Til eru heimildir um að eitt stykki Thor mótorhjól hafi verið til á Íslandi kringum 1920. Samkvæmt elstu skráningarupplýsingum frá Reykjavík er Thor mótorhjól skrásett 15. maí 1919 á nafn Kristins Einarssonar, og fær það númerið RE-110. Varðveist hefur reikningur frá 24. maí 1919 sem sýnir að Jóhann Ólafsson & Co selur fyrirtækinu K. Einarsson & Björnsson hjólið. Samkvæmt Rudolf Kr. Kristinssyni, syni Kristins Einarssonar á faðir hans hjólið til 1923 þegar hann kaupir sér nýjan Buick, einnig af Jóhann Ólafsson & Co. Hugsanlega hefur hann sett hjólið uppí kaupin á bílnum þótt engar heimildir séu til um það. Allavega eru engar frekari heimildir um hjólið svo líklega hefur það farið aftur erlendis eins og algengt var á þessum tíma. Að sögn Rudolfs var hliðarvagn á hjólinu og notaði Hjalti Björnsson, viðskiptafélagi Kristins hjólið mikið, en hann var seinna þekktur fyrir innflutning á Willys bifreiðum.
Á reikningnum kemur fram að um 18 hestafla hjól er að ræða í litnum Olive drab. Það passar við 1.250 rsm (76,25 kúbiktommu) U-hjólið sem kom 1918-19. Thor merkið kemur uppúr Aurora sem framleiddi meðal annars vélar í fyrstu Indian Camelback mótorhjólin. Thor U módeiið kom á markað 1912 en árið 1914 var það komið í 1.250 kúbik og var útbúið þriggja gíra kassa. Hjólið var talið öflugt með sín 16 hestöfl og gat náð 90 km hraða. Thor Model U varð til dæmis í öðru sæti í Dodge City 300 árið 1914 sem var helsta mótorhjólakeppnin vestanhafs á þessum tíma. Thor Model U mótorhjól átti bestan tíma á 5 og 50 mílna moldarbrautum árið 1913 og var því markaðssett sem kraftmesta mótorhjól síns tíma. Thor merkið er með eldingu efst sem á að vera elding þrumuguðsins Þórs. Thor hætti framleiðslu mótorhjóla árið 1919 svo að íslenska Thor mótorhjólið hefur verið eitt af þeim síðustu sem framleidd voru.