159
Þetta er Indian mótorhjól, skráð á Harald Rasmusen, Laugavegi 38 þann 18. Ágúst 1919. Hjólið virðist vera flutt með MS Íslandi til Danmerkur 30. September sama ár.
RE-189
Enn eitt Light Twin Indian mótorhjól sem er skráð á þá Konráð og Kristinn Guðjónssyni þann 24. Júlí 1925. Tilkynnt með bréfi 15. Maí 1927 að bifhjólið er selt Valdimari Bjarnasyni, Bergstaðarstræti 9. Tilkynnt 11. Ágúst 1928 að bifhjól þetta sé selt Guðna Sigurbjarnasyni járnsmið, Öldugötu 8. Komið á nafn Eggert Ólafssonar vélstjóra, Vesturgötu 23 þann 25. Júlí 1929. Þann 25. September 1931 fer það á Jóhann Björnsson, Framnesvegi 6b.
R-682
Þetta er Indian hjól með vélarnúmerið EG1304 sem þýðiur að um 1930 módel af Scout 750 var að ræða. Hjólið er skráð 1,5 metrar á breidd svo það hefur verið með hliðarvagni. Það er skráð á Valdemar Kristjánsson, Öldugötu 45 þann 14. Ágúst 1942 en mánuði síðar er það komið á nafn Guðbjörns Jónssonar, frá Úlfsá á Ísafirði. Seinna fer það á nafn Stefáns Jónssonar frá Flateyri með númerið Í-56.
R-1140
Indian sem upphaflega er skráður á Smörlíkisgerðina Smára í maí 1942. Hjólið er með vélarnúmerið CDO3349 sem þýðir að um hið veglega Chief er að ræða, hugsanlega herútgáfu frá Kanada 1940 módel. Gunnar Guðjónsson, Sogamýrarbletti 36 er skráður fyrir því 6. Mars 1943 og 14. Júlí 1944 er það sett á nafn Erlends Þórðarsonar hjá Mjólkurbúi Flóamanna og fær númerið X-96.
R-1153
Hjólið er fyrst skráð 11. Júní 1942 á Jón Benjamínsson, Víðimel 44. Hjólið er með vélarnúmerið CCF1466 sem þýðir að um 1200 rsm Chief 1936 er að ræða enda hjólið skráð 12 hestöfl. Sigurður Benjamínsson, Hverfisgötu 73 er skráður fyrir því 14. September 1944 og Friðþjófur Óskarsson, Framnesvegi 46 er kominn með það á sitt nafn 29. Maí 1945. Hjólið er auglýst í Morgunblaðinu 19. Júní 1945 og daginn eftir er Karl Jónsson, Höfðatúni 5 e skráður fyrir því. Magnús Þórðarson, Hlíðardal Kringlum er skráður fyrir hjólinu 2. Ágúst sama ár. Harald Friðriksen, Reykjum í Mosfellssveit fær það svo 3. Mars 1946 og það er enn á skrá ári seinna og er þá komið með númerið G-669.
Það getur verið athyglisvert að skoða upplýsingar um innflutning mótorhjóla gegnum árin hér á Íslandi. Hann virðist hafa verið nokkuð sveiflukenndur svo ekki sé meira sagt enda höfðu utanaðkomandi aðstæður mikil áhrif á þessa hluti, ekki síst mótorhjólin sem voru munaðarvara. Skráningar virðast hafa verið á reiki til að byrja með og engin til fyrr en 1918, og í sumum tilfellum hef ég rekist á mótorhjól gegnum tíðina sem engin skráning hefur fundist á, jafnvel þótt vitað sé um sögu hjólsins í langan tíma.
Fyrsta mótorhjólið kom hingað 1905 og einu heimildirnar sem af því hafa fundist er frá því ári, svo líklegt má teljast að það hafi farið út aftur sama sumar. Ekkert er hægt að sjá í gögnum um innflutning mótorhjóla aftur fyrr en 1915 þegar eitt mótorhjól er skráð í hagskýrslum um utanríkisverslun. Þar er svo enginn innflutningur næstu tvö ár en allt í einu árið 1918 eru 21 mótorhjól flutt til landsins. Það stemmir þó ekki við fyrstu skráningu ökutækja sem fram fór 1918 en þá eru 36 mótorhjól á þeim lista þannig að ljóst má vera að þónokkur mótorhjól eru ekki í hagskýrslum.
Árið 1918 er merkilegt fyrir nokkrar sakir en þá getum við í fyrsta skipti bæði séð fjölda mótorhjóla og innflutningstölur. Algjör sprengja virðist hafa orðið 1918 en þá komu 21 mótorhjól til landsins eins og áður sagði. Eitt er þó sagt ónýtt og tvö seld til Danmerkur 1919. Næsta skráning fer fram árið 1922 og þá voru skráð 36 mótorhjól. Það segir þó ekki alla söguna því sagt er þar frá mótorhjólum sem seld höfðu verið erlendis eða voru orðin ónýt frá síðustu skráningu sem var árið 1918. Eitt ónefnt mótorhjól með númerið RE-42 mun hafa brunnið 1920 að Laugavegi 31. Eins mun annað ónefnt hjól, RE-58 hafa verið löngu eyðilagt eins og sagt er. Loks voru tíu hjól seld erlendis, eitt til Svíþjóðar og níu til Danmerkur.
Árið 1925 eru aðeins 25 mótorhjól skráð á landinu en árið 1926 fer innflutningur að taka við sér og 13 ný mótorhjól eru flutt til landins. Áhuginn heldur áfram að vaxa og árið 1929 eru 34 mótorhól flutt hingað. Er svo komið að 1930 fer fjöldi þeirra yfir 100 enda eru 105 mótorhjól þá skráð í landinu. Haustið 1931 var bannaður innflutningur á óþarfa varningi vegna heimskreppunnar. Meðal þess sem bannað var að flytja inn voru mótorhjól og sést það vel á innflutningstölum en einnig í skráningum hjóla hérlendis. Talsvert var til dæmis flutt inn af Ariel, BSA, Triumph og Harley-Davidson kringum 1930 en eftir 1931 eru ekki fluttar inn nýjar árgerðir. Þau hjól sem til eru í dag frá 1930-40 eru líklega flutt inn í stríðinu eða rétt eftir það. Þessar reglur urðu enn harðari 1933 og voru í gildi til 1939.
Árið 1946 virðist hafa orðið algjör sprenging í innflutningi mótorhjóla. Árið 1939 voru skráð bifhjól 101 á landinu öllu en 1946 urðu þau 546. Er þessi mikli fjöldi tilkominn vegna þess að íslenskir sjómenn silgdu mikið til Bretlands á þessum tíma með fisk, en þar var hægt að fá mótorhjól fallinna hermanna ódýrt á stríðsárunum. Í lok stríðsins voru svo herhjól seld bókstaflega í kippum, oft fimm saman og fengust þannig mjög ódýrt. Til eru dæmi um að þónokkur Royal Enfield herhjól hafi komið þannig hingað til lands, og mörg þeirra enduðu til dæmis á Vestfjörðum.
Um 1950 fækkar skráðum mótorhjólum um næstum helming og er engin sérstök skýring á því, nema að talsvert er um útflutning á hjólum í skráningarupplýsingum. Eru það þá í mörgum tilfellum útlendingar sem höfðu unnið hér sem flytja þau út. Eins má leiða getum að því að mörg þeirra hjóla sem enn voru á skrá frá því fyrir stríð voru óðum að týna tölunni. Um 1955 fer aðeins að bæta í tölurnar aftur en líklega má þakka það aukinni sölu nýrra hjóla en 1955 er talan komin uppí 332. Sú tala stendur þó í staðtil 1972 að mestu með aðeins nokkurra tuga mun.
Stóra bylgjan sem stundum hefur verið kölluð japanska innrásin hefst svo ekki hér svo heitið geti fyrr en árin 1973-4 þegar þess fer að gæta í fjölda skráðra mótorhjóla. Alls eru 343 mótorhjól í landinu 1973 en 420 árið 1974. Talan skríður svo yfir 500 árið 1978 og heldur svo smám saman að aukast allan níunda áratufinn þar til að 1000 hjóla markinu er náð árið 1989. Fljótlega eftir það hækkar talan áfram í 2000 hjól 1997 og er þar fram til um 2005 þegar talan fer að rísa ört. Er um helmingsfjölgun á mótorhjólum á næstu tveimur árum og fer talan yfir 8000 hjól árið 2007. Helst það í hendur við mikla aukningu á mótorhjólaprófum á þessum tíma sem fóru úr 300 í 1300 á örfáum árum. Árið 2020 er fjöldi bifhjóla kominn í 11.862 í árslok og er þá miðað við fjölda skráðra þungra og léttra bifhjóla. Má því vel áætla að 12.000 markinu verður náð áður en árið er á enda.
Þótt að efni þessarar síðu sé miðað við fornhjól á Íslandi eru sumar fréttir erlendis frá nógu merkilegar til að við fjöllum um þær hér. Ein af þeim er sagan af fyrsta Triumph mótorhjólinu sem nýlega uppgötvaðist aftur og var gert upp af safnaranum Dick Shepherd.
Margar sögusagnir voru til um hjól sem að Triumph smíðaði sem prótótýpu árið 1901 upp úr Triumph reiðhjóli. Til voru auglýsingar og fréttir um það í gömlum blöðum sem áttu að auka áhuga lesenda á smíði slíks hjóls. Vélin kom frá belgíska framleiðandanum Minerva. „Ég var beðinn um að skoða gamalt Triumph mótorhjól frá safnara og komst þá að því að hjólið var ekki eins og fyrstu Triumph mótorhjólin“ sagði Shepherd um fundinn. „Ég varð mjög spenntur að uppgötva það ásamt því að hjólinu fylgdi bréf frá Triumph síðan 1937 sem staðfesti uppruna þess. Það ásamt þeirri staðreynd að vélarnúmer Minerva mótorsins passaði við 1901 árgerð staðfest sögulegt gildi þessa hjól endanlega.“
Hjólið var frumsýnt á Motorcycle Live mótorhjólasýningunni í Bretlandi, en þann 14. desember verður hjólinu verður ekið í fyrsta skipti í meira en 100 ár. Það verður gert við verksmiðju Triumph í Hinckley, þar sem það verður svo sýnt við hlið milljónasta Triumph mótorhjólsins á sérstöku sýningarsvæði sem spannar 120 ára sögu merkisins. Aðgangur að því svæði verður ókeypis og verður opið daglega frá miðvikudegi til sunnudags frá 10-16:30, svona ef einhver skyldi hafa áhuga.
Arthur Gook var enskur trúboði sem ferðaðist mikið um landið á fyrripart aldarinnar. Stundaði hann trúboð og smáskammtalækningar auk þess að reyna að koma á fót fyrstu útvarpsstöðinni á Íslandi. Hann bjó á Akureyri og frá 1929 til 1935 var aðal farartæki hans mótorhjól. Hjólin voru allavega tvö og var það fyrra nokkuð merkilegt, af gerðinni OEC. Hann skildi eftir sig dagbækur þar sem hann fjallar um mótorhjólið meðal annars. Dagbækur þessar færði Þóra Guðrún Pálsdóttir á tölvutækt form og birti á bloggsíðu sinni, þaðan sem við fengum þennan úrdrátt.
Fyrst er minnst á mótorhjól í dagbókunum 23. júní 1930 þegar hann fer á hjólinu til Reykjavíkur, en sonur hans Eric hafði einnig farið suður á mótorhjóli tveimur dögum áður. Arthur leggur af stað frá Stöðinni eldsnemma morguns og borðar á Blönduósi en fer svo í Fornahvamm og gistir þar um nóttina. Daginn eftir fer hann af stað um hádegi og stoppar fyrst í Reykholti og svo Húsafelli. Heldur svo áfram gegnum Kálfadal til Þingvalla og þaðan til Reykjavíkur. Ljóst má vera á þessari lýsingu að það hefur verið erfið ferð á malarvegum þess tíma, og vel í lagt að fara hana á aðeins tveimur dögum. Hann heimsækir svo aftur Þingvelli áður en hann heldur 30. júní með skipinu Rodney til Englands. Á meðan á þriggja mánaða Englandsdvöl stendur kaupir hann sér forláta Douglas mótorhjól. Hann heimsækir meðal annars Veigastaði 27. október á hjólinu og fer með Eric syni sínum fram í Kristnes nokkrum dögum seinna á hjólinu. Hann virðist láta Eric hafa hjólið því að Eiríkur G. (Gook?) er skráður fyrir Douglas hjólinu A-106 1930 til 1933.
Í apríl 1931 fjallar hann um nokkrar ferðir á mótorhjólinu, sú fyrsta 6. apríl. Þar nefnir hann að vegirnir séu mjög slæmir ennþá en fjórum dögum síðar er hann aftur á ferðinni og segist hafa ekið yfir þrjár brýr, og segir þá vegina miklu betri. Þann 20. apríl fer hann á Grund á mótorhjólinu ásamt tveimur öðrum. Svo á sumardaginn fyrsta segir hann frá því að allir hafi farið saman á mótorhjólum upp í brekkurnar hinu megin við fjörðinn. Til eru myndir úr þeirri ferð sem var upp í Vaðlaheiðina. Hann segist þar hafa ekið í fyrsta skipti með farþega og að þetta hafi verið skemmtilegur tími.
Næst er Arthur á ferðinni á uppstigningardag 14. maí þegar sjö fóru saman á fjórum mótorhjólum til Bægisár. Lagt var af stað um tíuleytið og fegnu þau fínt veður, en ekið var til baka um kvöldmatarleytið. Svo er hann aftur á mótorhjólinu 25. maí þegar hann heimsækir Dalvík kl 12:30, Hrísey 2:30 og Svalbarðseyri 5:30. Hann fékk gott veður og fór með mótorbáti til Svalbarðseyrar þar sem hann hélt samkomu. Hann fór svo með hesti upp á þjóðveg þar sem Eric beið hans með mótorhjólið, en heim á Akureyri komu þeir ekki fyrr en um hálftólfleytið. Í júní fer hann í ferð til Sauðárkróks en hann borðar hádegismat á Öxnadalsheiði, en kvartar yfir vondum vegi í Hólmum, og kom því seint á áfangastað. Hann heimsækir Hofsós með mótorbát og gistir að Reykjahóli, svo Haganesvík daginn eftir. Þvælist hann um nágrennið næstu daga en fer svo heim á hjólinu 26. júní. Hann segist svo fara næst á mótorhjólinu þann 13. júlí í Vaglaskóg.
Arthur heldur svo til Reykjavíkur 31. júlí á mótorhjólinu og kemur á Blöndós daginn eftir, en hann gisti á Silfrastöðum. Hann er kominn að Fornahvammi 3. ágúst og daginn efir leggur hann af stað um hádegi. Talar hann um góða og slæma vegi en að gírarnir séu bilaðir á hjólinu. Daginn eftir er hann kominn á Akranes en fer svo með mótorbát til Reykjavíkur með mótorhjólið. Hann á fundi með ýmsu fyrirfólki næstu daga en fer svo á mótorhjólinu á Vífilsstaði 16. ágúst til fundar við Guðmund Einarsson.
Þann 28. ágúst fer svo Arthur með Suðurlandinu til Borgarness og þaðan til Stykkishólms á hjólinu. Þar er hann í nokkra daga og heimsækir meðal annars Flatey. Hann leggur svo af stað til baka suður um morguninn 9. september og gengur vel yfir skarðið. Hljóðkútur losnar af hjólinu en gert er við til bráðabirgða á bensínstöð, og svo haldið áfram í Borgarnes. Þar er gert almennilega við hljóðkútinn. Hann ekur síðan nýjan veg að Fornahvammi en þarf að fara yfir á. Daginn eftir heldur hann svo af stað norður en brýtur bremsupedal og fótstig á Holtavörðuheiði. Hélt samt áfram á fullri ferð að Stað og Melstað og gistir svo á Blönduósi. Daginn eftir fer hann yfir Vatnsskarð og yfir í Skagafjörð og svo áfram yfir Öxnadalsheiði. Þar slitnar kúplingsvír sem veldur honum töfum. Hann heldur áfram í fyrsta gír, fyrst í Bakkasel og svo að Steinsstöðum þar sem hann fær gistingu. Er ekki útskýrt hvernig hann kemst svo til Akureyrar en hann er allavega næst á ferðinni á hjólinu 23. september þegar hann fer með Shenton að Munkaþverá í góðu veðri.
Árið 1932 er þess getið strax í febrúar að Arthur sé á ferðinni á mótorhjólinu. Þá er þess getið að hann hafi ekið með sunnudagaskóladrengina í smá túra á mótorhjólinu, þeim til skemmtunar. Nokkru síðar fer hann með Helga Helgasyni á mótorhjólinu yfir brýrnar þrjár og ekki löngu seinna ekur Arthur um bæinn á hjólinu og tekur ljósmyndir. Mótorhjólið virðist þannig ekki einungis hafa verið tæki til að komast á milli staða, heldur virðist sem Arthur hafi haft gaman af því að skreppa í stutta túra á hjólinu og taka sér þannig örstutt frí frá amstri dagsins.
Arthur leggur af stað í ferðalag til Reykjavíkur þangað sem hann kemur 15. maí og er hann á mótorhjólinu. Hann hittir fjöldann allan af fólki og heldur samkomur á ýmsum stöðum, meðal annars í Keflavík þann 22. maí. Þangað fer hann á mótorhjóli og nefnir að hafa þurft að stoppa á leiðinni til að pumpa í afturdekkið. Hann var engu að síður kominn tímanlega. Næsta dag er Arthur þreyttur en það hindrar hann ekki í að fara með hjólið í viðgerð þar sem gert var við dekkið. Þann 24. maí fer Arthur með manni, Bjarna að nafni, á hjólinu til Þingvalla. Í byrjun júní fer hann til Eyrarbakka og heldur samkomu þar. Daginn eftir fer hann í Þrastarlund og ætlar sér að halda samkomu á Stokkseyri en verður að fresta henni vegna úrhellisrigningar. Hann heldur þess í stað áleiðis til Reykjavíkur og ferðin þangað gengur vel þrátt fyrir að hált hafi verið upp Kambana á mótorhjólinu.
Mánudaginn 20. júní leggur hann af stað til norður á mótorhjólinu. Veðrið var ekki uppá sitt besta, það var skelfilega hvasst og sandrok gerði honum erfitt fyrir. Ekki er ljóst hvar hann gisti um nóttina. Daginn eftir fer hann með báti yfir Hvalfjörð og drekkur kaffi að Kalastöðum áður en hann heldur áfram ferð sinni. Það rigndi í fyrstu en Guð svarðaði bænum hans og það dró úr regninu. Hann stoppar í Fornahvammi, fær kaffi og hvílir sig um stund. Um nóttina gistir hann hjá Þórði og Guðrúnu á Hvammstanga, sem taka vel á móti honum. Næsta dag heldur hann af stað um eittleytið. Vegirnir eru slæmir og keðjan var sífellt að detta af hjólinu, í eitt sinn gerðist það þegar hann var að aka upp brattann að Vatnsskarði. Hann stoppar að Víðimýri, fær sér mjólk að drekka og setur eldsneyti á hjólið. Áfram heldur hann að Ytri-Kotum þar sem hann þarf að vekja upp heimilisfólkið til að fá mjólk og bensín. Enn heldur Arthur áfram för sinni. Á Öxnadalsheiði er ákaflega hvasst og í Hörgárdal festist keðjan. Sem betur fer á bíll leið þar hjá einmitt á réttum tíma og bílstjórinn aðstoðar Arthur við að koma keðjunni í lag. Hann er ekki kominn heim á Sjónarhæð fyrr en milli hálf fjögur og fjögur aðfaranótt fimmtudags, eftir erfitt ferðalag.
Ekkert er minnst á mótorhjólið í dagbækum áranna 1933 og 1934 en í nóvemberblaði Norðurljóssins 1935 er sagt frá því af hverju tafir hafa orðið á útgáfu blaðsins, en var það vegna þess að Atrhur sem var ritstjóri blaðsins, lenti í slysi á mótorhjólinu skammt frá Reykjavík. Meiddist hann á höfði og fékk mikinn heilahristing og lá í tvær vikur á sjúkrahúsi. Hann ræðir í bréfi norður að hann búist ekki við að fara austur yfir heiðina á bifhjólinu, heldur tekur hann skipið Dronning Alexandrine norður seinna um veturinn. Árið eftir er hann kominn á bíl svo að líklega hefur hann selt hjólið um veturinn.