Categories
Uncategorized

Draumurinn um tækniminjasafn í dal Elliða

Ég ætla ekki að reyna að ímynda mér hversu oft ég hef hugsað þessa hugsun þegar ég er á gangi með hundinn minn um Elliðadalinn, þar sem ég bý. Af hverju er ekki tækniminjasafn í þessu sérstaka húsnæði á þessum flotta stað? Húsnæðið hefur verið olnbogabarn svo lengi sem starfsemi hætti þar árið 1981 en myndi sóma sér vel sem safn á svæði sem skipulagt hefur verið undir safnastarfsemi. Beint á móti stóð til að yrði Bílasafn Fornbílaklúbbsins en því miður náði sú frábæra og nauðsynlega framkvæmd ekki að verða að veruleika þótt húsið hafi risið, þökk sé efnahagshruninu. Nú er Toppstöðin hins vegar til sölu og með því skapast einstakt tækifæri til að láta reyna á þann möguleika aftur.

Þarna stendur Toppstöðin engum til gagns á besta stað til bænum. Mynd: NG

En af hverju er húsnæðið þarna ennþá gæti einhver spurt sig og af hverju er ekki löngu búið að rífa það? Jú, undir ytra byrði hússins er klæðning úr asbesti og myndi kostnaður við að rífa húsið hlaupa á tugum, ef ekki hundruðum milljóna króna. Landsvirkjun afhenti Reykjavíkurborg húsnæðið til eignar ásamt þremur lóðum í nágrenninu í febrúar 2007, með því skilyrði að borgin sæi um niðurrif stöðvarinnar. Síðan þá hefur borgin klórað sér í hausnum hvað gera skuli við húsnæðið og nú sautján árum síðar, enn ekki komist að niðurstöðu. Reynt var að auglýsa húsnæðið til leigu fyrir nokkrum árum en því var fálega tekið.

Hér má sjá hvernig Reykjavíkurborg sá fyrir sér hvernig stöðin gæti litið út að innan þegar Toppstöðin var auglýst til leigu fyrir nokkrum árum síðan. Mynd: reykjavik.is

Líklega hentar húsnæðið fáum vegna byggingarefnisins, og hversu hrátt það er í raun og veru. Þó er einn hópur sem vel gæti hugsað sér að gera alvöru með að nýta húsnæðið en það eru eigendur gamalla ökutækja og fleiri tengdir aðilar sem margir hverjir eru með gamla og verðmæta hluti í misgóðum húsnæðum. Ef Toppstöðin yrði að tækniminjasafni er það starfsemi sem að hentar þessu hráa húsnæði mjög vel. Stöðin er stór og tæki við miklu magni tækja og muna í sínum 6.000 fermetrum. Til eru dæmi um að gömul húsnæði sem þessi hafa fengið svona hlutverk á erlendri grund og gott dæmi um það er starfsemi Classic Remise í Berlín og fleiri borgum í Þýskalandi. Þar var það eldgömul sporvagnastöð sem að fékk nýtt hlutverk sem bilasafn.

Gamla sporvagnastöðin í Berlín er dæmi um hvernig hægt er að koma gömlum byggingum í endurnýjun lífdaga. Mynd: BMWblog

Byggingin sjálf var reist um aldamótin 1900 af Wilhelm öðrum Þýskalandskeisara. Þá var hún stærsta sporvagnastöð í Evrópu og gat hýst 300 vagna. Notkun sporvagna minnkaði þegar á leið og árið 1964 var starfsemin lögð niður. Í framhaldinu var húsnæðið nýtt undir geymslur, meðal annars fyrir bílasala en lokaði svo álveg árið 1996. Sjö árum seinna opnaði húsnæðið svo aftur undir nafni Classic Remise Berlin eftir endurbætur á húsnæðinu. Þar er á skemmtilegan hátt blandað saman gamla stílnum við sýningarbox úr gleri og stáli þar sem almenningur getur komið og skoðað. Húsnæðið hýsir í raun og veru farartæki safnara en einnig sérfræðinga af ýmsum toga sem sérhæfa sig í uppgerð, viðhaldi og sölu slíkra tækja.

Í húsnæði Classic Remise er á skemmtilegan hátt blandað saman varðveislu tækniminja og farartækja af ýmsum toga. Mynd: BMWblog

Hvort að slík framkvæmd gæti orðið að veruleika í Elliðadalnum er alsendis óvíst en enginn veit þó fyrr en á reynir. Líklega þyrfti góður hópur að standa að því að koma því á koppinn og ég myndi fyrir mina parta vera tilbúinn að taka þátt í slíku verkefni. Því væri gaman að heyra í öðrum sem áhuga gætu haft á þessu og sjá hvort að nægur áhugi væri fyrir hendi. Til þess þarf þó bæði mikinn áhuga og eflaust nokkuð fjármagn, sem þó væri örugglega talsvert minna en að reisa jafnstórt húsnæði á þessu stað. Verður því reynt að blása til fundar um verkefnið snemma í næsta mánuði, en lokafrestur til að skila tillögum um framtíðarstarfsemi hússins er til 15. ágúst næstkomandi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *